-
Dagvinnukaup, gr. 3.1. í kjarasamningi.
Dagvinnukaup greiðist tímabundið og ótímabundið ráðnum leiðsögumönnum fyrir vinnu á tímabilinu 07:00–19:00 virka daga allt að 37,5 klst. að meðaltali á viku fyrir fullt starf.
Dagvinnukaup greiðist ferða- og verkefnaráðnu starfsfólki á tímabilinu 07:00-19:00 á virkum dögum. Fyrir vinnu utan þess tímabils eða umfram 7,5 klst. á dag greiðist yfirvinnukaup.
-
Vaktavinnukaup gr. 2.3. og gr. 3.3. í kjarasamningi.
Vaktaálag greiðist sem hér segir:
- 33% kl. 19:00 - 24:00 mánudaga - föstudaga
- 45% kl. 00:00 - 07:00 alla daga og um helgar
- 45% kl. 00:00 - 24:00 á sérstökum frídögum
- 90% kl. 00:00 - 24:00 stórhátíðardaga
Með vöktum er átt við fyrirfram ákveðna vinnutilhögun. Vaktir skulu að lágmarki vera 3 klst. og vera unnar í samfelldri heild.
Vaktir skulu skipulagðar fyrir 4 vikur í senn og vaktaskrá kynnt að minnsta kosti viku áður en hún á að taka gildi. Heimilt er að gera breytingar á vaktaskrá í samráði við leiðsögumann gerist sérstök þörf á með þeim fyrirvara sem gerður er í gr. 3.3.4. um brottfall ferða í kjarasamningi. Þar segir að falli ferð brott á vinnudegi leiðsögumanns skv. vaktaskrá, og önnur ferð ekki farin í staðinn innan mánaðarins, greiðist dagvinnukaup fyrir ferðina.
-
Álagsgreiðslur, gr. 2.4. í kjarasamningi
Greitt er:
- 50% álag ofan á laun fyrir ökuleiðsögn þegar farþegar eru 4 eða fleiri.
- 20% álag á tímakaup leiðsögumanns fyrir hvert tungumál umfram eitt.
- 25% álag fyrir ferð þar sem sérfræðikunnáttu er krafist af ferðaráðnum leiðsögumanni.
- 25% álag ofan á laun ef leiðsögumaður er yfirleiðsögumaður í ferð.
Samið skal um það fyrirfram sé leiðsögumaður með leiðsögn í fleiri en einni bifreið.
Sé ekki samið um greiðslu fyrir notkun á einkasíma leiðsögumanns skal greitt 500 kr. á dag fyrir afnot á honum. -
Launaflokkur 1: Fararstjóri, hópstjóri. Er fulltrúi ferðaskrifstofu og veitir ferðamönnum hagnýta þjónustu í samræmi við óskir ferðaskrifstofu.
Launaflokkur 2: Leiðsögumaður án sérstakrar menntunar á sviði leiðsagnar eða annars starfsundirbúnings fyrir leiðsögustörf.
Launaflokkur 3: Leiðsögumaður með starfsundirbúning (menntun eða raunfærnimat) á sérsviði leiðsagnar eða í almennri leiðsögn sem nýtist í starfi. Getur forgangsraðað og skipulagt eigin störf í krefjandi aðstæðum og sýnt fagmennsku í starfi. Getur miðlað þekkingu sinni og leikni, rökstutt og ígrundað þær aðferðir sem hann nýtir auk þess að búa yfir ábyrgð gagnvart starfsumhverfi og hæfni til að leiðbeina öðrum.
Launaflokkur 4: Leiðsögumaður með starfsundirbúning fyrir almenna leiðsögn (menntun eða raunfærnimat) í samræmi við IST EN 15565:2008 um þjálfun og menntun leiðsögumanna sem nýtist í starfi, með próf í leiðsögn. Hefur sérhæfða þekkingu sem nýtist við leiðsögn. Getur forgangsraðað og skipulagt eigin störf í krefjandi aðstæðum og sýnt fagmennsku í starfi. Getur miðlað þekkingu sinni og leikni, rökstutt og ígrundað þær aðferðir sem hann nýtir auk þess að búa yfir ábyrgð gagnvart starfsumhverfi og hæfni til að leiðbeina öðrum.
Ef krafist er sérstakrar þekkingar eða sérmenntunar umfram þau viðmið sem launaflokkar 1–3 kveða á um skulu aðilar ráðningarsamnings semja um laun fyrir starfið.
-
Ávinnslutími orlofs er frá 1. maí til 30. apríl ár hvert og er sumarleyfistíminn 2. maí til 15. september.
Samkomulag við atvinnurekanda ræður því hvenær orlof er tekið og á að verða við óskum starfsfólks, að svo miklu leyti sem unnt er vegna starfseminnar. Atvinnurekandi á að tilkynna eins fljótt og hægt er og í síðasta lagi mánuði fyrir byrjun orlofs hvenær orlof skuli hefjast. Því er góð regla að starfsfólk óski tímanlega eftir því hvenær það vilji fara í orlof.
