Sjálfstætt starfandi

Hefur þú heyrt talað um giggara? Hvað með harkara eða sjálfstætt starfandi? Allt eru þetta hugtök sem við notum þegar við ræðum um þá aðila sem starfa sjálfstætt eða sem verktakar og þetta er fjölbreyttur hópur. Fyrir sum er þetta góður kostur, en vert er að hafa í huga að þessi hópur nýtur ekki kjarasamningsbundinna réttinda sem launafólk hefur.

Þau sem starfa sjálfstætt eru eigin atvinnurekendur og sækja sér þannig bæði verkefni og innheimta sjálf endurgjald fyrir vinnu sína. Þetta á við um öll þau sem starfa með þessum hætti, hvort heldur þau eru kölluð giggarar eða verktakar. Þau eru verksalar, en ekki launafólk. Þau sem njóta þjónustu þessara aðila eru þau sem kaupa þessa þjónustu af þessum aðilum. Þau sem selja þjónustu sína/vinnu sína sem sjálfstætt starfandi þurfa því að reikna út og vita hvaða endurgjald þau eru tilbúin að óska eftir. Því er góð regla að huga að því hvað þau myndu sætta sig við sem launafólk.

Þau sem eru sjálfstætt starfandi þurfa að bæta við þá upphæð ýmsum gjöldum til að fá á það sama og ef þau væru starfandi sem hefðbundið launafólk. Auk þess eru mörg réttindi sem talin eru sjálfsögð í dag og sjálfstætt starfandi þurfa að huga að sjálf. Sundurliðun á þessum atriðum sem hafa ber í huga koma fram hér fyrir neðan. En flest eiga þau það sameiginlegt að hafa náðst fyrir hönd launafólks í gegnum áratugabaráttu samtaka launafólks eins og VR.

Örar tæknibreytingar og nýjungar á vinnumarkaði hafa fjölgað störfum sem standa sjálfstætt starfandi til boða, en margt ber að hafa í huga þegar farið er að vinna sjálfstætt eða farið í að sinna verki sem „giggari“, sem er yfirleitt ekki neitt annað en að vera sjálfstætt starfandi sem er sem fyrr segir verktakavinna.

  • Gæta skal vel að því að ekki sé um gerviverktöku að ræða
    Skatturinn hefur skilgreint hugtakið verktaki en það eru þau sem taka að sér að vinna ákveðið verk fyrir fyrirfram ákveðið verð fyrir verkkaupa. Þau vinna verk á eigin ábyrgð. Skilgreining á launamanni/starfskrafti skv. skattinum eru þá þau sem eru ráðin til starfa hjá atvinnurekanda þar sem þau vinna undir stjórn hans og á ábyrgð hans gegn greiðslu launa.

    Mörkin eru ekki alltaf skýr á milli þess hver eru launafólk og hver eru verktakar. Ríkisskattstjóri getur skorið úr um deilu hvort viðkomandi sé verktaki eða launafólk.

    Launafólk
    Er ráðið til starfa hjá atvinnurekanda þar sem unnið er undir stjórn hans og á ábyrgð hans gegn greiðslu launa.

    Verktaki
    Tekur að sér að vinna ákveðið verk fyrir fyrirfram ákveðið verð fyrir verkkaupa. Verktaki vinnur á eigin ábyrgð.

    Gerviverktaka

    • Er unnið fyrir einn eða fleiri?
    • Hver leggur til aðstöðu, verkfæri, efni?
    • Er viðkomandi skyldugur til að vinna verk af hendi persónulega?
    • Hver ábyrgist árangur verks?
    • Hver ber ábyrgð á tjóni?
    • Hver hefur stjórnunarréttinn þ.e. hvar, hvernig og hvenær unnið?
    • Miðast greiðsla við árangur verks eða miðast greiðsla við tímaeiningu?
  • Þau sem starfa sjálfstætt þurfa að reikna sér endurgjald fyrir vinnu sína. Auðveldast er að brjóta það niður sé þetta verk/gigg sem tekur mánuð og ef einstaklingur væri sáttur við til dæmis 600.000 kr. laun ef um hefðbundin launasamning væri um að ræða að þá þarf við þessa upphæð að bæta eftirfarandi gjöld og tryggingagreiðslur:

    • Tryggingagjald árið 2022 er 6,35% sem skiptist í tryggingagjald, atvinnutryggingagjald, gjald í ábyrgðasjóð launa og markaðsgjald.
    • Lögbundin lífeyrissjóðsgreiðsla er 11,5%
    • Séreignargreiðsla til lífeyrissjóðs er 2% eða 4%
    • Starfsendurhæfingasjóður er 0,10%
    • VR félagsgjald er 1,55%
    • Orlof er 10,17% að lágmarki sem leggst ofan á miðað við lágmarksorlofsrétt, 24 orlofsdaga. Ef miðað er við 30 daga orlofsrétt þarf að bæta við 13,04% orlofi ofan á upphæðina, sjá nánari upplýsingar um orlof og orlofslaun. (setja hlekk á orlofsupplýsingarnar á vr.is til að fá allar orlofsprósenturnar.)
    • Trygging vegna veikinda sem reikna þyrfti inn í gjaldið væri að lágmarki hægt að áætla að sé um 15%.
    • Desember og orlofsuppbót, miðað við árið 2023 eru 13.250 kr. fyrir mánuðinn sem er um 2,2% miðað við 600.000 kr. mánaðarlaun.
    • Reikna þarf einnig inn í greiðsluna frídaga sem sjálfstætt starfandi fá ekki greitt en þeir eru að meðaltali 12 dagar á ári sem lenda á virkum dögum sem eru að sjálfsögðu frá einum degi upp í 4 daga í mánuði 4,62% sem reiknast á hvern dag.

    Miðað við ofantaldar upphæðir og hlutfallstölur er hér að minnsta kosti um 55% sem leggja þarf á greiðsluna fyrir sjálfstætt starfandi til að vera næstum jafn sett og launafólk. Þá er ekki tekið tillit til aksturskostnaðar, rekstrarkostnaðar varðandi umsýslu á bókhaldi, innheimtu og kostnaðar vegna búnaðar og verkfæra. Auk þess þyrfti að reikna inn leigu, rafmagnskostnað, netaðgang og annan fastan kostnað sem sjálfstætt starfandi einstaklingur þarf að standa straum af til að sinna verkinu. Í einhverjum tilfellum geta sjálfstætt starfandi t.d. leigt sér aðstöðu með fleiri sjálfstætt starfandi og þarf þá að reikna þá leigu inn í endurgjaldið. Einnig er rétt að nefna að sjálfstætt starfandi þarf að reikna biðtíma inn í þau útseldu verk sem viðkomandi tekur að sér, ef bið verður á milli verka.

    Ómögulegt er að hafa þessa upptalningu tæmandi en þessi atriði eru vonandi lýsandi um þau atriði sem hafa ber í huga.

  • Bæta þarf virðisaukaskatt við í þeim tilfellum sem sala á vörum eða þjónustu er yfir 2.000.000 kr. á hverju 12 mánaða tímabili, ef salan er undir þeirri upphæð eru þeir aðilar undanþegnir skráningarskyldu á virðisaukaskattskrá og mega ekki gefa út reikninga með virðisaukaskatti.
    Vara og þjónusta ber annað hvort 11% eða 24% virðisaukaskatt, sjá nánar á vef Skattsins hér.