Tékklisti fyrirtækjanna

Viðskilnaður starfsmanns við fyrirtæki þarf að vera með þeim hætti að starfsmaður minnist hans með ánægju. Þakka þarf starfsmanni fyrir samveruna, viðkynninguna og framlag hans til fyrirtækisins.

Oft er gott að hafa starfslokaviðtal þar sem farið er yfir viðhorf til starfsins, fyrirtækisins og starfsmaðurinn e.t.v. beðinn um að koma með ábendingar um hvað betur mætti fara.

Starfsmaður á rétt á því að vinna sín venjubundnu störf út uppsagnarfrestinn en þó er heimilt að semja um annað. Ef atvinnurekandi óskar ekki eftir vinnuframlagi starfsmannsins verður hann að greiða honum laun sem samsvara rétti til uppsagnarfrests.

Hafa ber í huga að skynsamlegt er að hafa fólk með í ráðum þar sem því líður betur ef það hefur sjálft fengið að hafa áhrif á það þegar það lýkur störfum. Reglan er sú að segja þarf fólki upp störfum vegna aldurs og miða skal við að starfsmaður hætti við næstu mánaðarmót eftir að hann nær 70 ára aldri. Þetta á sérstaklega við um opinbera starfsmenn en fyrirtæki á frjálsum markaði hafa frjálsari hendur og miða gjarnan við almanaksárið að sjálfsögðu í samráði við starfsmenn. Gæta þarf þess að uppsögn taki mið af lög- eða samningsbundnum uppsagnarfresti en margir eldri starfsmenn hafa lengri uppsagnarfrest en þrjá mánuði.

Atvinnurekanda ber að greiða áunnið ógreitt orlof og er það oftast gert í lok uppsagnarfrests. Við starfslok þarf atvinnurekandi einnig að greiða orlofs- og desemberuppbætur í samræmi við starfstíma og starfshlutfall á árinu og það er oftast nær gert um leið og önnur laun eru gerð upp eða á þeim tíma sem uppbætur eru vanalega greiddar út - en þetta getur verið mismunandi eftir kjarasamningum.

Mörg stærri fyrirtæki bjóða starfsmönnum sínum upp á starfslokanámskeið.

Oft auðvelda atvinnurekendur fólki starfslokin með aðlögun, minnkun starfshlutfalls, styttingu vinnutíma, lengra orlofi með launadreifingu eða á annan hátt. Reynslan sýnir að þeir starfsmenn sem undirbúa sig undir starfslok vel og eru jafnvel aðeins lengur í starfi en árin segja til um eru ánægðari með lífið.

Birt í 3 tbl. VR blaðsins 2021.