VR varasjóður er persónulegur sjóður félagsfólks á nafni hvers og eins félaga. Félagsfólk velur hvernig það nýtir inneign sína í sjóðnum til að greiða fyrir þjónustu eða vöru, innan þeirra marka sem félagið setur og fjallað er um í reglugerð sjóðsins.
Hér að neðan má sjá lista yfir hvað hægt er að nýta inneign í sjóðnum til að greiða, en þessi listi er ekki tæmandi.
Atvinnuleysi | Hjartavernd | Nám, skólagjöld starfsnám |
Börn, námsgögn | HL- stöðin | Nudd |
Börn, tómstundir | Kírópraktor | Orlofshús VR, leiga |
Ferðakostnaður almennt | Krabbameinsskoðun | Samtalsmeðferð |
Ferðakostnaður, flug | Laseraðgerð | Sálfræðikostnaður |
Ferðakostnaður, gisting | Líkamsrækt | Sjúkraþjálfun |
Fæðingarorlof, tekjutap | Líkamsræktarvörur | Starfslok / 60+ |
Gleraugu | Lyfjakostnaður | Tannlæknakostnaður |
Heilsunámskeið | Lækniskostnaður | Tryggingar, líftrygging |
Heilsustofnun | Nálarstungur | Tryggingar, sjúkdómar |
Heyrnartæki | Nám, bókakaup | Veikindi / Örorka |
Inngreiðslur í sjóðinn
Greitt er inn í VR varasjóð árlega, eftir aðalfund sem haldinn er í mars. Inngreiðslur eru tekjutengdar og nemur árleg inngreiðsla um 4% af einum mánaðarlaunum viðkomandi félaga, að meðaltali miðað við árið á undan. Allt félagsfólk VR fær greitt í varasjóð árlega, óháð því hve lengi viðkomandi hefur verið í VR eða hver launin eru.
Dæmi um inngreiðslu í VR varasjóð árið 2025:
Einstaklingur var með 840 þúsund krónur í laun að meðaltali á mánuði árið 2024. Hann fékk um 33 þúsund króna eingreiðslu í sjóðinn í mars 2025. Ef laun hans hefðu breyst á árinu 2024, hærri eða lægri í einhvern tíma, tæki inngreiðsla í VR varasjóð tillit til þess.
Inneign safnast upp milli ára
VR varasjóður byggir á uppsöfnun. Ef ekki er tekið út úr sjóðnum í einhvern tíma, hvort sem er öll fjárhæðin eða hluti hennar, er hún áfram í sjóðnum og næstu inngreiðslur bætast við það sem fyrir var. Þannig getur félagsfólk safnað upp varasjóði. Í reiknivél getur þú séð hvað yrði lagt inn í þinn VR varasjóð, sjá hér.
Inneign byrjar að fyrnast (25%) tveimur árum eftir að viðkomandi hættir í félaginu og fyrnist að fullu á fimm árum.
Ekkert árlegt hámark
Til að fá styrk þarf viðkomandi félagi að eiga inneign í sjóðnum. Ekkert hámark er á greiðslum úr sjóðnum, svo fremi að inneign sé til staðar.
Sækja þarf um og leggja fram reikning fyrir útlögðum kostnaði í flestum tilfellum og er reikningur endurgreiddur að fullu, ef inneign dugar til, að frádregnum tekjuskatti þar sem það á við.
Aðrir styrkir / niðurgreiðsla félagsins
Ef VR varasjóður verður fyrir valinu í kosningunum verða styrkir Sjúkrasjóðs VR óbreyttir sem og framboð af gjafabréfum Icelandair (háð samkomulagi við samstarfsaðila). Ef hefðbundið styrkjakerfi verður fyrir valinu falla styrkir Sjúkrasjóðs og gjafabréf Icelandair niður, en hægt verður að sækja um styrki vegna glasafrjóvgunar og orlofsmála.
Styrkir Sjúkrasjóðs VR eru sem hér segir:
- Styrkur vegna glasafrjóvgunar er alls 250.000 kr. fyrir hvern VR félaga, greitt einu sinni.
- Styrkur fyrir ferðakostnaði til að sækja sérfræðiþjónustu læknis er 150.000 kr. á hverju almanaksári fyrir hvern VR félaga.
Gjafabréf Icelandair eru sem hér segir:
- Hver VR félagi getur keypt fjögur gjafabréf á ári. Hvert gjafabréf er niðurgreitt um 6.100 kr. en verðmæti þess er 30.000 kr.
Skattskylda styrkja - mikilvægt að hafa í huga
Ekki er greiddur tekjuskattur af styrkjum fyrir orlofsgistingu eða líkamsrækt (tekur einnig til endurhæfingar sem er sambærileg og íþróttaiðkun) upp að ákveðnu hámarki. Þá eru styrkir vegna starfstengds náms undanþegnir staðgreiðslu skatta en færa þarf kostnað til frádráttar á móti styrk á skattframtali. Aðrir styrkir eru skattlagðir með sambærilegum hætti og laun, tekjuskattur í þrepi 1, eða 31,49%, er dreginn af upphæð heildarstyrks og skilar VR þeirri upphæð til skattsins. Sjá nánar á vef ríkisskattstjóra.
Samanburður – VR varasjóður og hefðbundið styrkjakerfi
VR varasjóður | Hefðbundið styrkjakerfi | |
Hvernig færðu endurgreitt / styrk? | Þinn persónulegi sjóður, tekjutengdur | Umsókn um styrki, með hámarki fyrir hvern styrk |
Safna milli ára? | Já | Nei |
Fjöldi möguleika á styrk / greiðslu? | Mikill sveigjanleiki, um 40 möguleikar | 7 flokkar með um 12 styrkmöguleikum |
Hámarksupphæð? | Ekkert ákveðið hámark – bara upp að inneign | 120.000 kr. á ári, samtals (auk fæðingarstyrks) |
Sveigjanleiki? | Mikill | Takmarkaður við flokka |
Fæðingarstyrkur | Nei, hægt að sækja um launatap í fæðingarorlofi | Já, 100 þúsund krónur, greiddar einu sinni fyrir hvert barn |
Gjafabréf Icelandair? | Já | Nei, hægt að sækja um orlofsstyrk |
Styrkur fyrir leigu orlofshúsa VR? | Já | Nei |
Heildarkostnaður fyrir félagið á ársgrundvelli er áætlaður sá sami, hvor valkosturinn sem verður fyrir valinu. Á árinu 2024 greiddi VR 1.050 m.kr. inn í VR varasjóð. Heildarupphæð sem greidd var úr sjóðnum auk styrkja Sjúkrasjóðs og niðurgreiðslu gjafabréfa í flug nam um 980 m.kr. á árinu 2024.