Aukinn orlofsréttur
Frá og með 1. maí 2024 eru uppsöfnuð orlofsréttindi fyrir tímabilið 1. maí 2024 til 30. apríl 2025 fyrir orlof sem tekið er sumarið 2025 sem hér segir:
Lágmarksorlof er 24 virkir dagar og orlofslaun því 10,17% af heildarlaunum.
- Leiðsögumaður með 8 ára starfsreynslu eða 5 ár hjá sama fyrirtæki skal hafa 27 daga orlof og skulu orlofslaun vera 11,59%
- Leiðsögumaður með 12 ára starfsreynslu eða 10 ár hjá sama fyrirtæki skal hafa 30 daga orlof og skulu orlofslaun vera 13,04%
1650 vinnustundir eru ígildi eins árs í starfsreynslu í framangreindum skilningi. Til vinnustunda í þessum skilningi teljast allar unnar stundir við leiðsögn.
Frá og með 1. maí 2025 eru uppsöfnuð orlofsréttindi fyrir tímabilið 1. maí 2025 til 30. apríl 2026 fyrir orlof sem tekið er sumarið 2026 sem hér segir:
- Lágmarksorlof er 24 virkir dagar og orlofslaun því 10,17% af heildarlaunum.
- Leiðsögumaður með 5 ára starfsreynslu skal hafa 27 daga orlof og skulu orlofslaun vera 11,59%
- Leiðsögumaður með 10 ára starfsreynslu skal hafa 30 daga orlof og skulu orlofslaun vera 13,04%
1650 vinnustundir eru ígildi eins árs í starfsreynslu í framangreindum skilningi. Til vinnustunda í þessum skilningi teljast allar unnar stundir við leiðsögn.
Atvinnurekendur geta farið fram á að starfsfólk leggi fram starfsvottorð um starfstíma þegar meta þarf starfsreynslu.
Orlofstaka utan orlofstímabils
Ótímabundið ráðnir leiðsögumenn sem samkvæmt ósk atvinnurekanda fá ekki að lágmarki 14 daga í orlof á tímabilinu 1. apríl til 30. september ár hvert, skulu fá 25% lengingu á þann hluta orlofs sem veitt er utan lögbundins tíma, eða greiðslu sem því nemur. ATH að þetta ákvæði á ekki við um ferða- og verkefnaráðið leiðsögufólk.
Veikindi í orlofi
Veikist starfskraftur í orlofi það alvarlega að hann geti ekki notið orlofsins skal á fyrsta degi tilkynna það atvinnurekanda með sannanlegum hætti. Fullnægi starfskraftur tilkynningaskyldunni, standi veikindin lengur en 3 sólarhringa og tilkynni hann atvinnurekanda innan þess frests hvaða læknir annist hann eða muni gefa út læknisvottoðr, á hann rétt á uppbótarorlofi jafnlangan tíma og veikindin sannanlega vörðu. Undir framangreindum ástæðum skal starfskraftur ávallt færa sönnur á veikindi sín með læknisvottorði. Atvinnurekandi á rétt á að láta lækni vitja starfskrafts er veikst hefur í orlofi. Uppbótarorlof skal veitt samkvæmt samkomulagi.
Framangreint gildir innanlands, í landi innan EES svæðisins, Sviss, Bandaríkjunum, Bretlandi og Kanada. Sömu reglur gilda um slys í orlofi.
-
Yfirvinnukaup, gr. 2.3.2., 3.1.2., 3.2.1. og 3.3.3. í kjarasamningi.
Hjá tímabundið og ótímabundið ráðnu starfsfólki greiðist yfirvinna fyrir alla tíma sem unnir eru umfram 162,5 virkar klst. á mánuði.
Jafnframt greiðist yfirvinna fyrir alla vinnu sem unnin er á skilgreindum frídögum (skírdagur, annar í páskum, sumardagurinn fyrsti, 1. maí, uppstigningardagur, annar í hvítasunnu, frídagur verslunarmanna og annar í jólum), ásamt dagvinnulaunum ef um reglubundinn vinnudag er að ræða.*
Yfirvinnutímakaup greiðist með tímakaupi sem er 1,0385% af mánaðalaunum fyrir dagvinnu í hverjum launaflokki og starfsaldursþrepi.
*Starfsfólk í vaktavinnu fær 45% álag greitt á þessum dögum.
-
Stórhátíðarkaup, gr. 2.3., og 3.5. í kjarasamningi
Stórhátíðarkaup er greitt fyrir alla vinnu sem unnin er á stórhátíðardögum (jóladagur, nýársdagur, föstudagurinn langi, páskadagur, hvítasunnudagur, 17. Júní og eftir kl. 12:00 á aðfangadag og gamlársdag).
Stórhátíðarkaup greiðist með tímakaupi sem nemur 1,375% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu í hverjum launaflokki og starfsaldursþrepi, ásamt dagvinnulaunum ef um reglubundinn vinnudag er að ræða.
