Fyrirtæki ársins 2019

Árleg könnun VR á Fyrirtæki ársins 2019 er hafin og stendur fram í miðjan mars. Könnunin er eingöngu á rafrænu formi og hefur öllum félagsmönnum VR verið sendur spurningalisti í tölvupósti. Ef þú hefur ekki fengið könnun, láttu okkur vita á vr@vr.is. Launakönnun er ekki gerð samhliða könnun á Fyrirtæki ársins í ár, næst verður launakönnun gerð árið 2021. Við bendum félagsmönnum á launasamanburð á Mínum síðum. 

Könnun VR á Fyrirtæki ársins 2019 nær til alls um 35.000 starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Gallup sér um framkvæmd könnunarinnar og úrvinnslu niðurstaðna líkt og síðustu ár.

 

Hver er tilgangur könnunarinnar?

Tilgangur könnunarinnar er tvíþættur. Í fyrsta lagi að gefa starfsfólki tækifæri til að koma á framfæri til stjórnenda vinnustaða sinna hvað vel er gert og hvað megi gera betur, að þeirra mati. Í öðru lagi er tilgangurinn að veita fyrirtækjum sem standa vel að mannauðsmálum viðurkenningu og hvatningu til góðra verka, þ.e. að velja Fyrirtæki ársins.

Hvaða fyrirtæki taka þátt?

Allir félagsmenn VR fá senda könnun en fyrirtæki geta líka boðið öðru starfsfólki en VR félögum þátttöku. Þau fyrirtæki sem það gera senda lista til VR / Gallup yfir starfsfólk fyrirtækisins og netföng þeirra og/eða farsímanúmer. Vinnslusamningur er gerður milli fyrirtækisins og Gallup um nýtingu netfangalistans sem takmarkast alfarið við þessa könnun. Starfsfólk fær svo könnun senda í tölvupósti. Ef viðkomandi er ekki með skráð tölvupóstfang er slóð send á símanúmer viðkomandi, ef númerið hefur fylgt með listanum. Fyrirtæki geta tekið þátt með því að hafa samband við VR, vr@vr.is. Eina skilyrðið er að fjöldi starfsfólks sé að lágmarki sjö og einn eða fleiri starfsmenn séu í VR.

Hvernig er hægt að taka þátt og um hvað er spurt?

Í könnuninni er margþætt mat á innviðum vinnustaða. Spurt er um viðhorf til níu lykilþátta í starfsumhverfinu og gefin einkunn fyrir hvern þátt. Val á Fyrirtæki ársins byggir á heildarmati sem samsett er úr þessum níu þáttum. Hér má sjá ítarlegar upplýsingar um lykilþættina, þróun þeirra síðustu ár og spurningarnar sem liggja að baki hverjum þætti.
Könnuninni er alfarið svarað á netinu og er hægt að velja að svara henni á íslensku, ensku eða pólsku.

 

Viðurkenningar eru veittar í þessum flokkum:

Minni fyrirtæki
Færri en 30 starfsmenn

Meðalstór fyrirtæki
30 til 69 starfsmenn

Stærri fyrirtæki
70 starfsmenn eða fleiri

Lágmarksfjöldi svara er mismunandi eftir stærðarflokki, en er 7 svör í flokki minni fyrirtækja sem er breyting frá síðasta ári en þá var lágmarksfjöldi svara 5 svör. 

Fyrirtæki sem eru í fimmtán efstu sætunum í stærðarflokkunum frá titilinn Fyrirmyndarfyrirtæki og fimm efstu fyrirtækin í hverjum flokki fá svo hinn eftirsótta titil Fyrirtæki ársins.

Hvernig er trúnaðar gætt við svarendur?

Könnuninni er svarað á netþjóni á vegum Gallup og eru samskipti svarenda og netþjóns varin gegn því að aðrir geti skoðað þau (secure).

