Raunfærnimat

Raunfærnimat er verkfæri til að leggja mat á reynsluna

Þeir sem hafa mikla reynslu á vinnumarkaði, en hafa ekki klárað formlegt nám, geta grætt mikið á því að fara í raunfærnimat. Mikil hefð er fyrir því að mæla virði starfsfólks eftir því hvaða námi það hefur lokið, en ekki eins mikil hefð fyrir því að meta reynslu. Það býr heilmikið virði í reynslunni og búið er að þróa aðferð við að meta hana á formlegan og trúverðugan hátt.

Spurðu þig t.d. að því hver eru verkefnin þín í vinnunni? Hvað þurftir þú að læra til þess að geta sinnt þeim? Í flestum störfum er það heill hellingur.

Raunfærnimat snýst um að einstaklingur segi og sýni fram á það sem hann kann til þess að vinna verkefnin í vinnu sinni. Matið er unnið með náms- og starfsráðgjafa, ásamt sérfræðingum í viðkomandi starfsgrein. Um er að ræða ferli sem hefst á því að einstaklingur gerir sjálfsmat, þar sem viðkomandi svarar spurningalista og metur hve vel hann kann og þekkir verkefnin í starfinu.

Til þess að hægt sé að framkvæma raunfærnimat þarf að vera til námskrá eða samþykkt hæfnigreining á starfi. Símenntunarmiðstöðvar eins og Mímir, Austurbrú, Fræðslunet Suðurlands, Viska, MSS og Símenntunarmiðstöð Vesturlands framkvæma raunfærnimat.