Kringlan Blur

Almennar fréttir - 16.11.2023

Áreitni og ofbeldi í starfi útbreitt vandamál

Yfir helmingur allra VR félaga hefur orðið fyrir áreitni eða ofbeldi í starfi á ferlinum, eða 54%. Hlutfallið er hærra hjá erlendu félagsfólki eða 60% og hæst meðal kvenna á aldrinum 25 til 34 ára, eða 67%. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem VR lét framkvæma meðal 30.000 félaga í september 2023.

Niðurstöður könnunarinnar eru sláandi og benda til þess að áreitni og ofbeldi í starfi sé útbreitt og alvarlegt vandamál á Íslandi.

Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) skilgreinir áreitni eða ofbeldi sem hvers kyns hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að valda sálrænum, líkamlegum, fjárhagslegum eða kynferðislegum skaða. Áreitni eða ofbeldi í starfi getur átt sér stað á vinnustað, í vinnuferðum eða starfstengdum viðburðum, í gegnum fjarskiptatækni vegna vinnu, eða á leið í og úr vinnu. Samkvæmt skilgreiningu ILO nær áreitni og ofbeldi í starfi yfir breitt svið og getur falist í öllu frá dónalegri framkomu eða særandi orðanotkun og yfir í alvarlegt líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi.

Könnun VR leiðir í ljós að það er talsvert stór hópur sem verður fyrir áreitni eða ofbeldi í starfi oft og reglulega. Um 18% VR félaga hafa orðið fyrir áreitni eða ofbeldi í starfi á síðastliðnum tólf mánuðum og helmingur þess hóps hefur orðið fyrir áreitni eða ofbeldi fjórum sinnum eða oftar á sama tímabili. Félagsfólk VR er 40.000 talsins og því má álykta að um 3.600 VR félagar hafa ítrekað (fjórum sinnum eða oftar) lent í áreitni eða ofbeldi í starfi á síðustu tólf mánuðum.

Hvers konar áreitni eða ofbeldi?

Algengasta birtingarmynd áreitni í starfi meðal VR félaga er af sálrænum toga. Fjórði hver VR félagi hefur fengið ósanngjarna gagnrýni á störf sín á síðastliðnum tólf mánuðum. Ósanngjörn gagnrýni getur til dæmis falist í heiftarlegri framkomu viðskiptavina eða stjórnenda gagnvart starfsfólki í tengslum við mál sem starfsfólkið ber alls ekki ábyrgð á. Á sama tímabili hafa 18% VR félaga orðið fyrir særandi eða niðurlægjandi hegðun fyrir framan aðra. Eineltismál tilheyra þessum flokki, svo dæmi sé tekið.

Niðurstöður könnunar VR sýna jafnframt að 8% VR félaga hafa orðið fyrir ógnandi hegðun eða hótunum í starfi á síðastliðnum 12 mánuðum, 6% hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni og tæplega 1% hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi. Þessar tölur eru ískyggilegar en mikilvægt er að hafa í huga þann fjölda sem stendur þeim að baki. Það að 1% VR félaga hafi orðið fyrir líkamlegu ofbeldi í starfi samsvarar til dæmis hundruðum atvika á ári.

Forvarnarstarf gríðarlega mikilvægt tól

Samkvæmt lögum ber fyrirtækjum að framkvæma svokallað sálfélagslegt áhættumat sem snýr meðal annars að því að greina áhættuþætti í vinnuumhverfinu sem tengjast skipulagi, stjórnun og samskiptum, stuðla að jákvæðri og uppbyggilegri vinnustaðamenningu og vera með viðbragðsáætlanir í tengslum við einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustað.

Í könnun VR var starfsfólk beðið um að svara þremur spurningum sem tengjast forvarnarmálum af þessu tagi. Spurt var hvort vinnustaður viðkomandi hefði skilgreinda áætlun um viðbrögð við áreitni eða ofbeldi í starfi, hvort áhættumat í tengslum við áreitni eða ofbeldi í starfi væri til staðar, og loks hvort starfsfólk myndi vita hvert það ætti að leita innan vinnustaðarins, yrði það fyrir áreitni eða ofbeldi í starfi. Í ljós kom að misvel er staðið að forvarnarmálum á vinnustöðum landsins. Fjórðungur svarenda sögðu að það væri ekki til áhættumat á sínum vinnustað og 21% að ekki væri til áætlun um viðbrögð við áreitni eða ofbeldi. Þá var stór hópur sem vissi ekki hvort slíkar áætlanir væru til staðar. Stór meirihluti svarenda vissi hvert ætti að leita í tilfelli áreitni eða ofbeldis í starfi, eða 80%.