* Starfsfólk í vaktavinnu fær 90% álag greitt á þessum dögum.
-
Ferðaráðinn starfskraftur - Brottfall ferða, gr. 3.2. og gr. 3.4. í kjarasamningi.
Dagsferð
Ef dagsferð er felld niður innan 24 klst. fyrir tilkynntan brottfarartíma skal greiða ferðina að fullu á þeim launum sem samið var um, enda komi ekki til óviðráðanlegar orsakir (force majeur) s.s. verkföll, náttúruhamfarir o.þ.h. Óviðráðanlegar orsakir eru ekki að ekki hafi náðst lágmarks fjöldi í ferð.Ferðaskrifstofu er heimilt að bjóða leiðsögumanni sambærilegar ferðir á sínum vegum eða annarra á umsömdum ferðatíma án sérstakrar aukagreiðslu. Sé sú ferð lengri, eða fellur utan þess tíma sem upphaflega var umsamið, greiðist aukalega fyrir tímann sem er umfram.
Langferð
Falli langferð niður skal öll ferðin greidd samkvæmt áætlun, enda hafi starfsmanni ekki borist tilkynning um breytinguna a.m.k. 5 sólarhringum áður en umsamin langferð átti að hefjast, nema óviðráðanlegar ástæður hamli, s.s. verkföll, náttúruhamfarir o.þ.h.Ferðaskrifstofu er þó heimilt að bjóða starfsmanni vinnu í ferð eða ferðum á sama tímabili, í stað þeirrar sem fallið hafði niður og umsamin var.
Ennfremur er heimilt að semja um forgang um leiðsögn í ferð utan háannatíma í stað ferðar sem fellur niður á sumartíma, ef slíkt hentar báðum aðilum.
Leiðsögumaður hafnar eða hættir við ferð
Hafni leiðsögumaður leiðsögn í ferð sem boðin er í stað brottfallinnar ferðar, á sama tímabili og ferð átti að vera, fellur niður greiðsla sem svarar staðgönguferðinni.
Falli leiðsögumaður frá ferð, með sama fyrirvara og segir um dags- og langferðir, verður hann bótaskyldur gagnvart ferðaskrifstofu sem nemur hálfum launum til leiðsögumanns við brottfall ferðar, nema fyrir liggi lögmæt forföll.
Leiðsögumanni er heimilt að fá annan leiðsögumann í ferðina í sinn stað.
Val á leiðsögumanni er háð samþykki ferðaskrifstofu. Höfnun ferðaskrifstofu á staðgengli verður að byggjast á rökstuddum og málefnanlegum ástæðum. -
Greitt er:
- Að lágmarki 4 klst. fyrir unninn tíma eða fyrirfram umsaminn ferðatíma, nema um sé að ræða langferð hjá ferða- og verkefnaráðnum leiðsögumanni.
- Fyrir a.m.k. 11 klst. á dag í langferðum.
- Fyrir a.m.k.12 klst. á dag í tjaldferðum og skálaferðum.
- Fyrir þann tíma sem fer umfram 11 klst. sé leiðsögumanni gert að snæða með farþegum í lengri ferðum þar sem gist er á hóteli eða semja um greiðslu fyrirfram.
- Fyrir alla vinnu sem leiðsögumaður er beðinn um að sinna umfram hefðbundinn vinnutíma.
Vinnutími, útlagður kostnaður, gisting
- Vinnutíma leiðsögumanns er ekki lokið fyrr en hann er kominn á gististaðinn sem atvinnurekandi hefur ákveðið.
- Ef leiðsögumaður er boðaður til vinnu með minna en klukkutíma fyrirvara skal atvinnurekandi sjá honum fyrir flutningi á vinnustað.
- Ef engar almenningssamgöngur eru ekki fyrir hendi við upphaf eða lok ferðar ber atvinnurekanda að sjá um flutning leiðsögumanns að og frá brottfarar- og komustað.
- Ef upphafs- og/eða lokadagur langferðar er skipulagður skemmri en 3,75 klst. eru greiddar 3,75 klst. fyrir daginn. En ef dagurinn er skipulagður skemmri en 7,5 klst. en lengri en 3,75 klst. eru greiddar 7,5 klst.
- Ef ökuleiðsögumanni er gert að þrífa og ganga frá ökutæki skal greiða fyrir þann tíma sem fer umfram 11 klst. eða semja sérstaklega um greiðslu fyrirfram.
- Greiddir skulu ½ dagpeningar vegna gistingar ef leiðsögumanni stendur einungis til boða aðrar og lakari aðstæður í hótelferðum, s.s. svefnpokapláss eða húsnæði sem að öðru jöfnu er ekki ætlað til gistingar, skv. Ferðakostnaðarnefnd ríkisins
- Ef leiðsögumaður þarf að leggja út fyrir fæði skal ferðaskipuleggjandi greiða fyrir það án tafar, enda séu lagðar fram kvittanir vegna þess. (Leiðsögumönnum er bent á að geyma afrit af gögnunum ef þörf er á aðstoð við að sækja kostnaðinn).