Starfsreglur Starfsmenntasjóðs verslunarinnar
Einstaklingsstyrkir
1. Myndun réttinda einstaklinga
Til þess að geta sótt um styrk úr sjóðnum þarf félagsgjald að hafa borist vegna þriggja mánaða af síðustu tólf mánuðum, þar af a.m.k. vegna eins mánaðar af síðustu sex mánuðum. Öll réttindi falla niður þegar félagsgjöld hafa ekki borist vegna síðustu sex mánaða.
Félagi með laun sem eru jöfn eða hærri en byrjunarlaun afgreiðslufólks í verslunum, samkvæmt kjarasamningi VR/LÍV, á rétt á hámarksstyrk kr. 180.000 á hverju almanaksári.
Réttindi til styrks reiknast sem hlutfall launa félaga af byrjunarlaunum afgreiðslufólks í 100% starfi á 12 mánaða tímabili. Við útreikning á réttindum er miðað við að lokamánuður ofangreinds tímabils sé tveimur mánuðum áður en umsókn berst. Dæmi: Umsókn berst í apríl – viðmiðunartímabil er því frá febrúar ásamt 11 mánuðum þar á undan.
Ef iðgjöld umsækjanda um styrk eru í vanskilum og umsækjandi er forsvarsmaður atvinnurekanda, maki, skyldmenni eða nákominn að öðru leyti, er sjóðnum óheimilt að greiða út styrki til sjóðsfélaga.
1.1. Myndun réttinda einstaklinga sem eru tímabundið af vinnumarkaði
Sá sem greiðir félagsgjald og er atvinnuleitandi, í fæðingar- og foreldraorlofi eða fær greidda sjúkradagpeninga frá stéttarfélagi innan LÍV heldur réttindum sínum á meðan félagsgjöld til stéttarfélags berast.
1.2. Réttindi einstaklinga sem hverfa af vinnumarkaði
Þeir sem hafa hafið töku ellilífeyris, eru á endurhæfingarlífeyri eða örorkulífeyri halda fullum rétti í 12 mánuði frá því að greiðslur til sjóðsins hætta að berast og í 36 mánuði vegna tómstundastyrks. Réttindi miðast við síðustu greiðslur sem berast í sjóðinn.
2. Upphæð starfsmenntastyrks til einstaklinga og hvað telst styrkhæft
Veittur er starfsmenntastyrkur að hámarki kr. 180.000 á ári, en þó aldrei hærri en sem nemur 90% af námsgjaldi/þátttökugjaldi.
a) Undir starfsmenntastyrk falla starfstengd námskeið, starfstengd netnámskeið, nám til eininga og réttinda, raunfærnimat, starfstengt ráðstefnugjald erlendis og innanlands, sjálfsstyrkingarnámskeið innanlands og tungumálanám. Stjórnendaþjálfun og starfstengd markþjálfun, að hámarki 12 tíma innan almanaksárs, fellur einnig undir starfstengdan styrk. Á reikningi fyrir stjórnendaþjálfun og starfstengda markþjálfun verður að koma fram að þjálfunin sé starfstengd og fjöldi tíma.
b) Sjóðnum er ekki ætlað að styrkja líkamsrækt, æfingagjöld eða námskeið sem hafa það að markmiði að vinna með heilsubrest einstaklinga. Námskeið sem eru hluti af meðferðarúrræðum vegna heilsubrests eru því ekki styrkt sérstaklega af starfsmenntasjóðnum.
c) Starfstengt netnám: Stakt námskeið eða áskrift að vefsíðu/efnisveitu með starfstengdum námskeiðum. Ekki er hægt að sækja um styrk vegna hugbúnaðarkaupa jafnvel þótt kennsluefni fylgi með.
d) Vegna starfstengdra ráðstefna erlendis og innanlands þarf dagskrá ráðstefnu að fylgja umsókn og tengill á vefsíðu. Dagskrá ráðstefnu þarf að vera skipulögð og með starfstengdum fræðsluerindum. Einnig skal fylgja rökstuðningur um tengingu við starf ef það er óljóst. Ráðstefnugjaldið er eingöngu styrkhæft.
