Kominn á aldur?

Þegar aldurinn færist yfir kemur að því að fólk þarf að huga að starfslokum. Flestir hefja töku ellilífeyris við 67 ára aldur en einnig er hægt að flýta því til 65 ára aldurs eða fresta til 70 ára aldurs. Það er mikilvægt að starfsmenn undirbúi það vel að hætta á vinnumarkaði og atvinnurekendur standi vel að verki þegar þetta tímabil rennur upp í lífi fólks, því oft er þetta erfitt skref að stíga.

Það er ýmislegt sem hafa þarf í huga. Hér á eftir koma ábendingar til fyrirtækja og einstaklinga sem standa frammi fyrir slíkri umbreytingu.

Hvernig ber ég mig að þegar ég hætti að vinna?

Það er ýmislegt sem þarf að hafa í huga þegar einstaklingur stendur frammi fyrir því að starfsævinni er að ljúka. Það sem mestu máli skiptir er að hafa einhver áhugamál, vera félagslega virkur og þurfa ekki að hafa áhyggjur af fjárhagslegri afkomu. Flestir hafa greitt af launum sínum í lífeyrissjóð og hafa þar með áunnið sér tryggingu fyrir ævilöngum lífeyrisgreiðslum frá því að taka lífeyris hefst.

Þannig munt þú fá greiðslur sem endurspegla framlag þitt í gegnum árin, auk þeirrar ávöxtunar sem lífeyrisssjóðurinn þinn hefur áunnið sér.

Greiðslur frá lífeyrissjóðum

Athugaðu að sækja þarf um lífeyrisgreiðslur til viðkomandi lífeyrissjóðs. Á vefsíðum þessara stofnana er hægt að nálgast eyðublöð til að sækja um og skoða þarf auk þess reglur um skattkort. Athugið að stundum hefur einstaklingur greitt í aðra lífeyrissjóði en greitt er til núna og á því ef til vill réttindi þar.

Við skulum skoða hvernig greiðslum er háttað hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna. Til að sjá réttindi þín er einfaldast er að fara inn á heimasíðu sjóðsins þar sem er að finna reiknivél. Þar getur þú sett inn þær forsendur sem eiga við þig og reiknivélin reiknar svo út fyrir þig greiðslurnar sem þú gætir átt rétt á. Mánaðarleg greiðsla til þeirra sem hefja lífeyristöku fyrir 67 ára aldur lækkar um allt að 15%, eftir því hvenær hún hefst, þar sem lífeyristakan dreifist yfir lengri tíma. Ef þú kýst aftur á móti að fresta lífeyristöku fram yfir 67 ára aldur hækka mánaðarlegar greiðslur að sama skapi um allt að 27,8%.

Séreignarsjóðir

Þegar þú nærð 60 ára aldri geturðu fengið endurgreitt úr séreignarsjóðnum þínum. Verðir þú að hætta störfum vegna varanlegrar örorku af völdum slyss eða veikinda áttu rétt á að fá inneign þína í séreignardeild greidda út. Greiðslur úr lífeyrissjóðum eru skattlagðar eins og aðrar tekjur en lífeyrisþegar geta nýtt persónuafslátt sinn til þess að lækka skattana. Greiðslur úr séreignarsjóði lúta sömu lögum.

Birt í 3.tbl. VR blaðsins 2021

Greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins

Allir sem verða 67 ára og hafa búið og starfað á Íslandi í tilskilinn tíma eiga mögulegan rétt til ellilífeyris. Jafnframt geta eldri borgarar átt rétt á ýmsum styrkjum og uppbótum. Sækja þarf um allar bætur frá Tryggingastofnun. Þó þurfa þeir sem eru með örorkulífeyrisgreiðslur þegar þeir verða 67 ára ekki að sækja sérstaklega um ellilífeyri. Þetta er ekki flókið því Tryggingastofnun ríkisins sendir öllum sem verða 67 ára bréf þar sem bent er á mögulegan rétt til ellilífeyris. Bréfinu fylgja eyðublöð fyrir umsóknir og tekjuáætlanir sem þarf að koma útfylltum til Tryggingastofnunar. Einnig er þeim sem búa í Reykjavík boðið upp á viðtal hjá stofnuninni.

Á vef stofnunarinnar er að finna ýtarlegar upplýsingar um útreikning lífeyrisgreiðslna og upplýsingar um tekjutryggingu. Sé gert ráð fyrir að vera áfram á vinnumarkaði eftir að 67 ára aldri er náð getur borgað sig að fresta því að sækja um ellilífeyri hjá Tryggingastofnun. Ellilífeyrir, tekjutrygging og heimilisuppbót hækka þá um 0,5% fyrir hvern mánuð fram til 72 ára aldurs, eða að hámarki um 30%.

Til að tryggja réttar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins þurfa að liggja fyrir allar nauðsynlegar upplýsingar svo að greiðsla bóta sé rétt. Annars er hætta á að TR geri kröfu um endurgreiðslu eftirá. Þetta er á ábyrgð lífeyrisþegans sjálfs. Því þarf að:

  • Telja fram á fullnægjandi hátt og á réttum tíma.
  • Tilkynna Tryggingastofnun um breytingar sem verða á tekjum.
  • Fara vel yfir tekjuáætlun sem send er greiðsluþegum í lok hvers árs vegna næstkomandi árs.
  • Fara vel yfir greiðsluáætlun sem send er í byrjun árs og sýnir áætlaðar greiðslur á árinu. Á greiðsluyfirliti koma fram allar forsendur sem greiðslur eru reiknaðar út frá.