Launarannsókn 2021

Launarannsóknin er birt á vef félagsins og á Mínum síðum. Á Mínum síðum geta VR félagar séð samanburð launa sinna við miðgildi annarra í sambærilegu starfi. Á Mínum síðum eru skráðar upplýsingar um vinnutíma, starfsheiti, menntun og mannaforráð. 

Launarannsókn sem birt er á opnum vef félagsins miðar við stöðuna í stökum mánuði og er birt tvisvar sinum á ári, í maí þar sem eru birt laun fyrir febrúar og svo í desember þar sem birt eru laun fyrir september. Niðurstöður byggja eingöngu á launum fyrir fullt starf, laun fyrir hlutastarf eru ekki uppreiknuð. 

Niðurstöður launarannsóknar á opnum vef eru birtar í reiknivél á vefnum. Heildarlaun og grunnlaun fyrir allan hópinn eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og atvinnugreinar til að endurspegla samsetningu félagsins. Vigtun tekur til meðallauna, miðgildis launa og fjórðungsmarka og eru þær launatölur birtar sem heildarlaunatölur (efsta línan) í launatöflunni Laun eftir starfsheiti sem er birt neðarlega á síðunni með reiknivélinni. Allar aðrar launatölur eru óvigtaðar. Hægt er að velja á milli grunnlauna og heildarlauna.

Við bendum á að niðurstöður í launarannsókninni eru til viðmiðunar um laun í tilteknu starfi og/eða atvinnugrein og bendum félagsmönnum á að skoða launatölur fleiri starfsstétta og þróun launa almennt. Einnig viljum við hvetja félagsmenn til að uppfæra skráningar sínar á Mínum síðum, því áreiðanleiki gagnanna byggir á skráningum á nauðsynlegum upplýsingum.

Breyting á aðferðafræðinni

Gerð var breyting á aðferðafræði launarannsóknarinnar í febrúar 2021 miðað við fyrri ár með það í huga að draga út vægi launabreytinga milli mánaða sem rekja má til starfslokagreiðslna, bónusa eða annarra tilfallandi greiðslna. Miklar sveiflur í launum eru leiðréttar í takt við launaþróun viðkomandi VR félaga síðustu misseri og ár. Þannig endurspegla launin í viðmiðunarmánuðinum betur launasögu viðkomandi.

  • Heildarlaun sýna meðaltal allra launa sem greitt er félagsgjald af til VR, óháð því hvort þau séu eingöngu fyrir dagvinnu eða einnig eftirvinnu. Í samanburðarhópnum er birt meðaltal heildarlauna allra svarenda með viðkomandi starfsheiti.
  • Grunnlaun eru áætluð ef vinnutími á viku er umfram 100% starf. Þau eru reiknuð á grundvelli heildarlauna sem greidd eru félagsgjöld af til VR. Vinnustundir umfram fullt starf eru reiknaðar sem yfirvinnustundir.
    Birt grunnlaun eru þannig laun fyrir fullt starf, þ.e. 36,75 stundir á viku hjá skrifstofufólki og 38,75 stundir á viku hjá afgreiðslufólki.

Ekki er tekið tillit til þátta eins og menntunar eða reynslu og er mikilvægt að félagsmenn hafi það í huga þegar launatölur eru skoðaðar. Niðurstöðurnar miða við greidd félagsgjöld til VR en greiðslur frá sjóðum VR, Atvinnuleysistryggingasjóði og Fæðingarorlofssjóði eru ekki teknar með.

Hvernig á að lesa úr tölunum?

Laun í samanburðarhópnum eru meðaltal launa allra svarenda með þetta tiltekna starfsheiti en meðaltal er ekki birt nema það samanstandi af tíu eða fleiri svarendum. Athugið að þegar svarendur eru fáir ber að taka upplýsingum um laun sem vísbendingu því ekki er víst að þær séu lýsandi fyrir allan hópinn.
Auk meðaltals er birt miðgildi sem og efri og neðri mörk . Þær tölur gefa til kynna launadreifingu í viðkomandi hópi.

  • Miðgildi: helmingur skráðra í starfsstéttinni er með lægri laun en miðgildið segir til um og helmingur með hærri laun.
  • 25% lægri mörk: fjórðungur skráðra í starfsstéttinni er með þau laun sem birtast í dálkinum eða lægri og eru þá 75% svarenda með hærri laun.
  • 25% hærri mörk: fjórðungur skráðra í starfsstéttinni er með þau laun sem tilgreind eru í dálkinum eða hærri en 75% svarenda eru með lægri laun.

Meðaltal getur verið villandi þegar fátt starfsfólk innan hópsins er annaðhvort með miklu hærri eða lægri laun en meginþorri hópsins. Miðgildi er þá oft betri mælikvarði á laun í hópnum. Á grundvelli meðaltals, miðgildis og 25% markanna má meta launadreifingu með eftirfarandi hætti:

  • Því breiðara sem bilið er á milli neðri marka, miðgildis og efri marka, því meiri dreifing er á launum viðkomandi hóps. Því breiðara sem bilið er má segja að erfiðara sé að gera sér grein fyrir hvaða laun eru algengust í viðkomandi hópi. Aftur á móti eru launin einsleitari í hópnum eftir því sem bilið milli þessara talna er þrengra og er þá auðveldara að gera sér grein fyrir á hvaða bili algengast er að laun eru í viðkomandi hópi.
  • Ef meðaltal er hærra en miðgildi eru að öllum líkindum nokkrir svarendur í hópnum sem eru með töluvert hærri laun en meginþorri hópsins og hífa þannig meðaltalið upp. Ef meðaltalið er lægra en miðgildið eru að öllum líkindum nokkrir svarendur sem eru með töluvert lægri laun en meginþorri hópsins og draga þannig meðaltalið niður. Ef miðgildi og meðaltal eru á svipuðum slóðum má segja að ákveðið jafnvægi ríki í launadreifingu hópsins.