Kjaraviðræður 2022

Fimmtudaginn 24. nóvember 2022 lýsti VR yfir árangursleysi í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. Stéttarfélögin vísuðu kjaraviðræðum við SA til ríkissáttasemjara þann 14. nóvember sl. Viðræður síðan þá hafa snúist um gerð kjarasamnings til skamms tíma með áherslu á launaliðinn og það markmið að ná niður verðbólgu og lækka vexti.

Hver eru næstu skref?

Það að slíta kjaraviðræðum þarf ekki að þýða það að það verði endilega farið í verkfall. Það er að sjáfsögðu staðfesting á því að VR hafi metið stöðuna sem slíka að ástæðulaust væri að halda viðræðum áfram. Búið er að boða samninganefnd VR til fundar hjá ríkissáttasemjara þriðjudaginn 29. nóvember og kemur þá betur í ljós næstu skref.

Ákvörðun um boðun verkfalls fer alltaf í kosningu hjá þeim hópum sem verkfallið mun ná til. Ákvörðun um boðun atkvæðagreiðslu er tekin af samninganefnd félagsins. Ekki er fyrir séð að VR muni fara í alsherjarverkfall komi til þess að grípa þurfi til þeirra aðgerða. Engin ákvörðun um verkföll liggja fyrir að svo stöddu. Ef svo verður verður það kynnt sérstaklega.

Þessi upplýsingasíða er í vinnslu og munu nýjustu vendingar í kjaraviðræðum birtast hér.

Spurt og svarað

 • Kjarasamningur er samningur sem gerður er á milli samtaka launafólks (stéttarfélags) og samtaka atvinnurekanda. Kjarasamningar eru lágmarksréttindi starfsfólks í viðeigandi starfsgrein. Eftir að kjarasamningur hefur verið samþykktur er ekki hægt að breyta honum eða að víkja frá honum og verða báðir aðilar að hlíta þessum samningi. Gildistími kjarasamninga getur verið misjafn og er frá nokkrum mánuðum og upp í nokkur ár en þegar skrifað er undir kjarasamning þarf gildistími samningsins að vera ljós.

  Í kjarasamningi er samið um mikilvæg atriði er varða vinnusambandið eins og laun, vinnutíma, orlof, laun í veikindum, uppsagnarfrest, tryggingar, iðgjöld til lífeyrissjóða og starfsmenntasjóði svo það helsta sé nefnt. Vinnumarkaðurinn er einn af undirstöðuþáttum hins efnahagslega kerfis á Íslandi og eru kjarasamningar sem gerðir eru á vinnumarkaði lykilþáttur í velferðarkerfinu ásamt því að þjóna tilgangi leikreglna á vinnumarkaði.
  Aðilar á vinnumarkaði þ.e. launafólk og stéttarfélög, atvinnurekendur og félög atvinnurekenda eru bundnir þeim samningi sem er í gildi á hverjum tíma og er talað um að meðan svo er ríki friðarskylda á vinnumarkaði. Á þeim tíma er aðilum vinnumarkaðarins óheimilt að boða til verkfalla eða verkbanna. Áður en samningurinn rennur úr gildi vinna báðir aðilar að undirbúningi fyrir næsta samning.

  Fjallað var um það hvernig kjarasamningar verða til í VR blaðinu 1 tbl. ársins 2022, sjá nánar hér.

 • Nei, eftir að kjaradeilu hefur verið vísað til ríkissáttasemjara er óheimilt að segja sig úr félaginu sbr. 6 .gr. laga VR.

  Ef þú ert að vinna áfram hjá sama atvinnureknada í sama starfi eða hjá nýjum atvinnurekanda í starfi sem tilheyrir VR og á félagssvæði VR þá getur þú ekki sagt þig úr félaginu eftir að kjaradeilu hefur verið vísað til ríkissáttasemjara. Kjaraviðræðum VR/LÍV við Samtök atvinnulífsins var vísað til ríkissáttasemjara þann 14. nóvember og því er ekki hægt að segja sig úr félaginu fyrr enn samningar hafa náðst.

