Almennar fréttir - 02.05.2025
Ísland þarf öfluga verkalýðshreyfingu
Í rúma öld hefur launafólk á Íslandi efnt til kröfugöngu og útifunda í tilefni af 1. maí, alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins. Við fögnum því sem vel hefur tekist og skerpum á samstöðunni til að takast á við stærstu viðfangsefni samtímans. Því sjónarmiði óx fiskur um hrygg fyrir efnahagshrunið að kjarabarátta væri frekar gamaldags og hallærisleg. Verkalýðshreyfingin féll sjálf fyrir „nútímanum“ og hugleiddi um tíma að leggja af kröfugöngu á 1. maí og efna frekar til hátíðarhalda þar sem áherslan væri á að gleðjast, frekar en krefjast. Hrunið leiddi hins vegar í ljós hversu rík þörf er á kröftugri hagsmunabaráttu fyrir almenning og þar eiga stéttarfélög að standa í stafni. Þeim er þó í lófa lagið að krefjast og gleðjast á sama tíma og hefur oft og tíðum farnast það vel úr hendi!
Lífsgæðin komu með kjarabaráttu
Kjarabarátta íslenskra stéttarfélaga hefur lagt grunninn að lífsgæðum á Íslandi. Með sterkum stéttarfélögum í virkri kjarabaráttu fékk venjulegt fólk helgarfrí, sumarfrí, kaffihlé, afmarkaðan vinnutíma, veikindarétt, lífeyrisréttindi og fæðingarorlof, svo fátt eitt sé nefnt. Það var kjarabarátta sem gerði að verkum að fleira fólk gat lifað af laununum sínum, haldið heimili og jafnvel notið lífsins inn á milli. Þannig varð hin íslenska millistétt til. Sterkum stéttarfélögum er líka um að þakka að hér á landi hefur gengið hvað best að verja hlut launafólks gagnvart ágengum gróðaöflum. En það eru blikur á lofti og full ástæða fyrir launafólk til að huga að réttindum sínum til framtíðar.
Víða um Evrópu hefur staðið yfir skipulagt niðurbrot á starfi stéttarfélaga. Staða þeirra hefur verið markvisst veikt og aðild að stéttarfélögum hefur dregist saman. Margt fólk telur sig betur sett utan stéttarfélaga en þegar öllu er á botninn hvolft getur sá vermir reynst skammgóður. Því í löndum þar sem stéttarfélög hafa verið brotin á bak aftur hefur launafólk tapað sínum hlut. Það afkastar meiru, en fær minna fyrir. Ójöfnuður eykst, laun lækka, hin ofsaríku verða ríkari, vinnuaðstæður verða verri og afkomuöryggi og félagslegt öryggi heyra sögunni til. Sífellt fleiri búa við fátækt þrátt fyrir fulla vinnu og samhliða eykst stuðningur við pólitísk öfgaöfl.
Gul stéttarfélög sækja í sig veðrið
Hér á landi gætir ýmissa tilrauna til niðurbrots stéttarfélaga, til dæmis með órökstuddum hugmyndum um að auka valdheimildir ríkissáttasemjara og beitingu verkbannsvopnsins án ábyrgðar. Þá hafa gul stéttarfélög sótt í sig veðrið og má þar helst nefna Virðingu, Íslenska flugstéttafélagið og Félag lykilmanna. Það síðastnefnda herjar á félagsfólk VR með loforðum um sömu réttindi fyrir minni pening og hefur stundað svæsna markaðssetningu þar sem það kynnir sig sem „óháð“ og „nútímalegt“ stéttarfélag. En í raun uppfyllir Félag lykilmanna ekki grundvallarkröfur sem gerðar eru til stéttarfélaga. Félagið skilar auðu í mikilvægasta verkefni allra stéttarfélaga, sem er kjarabarátta, og sinnir ekki orlofsmálum, réttindamálum og starfsmenntamálum. Sjálfskipaðir lykilmenn njóta góðs af réttindabaráttu sem félagsfólk stéttarfélaga stendur undir, en leggja ekkert af mörkum og grafa heldur undan hinni sameiginlegu baráttu. Það er hins vegar hin sameiginlega barátta sem hefur lagt grunninn að lífsgæðum á Íslandi.
Hingað til hefur launafólk á íslenskum vinnumarkaði ekki verið ginnkeypt fyrir gulum stéttarfélögum og það er ástæða til að vara VR-félaga sérstaklega við innantómum loforðum Félags lykilmanna. Lægra félagsgjald breytist hratt og örugglega í lægri laun og lakari kjör þegar skipulagðri kjarabaráttu sleppir. Fordæmin eru víða og þau ber að varast.
Verkefnin framundan
Verkalýðshreyfingin á Íslandi stendur frammi fyrir fjölmörgum mikilvægum verkefnum á næstu misserum. Varðstaða um öfluga hreyfingu er lykilmál, en það er líka áríðandi að sækja fram í baráttunni fyrir réttindum launafólks og almannahagsmunum. Hér á allt fólk að geta lifað af laununum sínum og þar skiptir húsnæðiskostnaður allra mestu. Engin ástæða er til að varpa sífellt öllum byrðum af ótraustu efnahagsástandi á herðar launafólks og það er hlutverk verkalýðshreyfingarinnar að stöðva þá aðför, hvort sem hún birtist í formi hárra stýrivaxta eða aukinnar gjaldtöku. Með tæknibreytingum tekur vinnan stakkaskiptum og það er stéttarfélaga að tryggja að ágóðinn af nýrri tækni skili sér til launafólks, til dæmis í formi styttri vinnutíma. Enn fremur þarf að taka kjör barnafjölskyldna föstum tökum og halda áfram að byggja upp samfélag þar sem allt vinnandi fólk getur notið góð jafnvægis milli vinnu og einkalífs.
Í dag skulum við skerpa á kröfunum og efla samstöðuna! Mætum í kröfugöngu og tökum þátt í útifundum.
Gleðilegan baráttudag!
Grein Höllu Gunnarsdóttur, formanns VR, í tilefni af baráttudegi verkalýðsins 1. maí 2025. Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.