Eftirfarandi reglur gilda um framsetningu niðurstaðna til að tryggja trúnað við svarendur:

 • Að lágmarki liggja sjö svör eða fleiri að baki meðaltali fyrir minnstu fyrirtækin. Greining eftir bakgrunnsbreytum er aðeins gerð fyrir VR félaga í heild eða aðra stóra hópa, en aldrei einstök fyrirtæki.
 • Á meðan á könnuninni stendur er tenging milli netfangs og könnunar. Þessi tenging er nauðsynleg meðal annars til að geta sent þátttakendum áminningar og ítrekanir. Þegar gagnaöflun lýkur eru þessi tengsl rofin. Gagnaskráin sem notuð er til úrvinnslu inniheldur ekki persónuupplýsingar, eins og nafn eða netfang. Gerviauðkenni fylgir svörunum um tíma svo hægt sé að leiðrétta villur, ef einhverjar eru, en því er eytt innan 30 daga frá lokum framkvæmdar.
 • Útdráttur í happdrætti könnunarinnar er úr lista sem aðeins inniheldur nauðsynlegar upplýsingar til að geta dregið út vinningshafa. Sá listi inniheldur ekki neinar upplýsingar úr könnuninni eða aðrar óviðkomandi upplýsingar.

Hvernig er framsetning niðurstaðna?

Söfnun gagna tekur nokkrar vikur og lýkur í mars en að gagnasöfnun lokinni hefst úrvinnsla. Niðurstöður á öllum níu þáttunum sem mældir eru í könnuninni eru birtar á vef VR fyrir öll fyrirtæki sem ná lágmarksþátttöku, eða 35% svarhlutfalli.

Fyrirtækjum stendur til boða að kaupa skýrslu með sínum niðurstöðum. Í þeirri skýrslu er sýnd niðurstaða hvers þáttar fyrir fyrirtækið í heild og til samanburðar er sýnd niðurstaða fyrirtækja í sama stærðarflokki, meðaltal allra fyrirtækjanna. Í skýrslunni er aðeins sýnt meðaltal hverrar spurningar, en fyrirtæki getur þó óskað eftir tíðnidreifingu á spurningum og greiningu á innbyrðis tengslum spurninganna (fylgnigreiningu), ef fjöldi svara er nægur. Ekki eru birtar niðurstöður í þeirri skýrslu eftir bakgrunnsþáttum (aldri, kyni) eða deild innan fyrirtækisins.

Breyttar kröfur um lágmarksþátttöku

Vinsamlegast athugið að lágmarkskröfur fyrir birtingu niðurstaðna eru breyttar frá því í fyrra. Miðað er við að lágmarki 7 svör fyrir birtingu niðurstaðna fyrir einstök fyrirtæki (var 5 áður). Eftir sem áður er miðað við 35% svarhlutfall. Þá er stærðarflokkun fyrirtækja breytt í ár. Nú er miðað við eftirfarandi skiptingu:

 • Lítil fyrirtæki = færri en 30 starfsmenn
 • Meðalstór fyrirtæki = 30 til 69 starfsmenn
 • Stór fyrirtæki = 70 starfsmenn eða fleiri

Upplýsingar um kyn, aldur og fyrirtækið þar sem þú starfar fylgja með upplýsingum sem koma frá VR og fyrirtækinu. Greining á spurningunum eftir t.d. kyni og aldri aðeins gerð fyrir heildir, t.d. VR félaga í heild, eða aðra stóra hópa til að ekki sé hætta á að trúnaður sé rofinn við svarendur.

Af hverju á ég að taka þátt?

Góð þátttaka í könnuninni á Fyrirtæki ársins ýtir undir að stjórnendur taki niðurstöðurnar alvarlega og nýti þær til góðs á vinnustaðnum. Stjórnendur fjölmargra fyrirtækja hafa nýtt sér niðurstöðurnar til að bæta og styrkja stjórnun og aðbúnað starfsfólks.

Hvenær verður könnunin send út?

Gagnaöflun hefst í febrúar. Ef þú hefur ekki fengið senda könnun fyrir lok febrúar, biðjum við þig að hafa samband við Gallup á netfangið fyrirtaekiarsins@gallup.is

Ræð ég hvort ég tek þátt í könnuninni?

Þátttaka í könnunin er frjáls en góð þátttaka skiptir miklu máli. Eftir því sem fleiri svara, því öruggari erum við um að niðurstaðan endurspegli niðurstöðuna á þínum vinnustað.