Niðurstöður könnunar VR leiða jafnframt í ljós að forvarnarstarf af þessu tagi virðist skipta gríðarlegu máli. Starfsfólk á vinnustöðum þar sem forvarnarmálin eru í ólagi (s.s. þar sem vantar áhættumat og viðbragsáætlun) er miklu líklegra til þess að verða fyrir áreitni eða ofbeldi í starfi, miklu líklegra til þess að verða vitni að áreitni eða ofbeldi gagnvart samstarfsfélaga og miklu líklegra til þess að vera óánægt með viðbrögð vinnustaðarins, tilkynni það atvikið á annað borð.

Hvað getum við gert? Fjórar framkvæmanlegar aðgerðir

Alþjóðlegur samanburður sýnir að staðan á Íslandi í málefnum áreitni og ofbeldis í starfi er skárri en í mörgum nágrannaríkjum okkar. Í nýlegri könnun frá Bretlandi kemur til dæmis hrikaleg staða verslunarfólks þar í landi í ljós, en 90% þess hóps varð fyrir dónalegri, niðurlægjandi eða særandi orðanotkun (e. verbal abuse) árið 2020 og 11% varð fyrir líkamlegu ofbeldi. Þá kemur líka fram í könnun frá Finnlandi að 56% verslunarfólks þar í landi varð fyrir kynferðislegri áreitni í starfi (sjá nánar um alþjóðlegar kannanir hér).

Slíkur samanburður breytir því hins vegar ekki að staðan á Íslandi er grafalvarleg og óásættanleg. Eitt atvik er einu of mikið. En hvað er hægt að gera? Nauðsynlegt er að samfélagið leggist á eitt og að atvinnurekendur, stjórnvöld, stéttarfélög og almenningur geri allt sem í þeirra valdi stendur til þess að útrýma áreitni og ofbeldi á vinnustöðum landsins. Í tilefni af alþjóðlegum degi gegn ofbeldi í verslun og þjónustu sem er á morgun, 17. nóvember, skorar VR á viðeigandi aðila að ráðast í eftirfarandi aðgerðir sem geta dregið úr þessari samfélagsvá með skilvirkum hætti:

  1. Alþingi getur fullgilt ILO-190 samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunar (ILO) gegn ofbeldi og áreitni í starfi. ILO-190 var samþykkt á afmælisþingi ILO í júní 2019 og greiddi Ísland atkvæði með tillögunni. Samþykktin kveður á um lagasetningu hjá þeim ríkjum sem fullgilda hana og stefnumótun sem tryggir eftirlit og eftirfylgni með málaflokknum, rannsóknum á brotum á vettvangi vinnueftirlits, stuðning og úrræði fyrir þolendur, o.s.frv. Þá nær samþykktin sérstaklega til þolenda heimilisofbeldis en samkvæmt ILO-190 skal tryggja launafólki sem verður fyrir heimilisofbeldi leyfi frá störfum, sveigjanlegan vinnutíma, og tímabundna ráðningarvernd. ILO-190 bíður afgreiðslu Alþingis og VR skorar á stjórnvöld að fullgilda samþykktina eins og fljótt og hægt er.
  2. Atvinnurekendur geta séð til þess að forvarnarmál séu í lagi á sínum vinnustað með því að gangast við lögbundnum skyldum sínum og framkvæma sálfélagslegt áhættumat. Niðurstöður könnunar VR sýna að hægt sé að draga úr áhættu á áreitni og ofbeldi í starfi með slíkum aðgerðum og með því að skilgreina viðbragðsáætlanir og tryggja gott upplýsingaflæði um málaflokkinn til starfsfólks.
  3. Stéttarfélög eins og VR geta þrýst á stjórnvöld að fullgilda ILO-190, aðstoðað atvinnurekendur við að koma forvarnarmálum í lag og verið til staðar fyrir félagsfólk sem lendir í áreitni eða ofbeldi í starfi. VR ítrekar að félagsfólk getur alltaf leitað til félagsins og hvetur félagsfólk sem hefur orðið fyrir áreitni eða ofbeldi í starfi til þess að hafa samband við VR í síma 510 1700 eða í tölvupósti á netfangið vr@vr.is.
  4. Almenningur getur tekið það til sín að sýna starfsfólki virðingu, hvort sem það er á eigin vinnustað eða annars staðar. Þetta á sérstaklega við í jólavertíðinni sem er framundan þegar starfsfólk verslana er undir miklu álagi og þarf oft að þola óviðeigandi framkomu af hálfu viðskiptavina. Kurteisi kostar ekki neitt.

Nánar má lesa um niðurstöður könnunar VR á hér.