Vefspjall VR

Spurt og svarað um kvennaverkfall 2025

Boðað er til kvennaverkfalls þann 24. október næstkomandi í tilefni af því að 50 ár eru liðin frá kvennaverkfallinu 1975. VR skorar á félagsfólk að leggja sitt af mörkum í baráttunni fyrir jafnrétti á þessum degi. VR skorar einnig á fyrirtæki að sýna samstöðu í verki svo konur og kvár geti lagt niður störf þennan dag, án skerðingar á launum.

  • Kvennaverkfallið 2025 er hvorki verkfall í skilningi vinnulöggjafarinnar né frídagur launafólks. Kvennaverkfallið er baráttudagur fyrir jafnrétti á vinnumarkaði og tekur launafólk þátt á eigin forsendum og samkvæmt eigin ákvörðun.

  • Þú verður að ræða við þinn næsta yfirmann og fá heimild hjá honum til að leggja niður störf til að leggja þitt af mörkum í baráttunni fyrir jafnrétti á þessum degi. Atvinnurekanda ber ekki skylda til að greiða laun fyrir þennan dag en VR skorar á atvinnurekendur að heimila konum og kvár að leggja niður störf þennan dag, án skerðingar á launum.

  • Þann 24. október árið 1975 lögðu um 90% kvenna á Íslandi niður störf til að vekja athygli á mikilvægi vinnuframlags þeirra og mótmæla mismunun. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hafði ákveðið að það ár skyldi helgað málefnum kvenna og dagurinn sjálfur er dagur SÞ. Ákvörðun íslenskra kvenna vakti heimsathygli og er enn að vekja umræður víða um heim. Meginmarkmiði dagsins, að störf kvenna séu metin að verðleikum, hefur hins vegar ekki enn verið náð þrátt fyrir að ýmislegt hafi áunnist á þessum tíma. Kvennafrídagurinn hefur verið haldinn nokkrum sinnum á síðustu árum og nú er enn á ný blásið til sóknar.