Reglur um Öldungaráð VR voru samþykktar af stjórn VR árið 2020. Samkvæmt 5. gr. starfsreglna Öldungadeildar VR skal skipa sex eldri félagsmenn í forystusveit hennar, Öldungaráð VR, annað hvert ár eftir fyrsta stjórnarfund VR að loknum aðalfundi. Kjörtímabil fulltrúa í ráðinu eru skv. því tvö ár í senn. Þrír eru tilnefndir í ráðið af stjórn VR og þrír til viðbótar eru kosnir af Öldungadeild VR en í henni eru allir fullgildir VR félagar 65 ára og eldri. Jöfn kynjaskipting skal vera í ráðinu.
Framundan er áframhaldandi áhersla á stuðning við baráttu Gráa hersins, baráttuhóps eldri borgara um lífeyrismál. VR hefur lagt málssókn Gráa hersins lið gegn Tryggingastofnun f.h. íslenska ríkisins vegna skerðinga á opinberum ellilífeyri í hlutfalli við réttindin sem fólk hefur áunnið sér í almennum lífeyrissjóðum. Það eru sjónarmið okkar að með því sé um að ræða ígildi eignaupptöku sem er brot á 72. gr. stjórnarskrárinnar auk 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi eignarréttarins. Enda var því kerfi skyldulífeyrissparnaðar, sem komið var á fót með kjarasamningum á árinu 1969, ætlað að koma til viðbótar en ekki í stað almannatrygginga.
Mörg önnur mál er lúta að hagsmunum eldra félagsfólks verða svo einnig á dagskrá, s.s. húsnæðismál o.fl. – við munum færa nánari fréttir af störfum og baráttumálum Öldungadeildar félagsins á næstu misserum.