Tillaga VR að hefðbundnu styrkjarkerfi gerir ráð fyrir að veittir verði styrkir í sjö flokkum með ákveðnu árlegu hámarki í hverjum flokki fyrir sig. Innan nokkurra flokka er í boði styrkur fyrir fleiri en einn þátt. Flokkaskiptingin er frábrugðin hefðbundnu styrkjakerfi stéttarfélaga að því leyti að VR býður styrki fyrir orlofsþjónustu en slíkt er almennt ekki í boði hjá stéttarfélögum. Þá eru ekki öll stéttarfélög með fæðingarstyrk.
Hér að neðan má sjá flokkaskiptinguna.
Meðferð á líkama og sál Sálfræðiþjónusta, sjúkraþjálfun, sjúkranudd, hnykk, nudd utan TR og dvöl á Heilsustofnun |
Hámark 80.000 kr. / 60% af reikningi. |
Líkamsrækt | Hámark 25.000 kr. / 50% af reikningi. |
Heyrnartæki og gleraugu (á 3ja ára fresti) | Hámark 70.000 kr. / 50% af reikningi. |
Glasa- og tæknifrjóvgun | Hámark 70.000 kr. / 100% af reikningi. |
Áhættumat Rannsóknir vegna krabbameins og hjartarannsókn |
Hámark 20.000 kr. / 85% af reikningi. |
Orlofsþjónusta Niðurgreiðsla á flugi eða endurgreiðsla orlofsgistingar |
Hámark 25.000 kr. / 70% af reikningi. |
Fæðingarstyrkur Er ekki með í 120.000 kr. hámarki heildarstyrkja á ári |
Alls 100.000 kr., greitt einu sinni fyrir hvert barn. |
Árlegt hámark
Hámark verður á heildargreiðslum til hvers og eins félaga, 120.000 kr. á ári samtals úr öllum flokkum, fyrir utan fæðingarstyrk sem ekki er talinn með í hámarkinu.
Skilyrði fyrir styrk
Til að fá styrk þarf að hafa greitt félagsgjald til VR í sex af síðustu tólf mánuðum, þar af einn mánuð af síðustu þremur. Til að fá fæðingarstyrk, þarf að hafa greitt félagsgjald í tólf mánuði. Félagsfólk með laun undir lágmarkslaunum samkvæmt kjarasamningi VR og SA fengi hlutfallslegan styrk og er miðað við hlutfall launa viðkomandi af lágmarkslaunum eins og þau eru skilgreind hverju sinni.
Félagsfólk í sumarstarfi eða í tímabundnu starfi sem ekki uppfyllir þessi skilyrði hefur ekki rétt til styrks.
Réttur til styrks er almanaksárið
Réttur til styrkja er 12 mánuðir og er miðað við almanaksárið. Hafi ekki verið sótt um styrk innan almanaksársins, eða eingöngu hluta af hámarksstyrk, fellur rétturinn niður en færist ekki yfir á næsta ár. Í upphafi næsta árs hefst þannig nýtt umsóknartímabil. Athugið að réttur til styrkja fellur niður þremur mánuðum eftir síðustu greiðslu félagsgjalda.
Styrkir fela í sér endurgreiðslu á útlögðum kostnað. Sækja þarf um styrk og leggja fram reikning. Almennt er greitt fyrir ákveðið hlutfall af reikningi. Þetta hlutfall er lægst 50% en í tilfelli styrks fyrir glasa- eða tæknifrjóvgun er reikningur greiddur að fullu, þó að hámarki 70.000 kr.
Breytingar á öðrum styrkjum og niðurgreiðslu
Ef niðurstaða kosninga verður sú að taka upp hefðbundið styrkjakerfi verða gerðar breytingar á öðrum styrkjum og niðurgreiðslu félagsins (sjá einnig umfjöllun um VR varasjóð)
- Sölu gjafabréfa Icelandair verður hætt en hægt verður að sækja um niðurgreiðslu á kostnaði við flug og orlofsgistingu.
- Ekki verður hægt að sækja um styrk í hefðbundnu styrkjakerfi til að greiða fyrir leigu á orlofshúsum VR eins og hægt er með inneign í VR varasjóði.
- Styrkur úr Sjúkrasjóði VR vegna glasa- og tæknifrjóvgunar verður færður undir hefðbundna styrkjakerfið, en styrkur fyrir ferðakostnaði vegna sérfræðilækna fellur niður.
Gildistaka
Ef niðurstaða kosninganna verður sú að taka upp nýtt styrkjakerfi kæmi það til framkvæmda daginn eftir aðalfund 2026, eða þann 26. mars það ár. Þá yrði sölu gjafabréfa Icelandair jafnframt hætt og aðrar breytingar tækju gildi, t.d. varðandi fæðingarstyrk, glasafrjóvgunarstyrki Sjúkrasjóðs og ferðakostnað vegna sérfræðilækna. Félagsfólk sem á inneign í VR varasjóði hefur tvö ár frá aðalfundi 2026 til að nýta alla inneign sína, að öðrum kosti fyrnist það sem eftir er í sjóðnum að fullu frá og með 26. mars 2028.
Skattskylda styrkja - mikilvægt að hafa í huga
Ekki er greiddur tekjuskattur af styrkjum fyrir orlofsgistingu eða líkamsrækt (tekur einnig til endurhæfingar sem er sambærileg og íþróttaiðkun) upp að ákveðnu hámarki. Þá eru styrkir vegna starfstengds náms undanþegnir staðgreiðslu skatta en færa þarf kostnað til frádráttar á móti styrk á skattframtali. Aðrir styrkir eru skattlagðir með sambærilegum hætti og laun, tekjuskattur í þrepi 1, eða 31,49%, er dreginn af upphæð heildarstyrks og skilar VR þeirri upphæð til skattsins. Sjá nánar á vef ríkisskattstjóra.
Samanburður – VR varasjóður og hefðbundið styrkjakerfi
VR varasjóður | Hefðbundið styrkjakerfi | |
Hvernig færðu endurgreitt / styrk? | Þinn persónulegi sjóður, tekjutengdur | Umsókn um styrki, með hámarki fyrir hvern styrk |
Hægt að safna milli ára? | Já | Nei |
Fjöldi möguleika á styrk / greiðslu? | Mikill sveigjanleiki, um 40 möguleikar | 7 flokkar með um 12 styrkmöguleikum |
Hámarksupphæð? | Ekkert ákveðið hámark – bara upp að inneign | 120.000 kr. á ári, samtals (auk fæðingarstyrks) |
Sveigjanleiki? | Mikill | Takmarkaður við flokka |
Fæðingarstyrkur | Nei, hægt að sækja um launatap í fæðingarorlofi | Já, 100 þúsund krónur, greiddar einu sinni fyrir hvert barn |
Gjafabréf Icelandair? | Já | Nei, hægt að sækja um orlofsstyrk |
Styrkur fyrir leigu orlofshúsa VR? | Já | Nei |
Heildarkostnaður fyrir félagið á ársgrundvelli er áætlaður sá sami, hvor valkosturinn sem verður fyrir valinu. Á árinu 2024 greiddi VR 1.050 m.kr. inn í VR varasjóð. Heildarupphæð sem greidd var úr sjóðnum auk styrkja Sjúkrasjóðs og niðurgreiðslu gjafabréfa í flug nam um 980 m.kr. á árinu 2024.