Reglugerð um VR varasjóð

VR varasjóður sameinar réttindi félagsmanna í mismunandi sjóðum í einn sjóð sem þeir geta nýtt af meira frjálsræði og með meiri sveigjanleika en áður hefur verið. Í sjóðinn renna fjármunir sem áður voru notaðir til styrkja af ýmsu tagi úr sjúkrasjóði og tiltekinn hluti af iðgjöldum í orlofssjóð. Félagsmenn hafa áfram val um að nýta varasjóð sinn til þessara þátta en fá nú að auki þann möguleika að safna í sjóð til að nota í stærri verk eða til að mæta áföllum á lífsleiðinni.

1. gr. Stjórn sjóðsins og rekstur

1.1. Ákvæði reglugerðar fyrir Sjúkrasjóð VR gildir eftir því sem við getur átt um VR varasjóð að öðru leyti en kveðið er sérstaklega á um í reglugerð þessari, þ.m.t. um stjórn, framkvæmdastjórn og rekstur.

2. gr. Verkefni

2.1. VR varasjóður er upplýsingakerfi um sérgreindan rétt félagsfólks. Í því felst hvatning til félagsfólks til að koma sér upp varasjóði til að mæta hugsanlegum áföllum, auðvelda því að viðhalda stöðu sinni á vinnumarkaði, til forvarna og auðvelda fólki að njóta orlofs. Kerfið geymir sérgreinda réttindainneign félagsfólks, sem það getur nýtt vegna:

  • námsorlofs og kaupa á menntunarþjónustu
  • framfærslu samhliða atvinnuleysisbótum og greiðslum
  • starfsloka eftir að 60 ára aldri hefur verið náð
  • vegna heilsubrests
  • kaupa á líf-, slysa- og sjúkdómatryggingum
  • kaupa á líkamsræktar-, endurhæfingar-, sálfræði- og læknis- og tannlæknaþjónustu
  • kaupa á hjálpartækjum s.s. gleraugum og heyrnartækjum
  • kaupa á orlofstengdri þjónustu

2.2. Stjórn VR setur nánari starfsreglur um úttektir úr sjóðnum og aðra starfstilhögun. Stjórninni er heimilt að ákveða gjaldskrá og að gjaldfæra kostnað við einstaka úttekt samkvæmt gildandi gjaldskrá á hverjum tíma. Stjórnin skal leggja fyrir trúnaðarráð breytingu á gjaldskrá.

3 gr. Tekjur og réttindaávinnsla

3.1. Greiðslur til VR varasjóðs eru ákveðnar af aðalfundi samkvæmt reglugerðum fyrir Sjúkrasjóð VR og um Orlofssjóð VR. Skal skrá þær á félagsfólk í hlutfalli við iðgjöld þess og mynda þær sérgreinda réttindainneign, sem skráð skal í upplýsingakerfi VR varasjóðs.

3.2. Launagreiðanda ber að standa skil á afdregnum iðgjöldum til VR. Dragist greiðsla eru innheimtir vanskilavextir frá gjalddaga til greiðsludags. Réttindi myndast eingöngu vegna þeirra iðgjalda, sem greiðast og miðast réttindi við gengi þess mánaðar sem greiðslan tilheyrir.

3.3. Félagsfólki sem á inneign yfir viðmiðunarmörkum sem stjórn VR ákveður á hverjum tíma, skal a.m.k. einu sinni á ári sent yfirlit ef hreyfing hefur orðið á réttindum á undanliðnum tveimur árum. Yfirlitinu skal fylgja áskorun til sjóðfélaga að gera án tafar athugasemdir, ef vanhöld koma í ljós á iðgjaldaskilum.

4. gr. Fyrning réttinda

Ef félagsfólk hættir í VR skerðist réttindainneign um 25% eftir 24 mánuði frá því að síðustu iðgjöld bárust og síðan samsvarandi ár hvert þar til réttindi eru að fullu fyrnd. Réttindi undir kr. 1000 fyrnast þó í einu lagi.

5. gr. Gildistaka

Samþykktir þessar gilda frá 24. apríl 2006. Breytingar á reglugerð þessari verða aðeins gerðar á aðalfundi VR.