Fyrirtæki ársins 2019

Könnun VR á Fyrirtæki ársins 2019 hefst í lok janúar.

Könnun VR á Fyrirtæki ársins 2019 hefst í lok janúar og stendur fram í miðjan mars. Könnunin snýst ekki aðeins um að velja fyrirtæki ársins, því hún er fyrst og fremst vettvangur fyrir starfsfólk að koma sínum skoðunum á framfæri við stjórnendur fyrirtækja, láta vita af því sem vel er gert og hvar má gera betur. 

Niðurstöðurnar gefa þannig stjórnendum mikilvægar upplýsingar um viðhorf innan fyrirtækisins. Þær eru mikilvægur mælikvarði á frammistöðu stjórnenda og eru vísbending um stöðu fyrirtækisins í samanburði við önnur fyrirtæki. Niðurstöðurnar gefa VR jafnframt upplýsingar um líðan félagsmanna sinna og viðhorf til margra ólíkra þátta á vinnumarkaði. 

Niðurstöður kynntar í maí

Þátttakendur í könnuninni taka afstöðu til alls níu lykilþátta í rekstri og starfsemi fyrirtækis síns, s.s. starfsanda, vinnuskilyrða, sjálfstæðis í starfi, sveigjanleika í vinnu og jafnrétti á vinnustaðnum svo nokkrir séu nefndir. Allar niðurstöður eru birtar á heimasíðu VR í maí og verður þá jafnframt tilkynnt hvaða fyrirtæki hafa orðið fyrir valinu sem Fyrirtæki ársins 2019. Sjá umfjöllun um niðurstöður ársins 2018.

Allir geta tekið þátt

Könnun VR á Fyrirtæki ársins 2019 verður send til allra félagsmanna VR. En til að gefa sem réttasta mynd af stöðu fyrirtækisins er mikilvægt að sem flestir starfsmenn hvers fyrirtækis taki þátt. Allir starfsmenn fyrirtækisins geta verið með – ekki aðeins félagar í VR. Stjórnendur geta óskað eftir því að allir starfsmenn fái senda könnun, óháð stéttarfélagsaðild og starfshlutfalli.

Hver er kostnaðurinn?

Fyrirtæki bera ekki kostnað vegna þátttöku starfsmanna sem eru félagsmenn í VR en greiða fyrir það starfsfólk sem er utan félagsins. Þá geta fyrirtæki keypt ítarlega greiningu á niðurstöðum fyrir sitt fyrirtæki. Slík sérgreining sýnir einnig samanburð við önnur fyrirtæki og fyrri mælingar. Ef vilji er til þess að allt starfsfólk taki þátt í könnuninni, vinsamlega sendið erindi þess efnis til Steinunnar Böðvarsdóttur, VR.

Valið úr fyrirtækjum sem bjóða öllum þátttöku

Valið á fyrirtæki ársins fer fram í þremur flokkum og eru fimm fyrirtæki valin í hverjum stærðarflokki. Alls fá því fimmtán fyrirtæki titilinn Fyrirtæki ársins 2019. Þrjátíu til viðbótar fá sérstaka viðurkenningu sem Fyrirmyndarfyrirtæki 2019. Eingöngu þau fyrirtæki þar sem allir starfsmenn hafa tækifæri til þátttöku koma til greina sem fyrirtæki ársins. Þannig standa öll fyrirtæki jöfn að vígi í valinu.

Viðurkenningar eru veittar í þessum flokkum:

Minni fyrirtæki
Færri en 30 starfsmenn

Meðalstór fyrirtæki
30 til 69 starfsmenn

Stærri fyrirtæki
70 starfsmenn eða fleiri

Lágmarksfjöldi svara er mismunandi eftir stærðarflokki, en er 7 svör í flokki minni fyrirtækja sem er breyting frá síðasta ári en þá var lágmarksfjöldi svara 5 svör.