2.1. Uppsafnaður styrkur
Hafi félagi ekki fengið starfstengdan styrk úr sjóðnum sl. 36 mánuði getur uppsafnaður styrkur til starfstengds náms/námskeiðs orðið að hámarki kr. 540.000 en þó aldrei hærri en sem nemur 90% af námsgjöldum/ þátttökugjöldum fyrir einu samfelldu námi. Aðeins er hægt að sækja um styrkinn í einu lagi.
a) Greiðslur til sjóðsins þurfa að hafa borist að lágmarki í 30 mánuði af síðustu 36 mánuðum fyrir dagsetningu umsóknar og uppfylla auk þess skilyrði 1. mgr. starfsreglna þessara. Miðað er við byrjunarlaun afgreiðslufólks í 100% starfi á tímabilinu.
b) Nota má eftirstöðvar af 540 þúsunda kr. uppsöfnuðum rétti til starfstengds náms í ferðastyrk, sbr. d-lið í gr. 2.3.
c) Þegar réttur félaga í starfsmenntasjóðinn er hlutfallslegur þá reiknast greiddur styrkur einnig sem hlutfallslegur, hvort sem um er að ræða uppsafnaðan rétt eða ekki.
Dæmi.
Félagi kemur með reikning fyrir námsgjaldi upp á kr. 140.000 og á rétt á uppsöfnun.
- Félagi með 100% rétt fengi þá 140.000 * 90% = 126.000 kr.
- Félagi með 50% rétt fengi 140.000 * 90% * 50% = 63.000 kr.
- Félagi með 25% rétt fengi 140.000 * 90% * 25% = 31.500 kr.
Félagi kemur með reikning fyrir námsgjaldi upp á kr. 300.000 og á rétt á uppsöfnun.
- Félagi með 100% rétt fengi þá 300.000 * 90% = 270.000 kr.
- Félagi með 50% rétt fengi 300.000 * 90% * 50% = 135.000 kr.
- Félagi með 25% rétt fengi 300.000 * 90% * 25% = 67.500 kr.
Því hærri sem reikningar eru því sýnilegri verður uppsöfnunin í útgreiðslu á uppsöfnuðum styrk þegar um hlutfallslegan rétt er að ræða.
2.2. Tómstundastyrkur
Veittur er 50% styrkur af námskeiðsgjaldi vegna tómstundanámskeiða að hámarki kr. 40.000 á ári. Upphæðin dregst frá hámarksstyrk ár hvert en hefur ekki áhrif á uppsöfnun. Tómstundastyrkur nær eingöngu til tómstundanámskeiða innanlands.
2.3. Ferðastyrkur
Veittur er 50% styrkur af ferða- og gistikostnaði að hámarki kr. 50.000 á ári þegar félagi sækir starfstengt nám, námskeið, starfstengda heimsókn til fyrirtækis eða ráðstefnu. Ferðastyrkurinn dregst frá árlegum hámarksstyrk. Athugið að uppihald er ekki styrkhæft.
a) Vegalengdin milli dvalarstaðs og fræðslustofnunar verður að vera að lágmarki 50 km.
b) Ferðist viðkomandi á eigin bíl getur hann sótt um ferðastyrk, sem nemur 50% af kílómetragjaldi. Við útreikning á kílómetragjaldi er stuðst við akstursgjald Fjármála- og efnahagsráðuneytis ríkisins hverju sinni. Með umsókn um ferðastyrk á eigin bíl þarf að fylgja:
- Fjöldi kílómetra í hvert skipti og dagsetning ferða,
- staðfesting á mætingu þá daga sem sótt er um ferðastyrk.
c) Vegna umsókna í starfstengdar heimsóknir þarf eftirfarandi að fylgja umsókn:
- Dagskrá ferðar, þar sem fram kemur hvaða staðir eru heimsóttir, hvert efni kynningar er á hverjum stað og tímasetningar,
- staðfesting á þátttöku félaga í formi áritaðs bréfs frá yfirmanni eða umsjónarmanni ferðarinnar. Í bréfinu skal ferðinni lýst og tilgangur hennar útskýrður.