Get ég sleppt því að svara einstökum spurningum?

Þú getur ávallt sleppt því að taka afstöðu til spurninga með því að merkja við „Vil ekki svara.“ Einnig getur þú merkt við „Á ekki við“ eða „Veit ekki“ ef þér finnst spurningin ekki eiga við þig eða ef þú veist ekki svarið.

Hvers vegna er spurt um starf og menntun?

Aðeins er spurt um þætti sem nauðsynlegir eru í ljósi tilgangs könnunarinnar. Upplýsingar eru greindar eftir ýmsum bakgrunnsupplýsingum sem geta haft áhrif á viðhorf til starfs og starfsumhverfis, svo sem starfsstétt og starfsaldri. Þá eru kyn og aldur einnig mikilvægar greiningarbreytur og eru þær upplýsingar lesnar inn í gögnin úr listanum. Eins og áður sagði eru greiningar eftir þessum breytum einungis gerðar fyrir stóra hópa, t.d. fyrirtæki almennt, aldrei þannig að hægt sé að greina svör einstakra svarenda.

Kostnaður fyrirtækja vegna þátttöku og skýrslugerðar

Þátttaka félagsmanna VR er án kostnaðar. Kostnaður fyrirtækis sem óskar eftir að allt starfsfólk taki þátt er tvennskonar; annars vegar fast gjald og hins vegar gjald fyrir þátttöku hvers og eins. Fastur kostnaður vinnustaðar er 56.900 kr. fyrir minnstu vinnustaðina (færri en 30 starfsmenn), 68.900 kr. fyrir millistóra vinnustaði (30 til 69 starfsmenn) og 79.900 kr. fyrir stærstu vinnustaðina (70 eða fleiri starfsmenn). Gjald fyrir þátttöku hvers starfsmanns sem fær könnunina senda rafrænt er að auki 330 krónur.

Vinnustöðum sem bjóða öllum starfsmönnun þátttöku, óháð stéttarfélagsaðild, gefst kostur á að kaupa ítarlega greiningu á niðurstöðum fyrir sinn vinnustað. Slík skýrsla kostar 99.900 kr. fyrir minnstu vinnustaðina, 129.900 kr. fyrir millistóra vinnustaði og 159.900 kr. fyrir stærstu vinnustaðina. Allar upphæðir eru án vsk. Gallup innheimtir þennan kostnað.

Framkvæmd könnunarinnar

Farið er með öll svör sem fullkomið trúnaðarmál. Þér er frjálst að sleppa því að svara einstaka spurningum, en við leggjum áherslu á að til að niðurstöðurnar nýtist sem best er mikilvægt að sem flestir taki afstöðu.

Ef þú vilt fá frekari upplýsingar um gagnaöflunina, varðveislu gagna eða úrvinnslu, er þér velkomið að hafa samband við undirrituð hjá Gallup: Völu Jónsdóttur (vala@gallup.is) eða Tómas Bjarnason (tomas@gallup.is)

Meðfylgjandi er slóð á persónuverndarstefnu Gallup:
https://www.gallup.is/skilmalar-og-stefnur/personuverndarstefna/

Þú getur dottið í lukkupottinn

Alls eru 22 happdrættisvinningar dregnir úr innsendum svörum. Fimmtán heppnir svarendur eru dregnir út strax, sem þýðir að þegar þú hefur lokið við að svara könnuninni færð þú að vita hvort þú ert ein(n) hinna heppnu.

Þessir vinningar eru:

 • Helgardvöl í orlofshúsi VR utan háannatíma (þrír vinningar)
 • Sex bíómiðar fyrir tvo
 • Sex leikhúsmiðar fyrir tvo.

Sjö stærri vinningar verða svo dregnir út þegar gagnaöflun lýkur.

 • Tvö gjafabréf frá Icelandair að andvirði 50 þúsund krónur hvort
 • Fimm miðar á Airwaves hátíðina.

Haft verður samband við vinningshafa. Vinningsnúmer eru einnig birt í apríl á vef VR, www.vr.is og í VR blaðinu.