Vefspjall VR

Hlaðvarp - Konur í VR

Í tilefni af Kvennaári 2025 birtir VR hlaðvörp þar sem Halla Gunnarsdóttir formaður ræðir við VR konur í hinum ýmsu störfum. Fimmtíu ár eru liðin frá fyrsta kvennaverkfallinu 24. október 1975 þegar íslenskar konur lögðu niður launuð og ólaunuð störf og samfélagið lagðist á hliðina. Árið í ár er helgað konum og þátttöku þeirra í samfélaginu. 

Markmið með hlaðvarpinu er að bregða ljósi á hin ólíku störf sem konur gegna innan VR og veita innsýn í reynslu þeirra á vinnumarkaði. Margt hefur breyst til hins betra á hálfri öld en engu að síður er enn langt í land að konur og karlar standi jafnfætis á vinnumarkað. Hlaðvarp VR er ein leið til að auka sýnileika kvenna og efla enn frekar umræðuna um réttindi og frelsi þeirra. 


1. þáttur - 21.000 skref á dag!

Félagsfólk VR vinnur við fjölbreytt störf í þjóðfélaginu en rætur félagsins liggja í versluninni. Á kvennaári er því vel við hæfi að hefja hlaðvörp VR með konum í verslun. Halla Gunnarsdóttir, formaður VR, ræðir við þær Alexandriu Petrinu Arnarsdóttur hjá Ikea, Guðrúnu Maríu Jóhannsdóttur hjá Húsasmiðjunni og Guðnýju S. Bjarnadóttur hjá Vero Moda um starfið í versluninni, kvennabaráttuna og kynslóðir, fordóma og ekki síður blæðingar, barnsburð og breytingaskeiðið.

2. þáttur - Margt hefur breyst til hins betra en það er alls konar eftir!

VR heldur áfram að ræða við konur í tilefni af Kvennaári 2025 og nú er komið að konum á skrifstofu. Í nýjasta hlaðvarpi VR tekur Halla Gunnarsdóttir formaður VR á móti þeim Arndísi Arnarsdóttur hjá Hagkaup, Júlíönu Einarsdóttur hjá Aðföngum og Kristínu Sævarsdóttur hjá Húsasmiðjunni. Heiti þáttarins gefur fyrirheit um innihaldið, Margt hefur breyst til hins betra en það er alls konar eftir! Til umræðu er kvennabaráttan, þriðja vaktin og þrjú b – blæðingar, barneignir og breytingaskeiðið, svo fátt eitt sé nefnt. 

3. þáttur - Svakalega ertu vígaleg á þessum lyftara!

Í þessum þætti er rætt við konur sem starfa við lagerstörf og eru í VR. Rætt er við þær Sunnevu Blöndal hjá BYKO, Ágústu Ýr Írisardóttur hjá Bauhaus og Rebekku S. Hannilbalsdóttur sem starfar hjá Halldóri Jónssyni. Rætt er um ýmislegt sem viðkemur því að starfa á lager, hvernig er að vera kona í því starfi, framkomu viðskiptavina, fordóma, Kvennafrídaginn og margt fleira.

4. þáttur - um leið og ég fór að æfa mig í íslensku þá opnaðist allt

Ferðaþjónustan er orðin ein stærsta atvinnugrein á Íslandi og í þessum þætti spjallar formaður VR, Halla Gunnarsdóttir, við konur sem starfa við fjölbreytt störf innan hennar. Rætt er við Eyrúnu Gunnarsdóttur, móttökustjóra hjá Fosshótelum, Eriku Martins Carneiro sem starfar sem leiðsögukona hjá Góu Travel og Jennifer Schröder, söluaðila hjá 360 Wanderlust og stjórnarkonu í VR. Opið og fræðandi spjall um ferðaþjónustuna, reynslu erlendra kvenna af því að aðlagast íslensku samfélagi, framkomu ferðamanna og margt fleira.


5. þáttur - Þessar konur eru algerar hetjur í mínum augum

Í síðasta þættinum af hlaðvarpsseríunni með konum í VR spjallar Halla Gunnarsdóttir, formaður VR, við reynslumiklar konur úr atvinnulífinu sem hafa einnig allar verið kjörnar til trúnaðarstarfa fyrir VR. Viðmælendur eru Ólafía B. Rafnsdóttir, fyrsti kvenformaður VR, Svanhildur Ólöf Þórsteinsdóttir, núverandi stjórnarkona og Stefanía Magnúsdóttir sem sat í stjórn VR í 20 ár og einnig varaformaður um tíma. Þær ræða um Kvennárið, þýðingu jafnréttisbaráttunnar fyrir þær og ýmislegt varðandi barneignir, blæðingar og breytingaskeiðið.