d) Nota má eftirstöðvar af 540 þúsunda kr. uppsöfnuðum rétti til starfstengds náms í ferðastyrk að hámarki kr. 120.000 en þó ekki hærra en 50% af ferðakostnaði.
e) Fatlaðir félagar sem þurfa á aðstoðarmanneskju að halda til að sækja sér styrkhæfa fræðslu/fræðsluferðir fá til viðbótar greiddan sama ferðastyrk fyrir aðstoðarmanneskju sína á sömu forsendum og félaginn á sjálfur rétt á. Gögn sem sýna fram á að þörf er á slíkri þjónustu fyrir félaga skulu fylgja með umsókn í sjóðinn.
3. Umsókn einstaklinga – gögn og ferli
Umsækjandi þarf að fylla út umsókn hvort sem er rafrænt eða á eyðublaði sem nálgast má hjá aðildarfélögum sjóðsins eða á vefsíðu sjóðsins www.starfsmennt.is. Koma skal umsóknum til viðkomandi stéttarfélags.
a) Með umsókn um styrk skal fylgja greiddur löggildur reikningur í nafni félaga þar sem eftirfarandi atriði skulu tilgreind:
- Námskeiðslýsing,
- nafn og kennitala félaga,
- nafn og kennitala fræðsluaðila,
- dagsetning greiðslu.
b) Ekki er hægt að sækja um styrk ef útgáfudagur reiknings er eldri en 12 mánaða frá dagsetningu umsóknar eða gefinn út áður en umsækjandi verður félagi.
c) Ekki er hægt að sækja um styrk oftar en einu sinni vegna sama reiknings.
d) Skila þarf upplýsingum á íslensku eða ensku með umsókn vegna reikninga sem gefnir eru út á öðrum tungumálum en íslensku eða ensku svo umsókn fái afgreiðslu í sjóðinn.
e) Eingöngu er tekið við greiðslukvittunum þar sem sjá má staðfestar færslur/greiðslur frá íslenskum bankareikningi/greiðslukorti til viðkomandi fræðsluaðila. Sjóðurinn tekur ekki gildar greiðslukvittanir fyrir námi/námskeiðum sem greidd eru með peningum.
4. Greiðandi reiknings
Skilyrði fyrir starfstengdum styrk, tómstundastyrk og ferðastyrk er að félagi skili inn greiddum reikningi með umsókn og greiði sjálfur fyrir þátttöku sína. Undantekning er vegna umsókna á sameiginlegum styrk fyrirtækis og einstaklings sbr. gr. 9.
5. Skilgreining og skilyrði námskeiðs
Viðmið sjóðsins varðandi skilgreiningu á hugtakinu námskeið eru eftirfarandi: Afmarkaður hluti náms sem fylgir fyrirfram ákveðinni áætlun eða skilgreiningu og lýkur yfirleitt með vottun á frammistöðu eða annars konar staðfestingu. Ráðgjöf, persónuleg áætlun eða handleiðsla uppfylla ekki skilyrði námskeiðs af hálfu sjóðsins.
Þau skilyrði sem námskeið þarf að uppfylla til að kallast námskeið af hálfu sjóðsins eru:
- Skilgreint upphaf, endir og leiðbeinandi,
- upplýsingar um námskeið þurfa að vera aðgengilegar,
- námskeiðið þarf að vera aðgengilegt opinberlega.
6. Ekki styrkhæft
Ekki eru veittir styrkir vegna uppihalds, sölu/vörusýninga, starfsþjálfunar, meðferða, handleiðslu, sálræns stuðnings, ráðgjafar, einkakennslu í öðru en tungumálanámi, sjálfstyrkinganámskeiða erlendis, tómstundanámskeiða erlendis, árgjalda, bóka- eða námsgagna, námskeiða sem hafa þann tilgang að undirbúa einstaklinga undir ákveðna viðburði/keppni.
