Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
Sjóvá Siggi og Katrín-crop.jpg

Almennar fréttir - 15.09.2016

Launamunur kynjanna óbreyttur milli ára

Frá janúar 2015 til apríl 2016 hækkuðu grunnlaun félagsmanna VR um 14,3% og heildarlaun þeirra um 15,8%. Þetta er meðal þess sem fram kemur í árlegri launakönnun meðal félagsmanna VR sem birt er í dag. Launahækkun VR félaga er í takt við breytingar á launavísitölu Hagstofu Íslands sem hækkaði um 14,5% á sama tíma og launavísitölu VR sem hækkaði um 15,5%.

10% lægri laun vegna kynferðis

Könnunin leiðir í ljós að launamunur kynjanna helst óbreyttur á milli ára. Konur eru að jafnaði með 14,2% lægri heildarlaun en karlar og kynbundinn launamunur, það er launamunur sem ekki er hægt að skýra með neinu öðru en kynferði, er 10% en var 9,9% í síðustu könnun. Ef litið er til grunnlauna eru konur með 12,2% lægri laun en karlar og þegar búið er að taka tillit til annarra þátta sem hafa áhrif á launin situr eftir 9,9% kynbundinn launamunur í grunnlaunum. Umtalsverður munur er á kynjunum hvað varðar hlunnindi eins og símakostnað, líkamsræktarstyrki eða gsm síma. Þannig fá 87% karla slík hlunnindi en 74% kvenna. Ef konur innan VR fengju sömu laun og karlar í félaginu jafngildir núverandi launamunur því að konur séu „launalausar“ í 36 daga í ár.

Þrátt fyrir harða baráttu hefur launamunur kynjanna lítið breyst undanfarin ár og þarf að fara mörg ár aftur í tímann til að sjá marktækan mun. Síðan 2009 hefur kynbundinn launamunur hins vegar verið í kringum 10%.

„Það eru vissulega vonbrigði að þrátt fyrir harða og áralanga baráttu félagsins fyrir jöfnum launum karla og kvenna skuli munurinn enn vera svona mikill,“ segir Ólafía B. Rafnsdóttir formaður VR. Hún segir vísbendingar um að launamunur kynjanna haldist í hendur við sveiflur í hagkerfinu, hann aukist í uppsveiflu en minnki í samdrætti. Þannig hafi dregið heldur úr launamuni strax eftir hrun en nú sé margt sem bendi til að hann sé aftur að aukast.

Mismiklar breytingar

Samkvæmt könnuninni voru heildarlaun félagsmanna VR að meðaltali 635 þúsund krónur á mánuði í apríl 2016 og höfðu hækkað um 15,8% frá því í janúar 2015. Grunnlaun voru hins vegar 589 þúsund krónur á mánuði að meðaltali og höfðu hækkað um 14,3% á sama tíma. Þeir launahæstu innan VR eru með 1.010 þúsund í heildarlaun á mánuði eða meira en þeir launalægstu eru með 340 þúsund krónur eða minna á mánuði. Þeir launahæstu hafa þannig þreföld laun á við þá launalægstu. 

Breytingar á launum einstakra starfsstétta voru nokkuð mismunandi á tímabilinu. Þegar litið er til yfirflokka starfsstétta innan VR kemur í ljós að heildarlaun starfsfólks við gæslu-, lager- og framleiðslustörf hækkuðu mest eða um 19,6% frá janúar 2015 til apríl 2016 og laun skrifstofufólks um 19,2% á sama tímabili. Mest hækkun grunnlauna var hins vegar hjá skrifstofufólki eða 17,1%.

Fordómar á vinnustað

Einn af hverjum fjórum félagsmönnum VR hefur orðið fyrir fordómum í vinnu einhvern tímann á ævinni og einn af hverjum tuttugu segja þetta hafa gerst síðustu 6 mánuði. Með launakönnun VR voru nokkrar spurningar um fjölbreytni og fordóma á vinnustað lagðar fyrir svarendur en VR hefur á síðustu mánuðum staðið fyrir auglýsingaherferð fyrir aukinni fjölbreytni á vinnumarkaði. Mikill meirihluti svarenda segist ekki hafa orðið var við fordóma á sínum vinnustað síðustu sex mánuðina áður en könnunin var gerð, en þar sem fordóma hefur orðið vart beinast þeir einkum gagnvart uppruna fólks (14%), trú (9%) og gagnvart konum (9%). Hátt í 80% svarenda telja að aukin fjölbreytni í starfsmannahópnum, í aldri, kyni, uppruna, kynhneigð, fötlun og trúarskoðun yrði jákvæð fyrir vinnustaðinn. Aðeins 1% telja að það yrði neikvætt en aðrir telja að það hefði engin áhrif. 

65% fara í starfsmanna- eða launaviðtal

Markmið launakannanna VR er að gefa félagsmönnum upplýsingar um launaþróun í mismunandi starfsgreinum, þannig að þeir geti skoðað eigin stöðu í samanburði við aðra. Þessar niðurstöður geta VR félagar síðan nýtt sér í ráðningarviðtölum eða árlegum launaviðtölum. Í könnuninni kemur fram að 65% svarenda fóru í starfsmanna- og/eða launaviðtal á síðasta ári en liðlega þriðjungur fór ekki. Þeir sem fóru í viðtal á síðasta ári eru að jafnaði með 5% hærri laun en þeir sem fóru ekki í viðtal.