  Þetta á við um það félagsfólk VR sem eru í starfi sem heyrir undir kjarasamninga VR og er á félagssvæði þess. Þegar samningar hafa náðst getur þú sagt þig úr félaginu* (2. mgr. 74. gr Stjórnarskrár Íslands), en þér ber áfram skylda til að greiða öll iðgjöld til VR. (6. gr. laga nr. 55/1980 og gr. 10.1 í kjarasamningi VR)

  • Þú ert þá þannig ekki að taka þátt í félagsstarfi stéttarfélagsins en nýtur verndar gildandi kjarasamnings VR sem og átt rétt í sjóðum VR, samkvæmt gildandi reglum þeirra, og á þjónustu kjaramálasviðs félagsins.
  • Skv. 2. mgr. 74 gr. Stjórnarskrár Íslands má engan skylda til aðildar að félagi.
  • Í 6. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda segir „Atvinnurekanda er skylt að halda eftir af launum starfsmanns iðgjaldi hans til viðkomandi stéttarfélags samkvæmt þeim reglum, sem kjarasamningar greina.“ Þar með er þér skylt að greiða iðgjöldin ef þú ert að starfa á félagssvæði/starfsvettvangi VR. Síðan segir ennfremur í gr. 10.1. í kjarasamningi VR „Vinnuveitendur skuldbinda sig til þess að láta verslunarmenn sem eru félagsmenn VR eða viðkomandi aðildarfélags LÍV hafa forgangsrétt við ráðningu til allrar almennrar verslunarmannavinnu skv. samningi þessum.“

  Það er rétt að nefna að víkist einstaklingur undan því að greiða til félagsins, en er þó starfandi á félagssvæði VR og á starfssviði félagsins, og VR ákveður að fara í verkfall, þá er sá aðili engu að síður bundin því að leggja niður störf. Þetta á líka við ef viðkomandi greiðir í annað stéttarfélag, en starfið er á félagssvæði VR og starfssviði þess. Þar sem hann væri ekki að greiða iðgjöld til VR fengi hann ekki greiðslu úr verkfallssjóði VR. Eins og ávallt vonum við þó að það þurfi ekki að grípa til þess að fara í verkfall í þessari samningslotu.

  Undantekningar eru í eftirtöldum tilfellum:

  Þú ert áfram hjá sama atvinnurekanda en ert að fara í nýtt starf hjá honum sem tilheyrir öðru stéttarfélagi en VR:
  Ef þú ert að skipta um starfsvettvang innan sama fyrirtækis þar sem þú munt koma til með að starfa við nýtt starf sem tilheyrir öðru stéttarfélagi en VR þá hefur þú samband við launagreiðanda og upplýsir um breytinguna þannig að félagsgjöld séu greidd til þess stéttarfélags sem nýja starfið tilheyrir.

  Þú ert að fara í nýtt starf hjá nýjum atvinnurekanda og í starf sem tilheyrir öðru stéttarfélagi en VR:
  Ef þú ert að fara að vinna hjá nýjum aðila þá gerist það sjálfkrafa að greiðslur hætta að berast okkur þegar launagreiðslur frá núverandi atvinnurekanda lýkur. Síðan þarft þú að hafa samband við nýjan launagreiðanda og upplýsa hann um í hvaða stéttarfélag félagsgjöld þín eiga að greiðast af hinu nýja starfi.

  Þú ert áfram hjá sama atvinnurekanda og í sama eða samskonar starfi en flytur á nýja starfsstöð sem er utan félagssvæðis VR:
  Í þessu tilviki hefur þú samband við launagreiðanda og biður hann um að flytja félagsgjöld í það verslunarmannafélag sem er með samning á hinu nýja félagssvæði þar sem þín starfsstöð er.

 • Það úrræði sem stéttarfélög hafa til að knýja á framgang krafna sinna (markmiða sinna í vinnudeilu) til að ná réttarbótum er að boða til vinnustöðvunar/verkfalls. Um verkföll og framkvæmd þeirra gilda lög um stéttarfélög og vinnudeilur.