Fyrirtækjastyrkir
7. Myndun réttinda fyrirtækja
Réttur fyrirtækis getur orðið að hámarki kr. 4. milljónir á einu almanaksári. Styrkur til fyrirtækis er að hámarki 90% af starfstengdu námskeiðs- náms- og ráðstefnugjaldi að hámarki kr. 390.000 á hvern einstakling sem er félagi í VR/LÍV.
a) Fyrirtæki, sem greitt hafa iðgjöld í sjóðinn í samfellt 12 mánuði við dagsetningu umsóknar og eru í skilum, geta sótt um styrk.
b) Fyrirtæki geta ekki sótt um ferða- né tómstundastyrki. Sömu viðmið varðandi afgreiðslu styrkja gilda að öðru leyti fyrir fyrirtæki og einstaklinga, sbr. gr. 7.
c) Fái fyrirtæki styrk getur einstaklingur starfandi hjá því fyrirtæki ekki sótt um styrk fyrir sama námskeiði nema í formi sameiginlegs styrkjar sbr. gr. 9.
d) Ekki er hægt að sækja um styrk ef reikningur er eldri en 12 mánaða frá dagsetningu umsóknar.
e) Stjórn er heimilt að veita sérstaka undanþágu frá þessum ákvæðum ef verkefnið felur í sér frumkvöðlastarf eða nýsköpun.
f) Stjórn er heimilt að skilyrða styrkveitingu.
g) Í umsóknum um fyrirtækjastyrk þarf greiddur reikningur að vera á nafni og kt. fyrirtækis.
8. Umsókn fyrirtækja – gögn og ferli
Fyrirtæki fylla út rafræna umsókn á www.attin.is þar sem fram kemur m.a. lýsing á því fræðsluverkefni sem sótt er um styrk fyrir, skipulagi þess, kostnaður og þátttakendalisti í excel með nafni, kennitölu og stéttarfélagsaðild þátttakenda.
9. Sameiginlegur styrkur einstaklings og fyrirtækis
Félaga og fyrirtæki gefst kostur á að sækja um sameiginlegan styrk til sjóðsins ef nám félaga kostar kr. 200.000 eða meira. Undanþága á upphæðinni er aðeins gerð á umsóknum vegna Diplómanáms í viðskiptafræði og verslunarstjórnun. Umsóknir eru afgreiddar eftir reglum sjóðsins og viðmiðum um hvað er talið styrkhæft í sjóðinn.
a) Félagi sækir um sameiginlega styrkinn í gegnum sitt stéttarfélag. Með umsókn verður að fylgja:
- Greiddur reikningur,
- lýsing á náminu,
- undirrituð yfirlýsing frá fyrirtækinu. Í yfirlýsingunni skal koma fram að um sé að ræða sameiginlega umsókn og að námið sé hluti af starfsþróunaráætlun einstaklings.
b) Við samþykkt umsóknar dregst styrkupphæðin af rétti bæði félaga og fyrirtækis og greiðist styrkurinn inn á reikninga beggja.
c) Hámarksstyrkur getur orðið samtals sem nemur hámarksrétti einstaklings og hámarksrétti fyrirtækis en þó ekki hærri en sem nemur 90% af námsgjaldi.
10. Áskrift að rafrænu námsumhverfi fyrirtækja
Áskrift að rafrænu námsumhverfi er styrkhæf um 90% af reikningi en þó aldrei meira en kr. 6000,- fyrir hvern félaga á ári. Skilyrði er að gerður sé og greiddur áskriftarsamningur fyrir a.m.k. 6 mánuði.
Með umsókn þarf að fylgja greinagerð sem tekur á eftirfarandi:
- Lýsing á því hvaða fræðslu verður boðið upp á með þessum hætti,
- hvaða fræðsluefni er tilbúið til notkunar,
- hvernig fræðsluefni verður sótt / keypt eða þróað,
- hvernig fyrirtækið hyggst koma fræðslunni á framfæri til starfsfólks,
- hvenær og hvernig starfsfólki er ætlað að nýta fræðsluna.
