Öll verð og dagsetningar eru birt með fyrirvara um breytingar og innsláttarvillur.
Ganga þarf frá greiðslu fyrir leigu orlofshúsa um leið og bókað er að vetrarlagi. Að sumarlagi er gengið frá greiðslu eftir úthlutun. Ef inneign í VR varasjóði er notuð til að greiða fyrir leiguna er hún undanþegin staðgreiðsluskyldu, að hámarki kr. 76.000 á ári (m.v. árið 2025).
Vinsamlegast kynnið ykkur umgengnisreglur áður en þið leigið ykkur orlofshús.
Nánari upplýsingar um orlofshús VR eru hjá þjónustuveri VR í síma 510 1700 eða á netfangið orlofshus@vr.is
Úthlutun orlofshúsa til félagsfólks VR er skipt í tvö tímabil, sumar og vetur.
-
Leigutími orlofshúsa og -íbúða í sumarleigu er frá 5. júní til 30. ágúst 2025.
Sumarleiga er ein vika í senn, í Miðhúsaskógi er sumarleiga vika frá kl. 17:00 á miðvikudegi til kl. 12:00 á hádegi á miðvikudegi. Á öðrum stöðum er leigan ýmist frá fimmtudegi til fimmtudags, eða frá föstudegi til föstudags.
Hámarksleiga er ein vika á sumri fyrir hvern félaga.
Árið 2025 er sumarleiga orlofshúsa samkvæmt reglum sem hér segir:
- Umsóknartímabilið er frá 15. janúar til og með 27. febrúar.
- Allt félagsfólk sem sækir um hefur sömu möguleika á að fá úthlutað, óháð því hvenær sótt er um á umsóknartímabilinu.
- Einungis félagsfólk sem ekki hefur fengið úthlutað orlofshúsi einhvern tímann síðustu þrjú sumur getur sótt um í sumarleigu.
- Sótt er um orlofshús á Mínum síðum á vef VR. Hægt er að sækja um að hámarki þrjú hús og skal raða umsóknum í forgangsröð. Á meðan umsóknarferlið er opið er hægt að sjá hve margar umsóknir hafa borist um hvert hús á hverjum tíma.
- Þegar umsóknartímabilinu er lokið, í lok febrúar, er dregið rafrænt og handahófskennt úr þeim umsóknum sem bárust.
- Ef VR félagi fær ekki úthlutað því húsi sem hann setti sem valkost númer eitt, á hann möguleika á að fá úthlutað valkosti númer tvö eða númer þrjú. Ekki verður gefinn kostur á skráningu á biðlista hafi enginn valkostur verið laus.
- Félagsfólk sem fær úthlutað húsi fær tilkynningu um það í tölvupóst eða sms og hefur 10 daga til að staðfesta og ganga frá greiðslu í gegnum Mínar síður. Ef ekki er gengið frá greiðslu innan þess tíma, fer orlofshúsið á orlofsvefinn að nýju nokkrum dögum síðar.
- Allt félagsfólk getur sótt um laus hús eftir úthlutun, og gildir þá reglan Fyrst koma, fyrst fá.
Hús nr. 14b í Miðhúsaskógi er sérhannað fyrir hreyfihamlaða og leggur VR áherslu á að félagsfólk með hreyfihömlun hafi forgang í það hús. Ef húsinu er ekki úthlutað allt tímabilið, fer það í frjálsa leigu eins og önnur laus hús þær vikur sem það er laust.
-
Orlofshúsum VR verður í fyrsta skipti úthlutað í vetrarleigu veturinn 2025 – 2026 á ákveðnum tímabilum. Húsin eru leigð í viku í senn, frá fimmtudegi að telja. Fyrir utan þessi tímabil, er hægt að leigja húsin til skemmri tíma, án úthlutunar.
Orlofshúsunum verður úthlutað á þessum tímum:- Vetrarfrí í skólum dagana 23. – 30. október 2025 og 19. – 26. febrúar 2026
- Jól 2025
- Áramót 2025 - 2026
- Páskar 2026
- Skíðatímabil á Akureyri frá 1. janúar til 30. apríl 2026 (orlofshús í Hálöndum og Skipagötu)
Allt fullgilt félagsfólk getur sótt um að fá úthlutað orlofshúsi á þessum tímum, og skiptir ekki máli þó viðkomandi hafi leigt orlofshús veturna áður eða ekki.
Umsóknartímabil
Opnað verður fyrir umsóknir um orlofshús á ofangreindum tímabilum þann 14. apríl og lokað fyrir umsóknir þann 30. apríl. Úthlutun fer fram þann 2. maí og hafa félagar til 12. maí til að ganga frá greiðslu á Mínum síðum á vef VR. Úthlutunarkerfi dregur af handahófi út félagsfólk sem fær sendan tölvupóst að úthlutun lokinni.
Almennar umsóknir
Þann 19. maí kl. 10:00 verður opnað á umsóknir orlofshúsa allt vetrartímabilið sem er frá 28. ágúst 2025 til 28. maí 2026. Þá gildir reglan „fyrst koma, fyrst fá“. Lágmarksleiga er þá tveir dagar og helgar eru leigðar frá föstudegi til mánudags.