Ófærð - lokun vegna veðurs

Réttarstaða starfsfólks sem kemst ekki til vinnu vegna ófærðar

Slæmt veður og ófærð sem af því skapast eru aðstæður sem hvorki starfsfólk né atvinnurekendur ráða við. Í slíkum kringumstæðum getur bæði verið um að ræða starfsfólk sem kemst ekki til vinnu eða starfsfólk sem kemst ekki heim í lok vinnudags og þarf því annað hvort að bíða á vinnustaðnum eða vinna áfram þar til einhver kemst til að leysa af.

Ef starfsfólk kemst ekki til vinnu er almenna reglan sú að ef það hefur ekki tök á að vinna starf sitt í fjarvinnu er það launalaust eða vinnur vinnudaginn/vaktina af sér síðar. Sama á við þó það sé til þess mælst af Almannavörnum að vera ekki á ferðinni t.d. vegna þess að gefin hefur verið út rauð veðurviðvörun af hálfu viðbragðsaðila. Starfsfólk verður að láta vita sem fyrst komist það ekki til vinnu vegna veðurs. Komi starfsfólk aftur á móti til vinnu en atvinnurekandi hefur lokað, sendir starfsfólk heim eða biður starfsfólk um að vera heima þá ber atvinnurekanda að greiða reglubundin laun.

Komist starfsfólk ekki heim að loknum starfsdegi skapast ekki greiðsluskylda. Ef starfsfólk getur starfað áfram á vinnustaðnum því afleysing kemst ekki á vinnustaðinn ber aftur á móti að greiða fyrir unna tíma, ef unnið er áfram getur skapast frítökuréttur vegna hvíldartímabrots.