
Tilkynningar
Kvennaverkfall 24. október 2025
Stundin er runnin upp!
50 árum síðar og baráttunni er ekki lokið. Tilkynningum um ofbeldi fjölgar, launamunur kynjanna eykst og það er misrétti í verkaskiptingu heima fyrir. Jafnrétti er ekki í augsýn.
Nú förum við í Kvennaverkfall. Við mætum og fáum innblástur frá konunum og kvárunum sem ruddu brautina. Göngum saman í gegnum áfanga í baráttusögu kvenna og kvára — og tökum svo höndum saman á útifundi á Arnarhóli í Reykjavík eða okkar heimabyggð.
Við ætlum að breyta samfélaginu saman. Fyrir okkur, fyrir konur og kvár, fyrir framtíðina. Ekkert fær okkur stöðvað.
Dagskráin verður tvíþætt; fyrri hlutinn er söguganga um áfanga í kvennabaráttunni og sá seinni er útifundur við Arnarhól.
Söguganga um merka áfanga í íslenskri kvennabaráttu
„Sko mömmu, hún hreinsaði til”
Baráttufólk fortíðarinnar hefur tekið til í jafnréttismálum ótal sinnum — en svo er alltaf draslað aftur til. Til að minnast þess að hálf öld er liðin frá fyrsta Kvennaverkfallinu, blása skipuleggjendur til sögugöngu, þar sem við sækjum innblástur í áfangasigra kvennabaráttunnar í áranna rás. Sögugangan hefst við Sóleyargötu kl. 14:00 og nær að Arnarhóli þar sem útifundur verður að sögugöngu lokinni.
Útifundur við Arnarhól
- Við mætum þar til við þurfum ekki að mæta lengur!
Við sameinumst við Arnarhól þar sem við tökum höndum saman í baráttunni fyrir því að stjórnvöld efni kröfur Kvennaárs. Tónlistaratriði, ræður og kvennakraftur — það jafnast ekkert á við að finna fyrir samstöðukrafti kvenna og kvára.