11. Áskrift fyrirtækja að stafrænum fræðslupökkum
Áskrift fyrirtækja að stafrænum fræðslupökkum er styrkhæf um 90% af reikningi. Einungis er hægt að sækja um styrk vegna slíkra fræðslupakka eftir að 6 mánuðir hafa liðið af áskrift og virkni fyrirtækisins sýnileg í keyptum pökkum. *
Með umsókn þarf að fylgja greinagerð sem tekur á eftirfarandi:
- Fræðsluáætlun fyrirtækis
- Hvernig fyrirtækið kemur fræðslunni á framfæri til ákveðinna hópa innan fyrirtækis
- Hvaða fræðsla** hefur verið keyrð frá áskrift og hvaða fræðsla er fyrirætluð fyrir ákveðna hópa fyrirtækis
- Hvenær og hvernig starfsfólki er ætlað að nýta fræðsluna
- Sýnt er fram á að 80% félaga hafi tekið þátt í fræðslu sem hluti af starfsþróun þeirra
- Til viðbótar gilda skilyrði almennra umsókna ásamt fylgigögnum.
*Á ekki við þegar keyptir eru fræðslupakkar fyrir einstaka starfskrafta.
** námskeið, sprettir, ákveðna pakka eða annað sem fellur undir fræðslu.
Regla 11 á ekki við vegna áskriftar fyrirtækja að íslenskuþjálfunaröppum. Stuðst er við almennar úthlutunarreglur sjóðsins við afgreiðslu slíkra umsókna.
12. Styrkur fyrirtækja til námsefnisgerðar í rafrænu námsumhverfi
Þau fyrirtæki sem útbúa eigið rafrænt námsefni í rafrænu námsumhverfi fyrir félagsfólk SV geta sótt sérstaklega um styrk til sjóðsins vegna námsefnisgerðarinnar. Sjóðurinn veitir allt að kr. 400.000 í styrk vegna eigin námsefnisgerðar. Hámarksfjöldi styrkja til eigin námsefnisgerðar eru fjórir á almannaksári. Styrkurinn er reiknaður út frá hlutfalli félaga SV sem markhóps námsefnisins og stuðst við 90% viðmið af reikningi.
Forsendur og fylgigögn:
- Rafrænt námsumhverfi til staðar hjá fyrirtækinu
- Nákvæm lýsing á námskeiði og handrit
- Upplýsingar um markhóp námskeiðsins
- Tímafjöldi námsefnisgerðar
13. Undanþága frá fullu iðgjaldi - skilyrði
Fyrirtæki geta sótt um lækkun á iðgjaldi til sjóðsins úr 0,3% í 0,1% að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
- Fyrirtækið sé kaupandi námskeiðanna (undantekning í tilfellum um sameiginlegan styrk fyrirtækis og félaga sbr. gr. 9),
- fyrir liggi fræðsluáætlun fyrirtækis,
- fram komi að virk menntastefna sé í fyrirtækinu og að starfsfólk, sem eru félagar í VR/LÍV, eigi kost á að sækja þau námskeið sem eru í boði. Sjóðurinn áskilur sér rétt til að sannreyna menntastefnuna,
- í boði séu bæði fagnámskeið og námskeið almenns eðlis.
- þegar fyrirtæki styðjast við rafrænt námsumhverfi innanhúss þarf að liggja fyrir:
- Skýrt vefumsjónarkerfi rafrænnar fræðslu,
- að yfir 80% félaga VR/LÍV taki þátt í rafræna námsumhverfinu,
- að aðgengi félaga VR/LÍV sé einfalt og hvernig þeir eru undirbúnir undir þátttöku í rafrænu námsumhverfi.
- Kostnaður vegna fræðslu félaga VR/LÍV á 12 mánaða tímabili (að frátöldum launa-, ferða-, fæðis- og gistikostnaði) er meiri en sem nemur 0,30% af heildarlaunum þeirra á tímabilinu. (Í þeim tilfellum sem það næst ekki þá er sérstaklega horft til rafræns námsumhverfis og hvernig það er framkvæmt innan fyrirtækisins)
- Að fyrirtækið sé í skilum við sjóðinn og hafi greitt iðgjöld sl.12 mánuði, samfellt, við dagsetningu umsóknar.