  Í upphafi kjaraviðræðna er gerð viðræðuáætlun milli samningsaðila og eru sett fram tímamörk þess hvenær kröfugerð á að liggja fyrir og hve langan tíma aðilar ætla sér til að ljúka viðræðum. Að þeim tíma liðnum geta aðilar annað hvort saman, eða í sitthvoru lagi vísað deilunni til sáttasemjara sem tekur þá við stjórn viðræðna. Til að unnt sé að boða til verkfalls þurfa tvö skilyrði að vera uppfyllt, annars vegar að deilunni hafi verið vísað til sáttasemjara og hins vegar að verkfallsboðun hafi verið samþykkt í almennri atkvæða- greiðslu meðal félagsfólks stéttarfélagsins.

  Atkvæðagreiðsla um verkfall
  Atkvæðagreiðsla um verkfall skal vera leynileg og taka til allra þeirra sem verkfallið á að taka til. Þegar um rafræna kosningu er að ræða eins og tíðkast hjá VR er ekki gerð krafa um lágmarksþátttöku heldur þarf meirihluti þeirra sem greiðir atkvæði að vera fylgjandi verkfalli. Heimilt er að takmarka verkfall við tiltekinn hóp félagsfólks og taka þá einungis þau sem verkfallið nær til þátt í atkvæðagreiðslunni og verður meirihluti þeirra að samþykkja verkfallið.

  Verkfallsboðun verður að vera skýr og þar þarf að koma fram hvenær verkfall á að hefjast og tilkynna það þeim sem verkfall beinist að eigi síðar en sjö sólarhringum áður. Verkfalli er ætlað að knýja á um framgang krafna sem settar hafa verið fram og er ekki hægt að setja verkfall á til að t.d. þvinga stjórnvöld til að aðhafast eitthvað sem gæti þó talist til réttarbóta fyrir félagsfólk. Ef upp kemur ágreingur um verkföll t.d. um boðun eða framkvæmd þá skal þeim ágreiningi vísað til Félagsdóms.

Fréttir af gangi kjarasamningaviðræðna

 • Frétt frá 25. nóvember 2022

  VR lýsti í gærkvöldi, fimmtudaginn 24. nóvember 2022, yfir árangursleysi í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. Stéttarfélögin vísuðu kjaraviðræðum við SA til ríkissáttasemjara þann 14. nóvember sl. Viðræður síðan þá hafa snúist um gerð kjarasamnings til skamms tíma með áherslu á launaliðinn og það markmið að ná niður verðbólgu og lækka vexti.

  Lesa frétt hér

 • Frétt frá 14. nóvember 2022

  Íslenskt atvinnulíf stendur styrkum fótum og staða fyrirtækja hefur sjaldan verið betri. Hvert fyrirtækið á fætur öðru skilaði methagnaði á síðasta ári og allt bendir til þess að árið í ár verði ekki síðra. Útflutningsgreinarnar – undirstöður atvinnulífsins – standa afar vel. Sjávarútvegurinn skilaði tugmilljarða króna hagnaði í fyrra og ferðaþjónustan hefur náð flugi á nýjan leik eftir Covid.

  Lesa frétt hér

 • Frétt frá 28. október 2022

  Eins og við sögðum frá nýverið ákváðu stærstu landssambönd launafólks á vinnumarkaði, Landssamband íslenzkra verzlunarmanna (LÍV) og Starfsgreinasamband Íslands (SGS), að taka höndum saman í viðræðum við Samtök atvinnulífsins um nýjan kjarasamning.

  Lesa frétt hér

 • Frétt frá 26. október 2022

  Stærstu landssambönd launafólks á vinnumarkaði, Landssamband íslenzkra verzlunarmanna og Starfsgreinsamband Íslands, hafa ákveðið að taka höndum saman í viðræðum við Samtök atvinnulífsins um nýjan kjarasamning.

  Lesa frétt hér

   

 • Frétt frá 24. ágúst 2022

  VR hefur birt Samtökum atvinnulífsins kröfugerð VR og LÍV en kjarasamningur milli VR/LÍV og SA rennur út þann 1. nóvember næstkomandi.
  Smelltu hér til að sjá kröfur VR/LÍV.

  Lesa frétt hér