- Fyrirtæki á lækkuðu iðgjaldi geta ekki sótt um aðra styrki til sjóðsins. (Fyrirtæki á lækkuðu iðgjaldi geta sótt um sameiginlegan styrk en fá ekki styrkinn greiddan frá sjóðnum, heldur skrá hann sérstaklega hjá sér í sundurliðaðan kostnað).
13.1. Umsókn um lækkað iðgjald – gögn og ferli
Með umsókn um lækkað iðgjald skal fylgja:
- Sundurliðað yfirlit yfir kostnað fyrirtækis sl. 12 mánuði vegna fræðslu félaga VR/LÍV og fjölda þátttakenda sem tiltekur bæði aðkeypta fræðslu og innri fræðslu fyrirtækis. Mikilvægt er að umbeðnar upplýsingar berist sjóðnum með skýrum hætti. Mælst er til þess að stuðst sé við eyðublað sjóðsins.
- Fræðsluáætlun komandi árs, námskrá eða önnur sambærileg gögn er staðfesta að virk menntastefna sé til staðar sbr. 19. gr.
- Við endurnýjun umsóknar þurfa, auk ofangreindra gagna, að fylgja upplýsingar um þátttöku félaga VR/LÍV og samanlagðan kostnað fyrirtækisins af menntun þeirra frá síðustu umsókn.
Samþykki stjórn lækkun iðgjaldagreiðslna úr 0,30% í 0,10% tekur hún gildi frá og með næstu mánaðamótum eftir samþykki og gildir í eitt ár. Endurnýi fyrirtækið undanþágubeiðni sína gildir hún eftir það í tvö ár í senn en tilskilin gögn þurfa að fylgja í hvert sinn. Umsókn um endurnýjun þarf að berast sjóðnum a.m.k. einum mánuði áður en undanþágan fellur úr gildi og iðgjaldið hækkar í 0,30%.
Aðrir styrkir
14. Þróunarstyrkir – skilyrði
Sjóðurinn veitir þróunarstyrki til fyrirtækja, fræðsluaðila með viðurkenningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og sérfræðinga úr háskólasamfélaginu.
a) Áhersla er lögð á nýsköpunar- og þróunarverkefni sem hafa yfirfærslugildi, verkefni sem nýtast öðrum innan starfstéttarinnar og rannsóknir á málefnum greinarinnar.
b) Umsóknum skal skilað á sérstöku eyðublaði sjóðsins.
15. Réttindi aðildarfélaga LÍV
Sjóðurinn styrkir fræðslu aðildarfélaga LÍV sem haldin er vegna félaga þeirra. Styrkurinn getur numið að hámarki kr. 500.000 á ári, en þó aldrei hærri en 50% af árlegu framlagi aðildarfélags. Miðað er við úthlutunarreglur sjóðsins.
Skilmálar
16. Mótun reglna
Stjórn sjóðsins er heimilt að móta starfsreglur eftir því sem reynsla og starfsemi sjóðsins gefur tilefni til.
17. Hverjir geta sótt um styrk
Sjóðurinn veitir einstaklingum og fyrirtækjum styrki til að uppfylla markmið sjóðsins sbr. 2. gr. í samþykktum sjóðsins.
18. Rekstur sjóðsins
Stjórn sjóðsins felur VR daglega umsjón sjóðsins samkvæmt gr. 5.6 í samþykktum sjóðsins að semja skriflega við aðildarfélög sjóðsins um innheimtu á iðgjöldum.
19. Rangar/villandi upplýsingar og afleiðingar
Sá sem reynist hafa gefið rangar eða villandi upplýsingar við styrkumsókn, eða leynir upplýsingum, missir rétt til styrks. Heimilt er að endurkrefja viðkomandi um allan styrkinn auk dráttarvaxta.
20. Breytingar á reglum
Stjórn áskilur sér rétt til breytinga á reglum þessum án fyrirvara.
Reglur þessar voru samþykktar á fundi stjórnar sjóðsins 19. nóvember 2002, endurskoðaðar 22.desember 2022 og 13. desember 2023.