Dæmisögur

Hugræn byrði á mánudagsmorgni

Sigga:

Sigga og Bjarni vakna með tveimur börnum sínum klukkan 7:30. Fyrstu hugsanir Siggu að morgni eru þessar: það er bleikur dagur í leikskólanum, pollagallinn er niðri í þvottahúsi þurr síðan í gær, stígvélin gleymdust á leikskólanum, strákurinn á tíma hjá lækni klukkan 11 en á að vera í íþróttum þá svo hann þarf að koma heim klukkan 10 og verður að muna eftir lyklum. Sigga hugsar um að minna Bjarna á að koma heim til að sækja strákinn til að fara með hann til læknis. Sigga minnir Bjarna á hvenær einkenni byrjuðu hjá barninu og hvaða lyf barnið fékk í síðustu viku við því. Hún hugsar líka um að buxurnar sem dóttir þeirra fór í eru orðnar of litlar. Hún hugsar að hún þurfi að muna eftir að kaupa sparinesti fyrir morguninn eftir og að það er vatnsmelóna í ísskápnum sem dóttirin á að taka með á leikskólann því það er ávaxtaveisla.

Bjarni:

Bjarni undirbýr morgunmat fyrir fjölskylduna, minnir börnin á að bursta, pissa og þvo hendur og man eftir bleika deginum og læknistímanum. Bjarni ætlar að taka til bleiku fötin en finnur ekki peysuna, Sigga rifjar upp að hún var sett í skúffuna með útipeysunum. Bjarni fer með börnin í skóla og leikskóla og skýst síðan úr vinnu til að fara með strákinn til læknis. Á leiðinni til læknis hringir Bjarni í Siggu því hann finnur ekki staðinn. Sigga segir Bjarna að læknirinn hafi flutt síðan síðast, tekur fram að móttakan er fyrir aftan húsið og minnir á að spyrja út í hvaða verkjalyf er best að nota þegar hann fær eyrnabólgu og í hvaða skammti. Hún biður Bjarna um að skrifa þetta hjá sér svo það gleymist ekki.

Bjarni og Sigga eru að gera sitt besta til að skipta jafnt ábyrgðinni á milli sín, Bjarni stígur inn í aðra vaktina en Sigga ber hitann og þungan af þriðju vaktinni, hugrænu byrðinni.

Fjarverandi viðvera í barnaafmæli

Erla og Ólafur fóru í barnaafmæli til vinahjóna með Veru dóttur sinni. Þau setjast niður og við fyrstu sýn virðast þau bæði vera til staðar fyrir dóttur sína, á staðnum, enda hafa þau rætt um vaktirnar og hugrænu byrðina. En Ólafur tekur upp símann og skoðar samfélagsmiðla af því dóttir þeirra er hvort sem er að leika sér þarna nálægt og allt í lagi með hana. Hann dettur inn í símann og gleymir sér í 20 mínútur. Á meðan á því stendur hefur Vera beðið Erlu um: að gefa sér að drekka, að fylgja sér á klósettið, að þurrka munninn, að fara úr peysunni, að sækja snakk. Til viðbótar við það hefur Erla fylgst með Veru allan tímann sem hefur litið til mömmu sinnar þegar hún var í samskiptum við önnur börn, til að finna öryggi og fá samþykki. Erla hefur því verið á staðnum að veita barni þeirra öryggi, augnsamband og leiðsögn í samskiptum við önnur fjögurra ára börn. Erla sá þegar annað barn reif dót af Veru og greip inn í, hjálpaði þeim að skiptast á og leysa málin. Erla var á annarri og þriðju vaktinni. Ólafur mætti á aðra vaktina en var fjarverandi í viðveru sinni. Hann mætti í afmælið en var ekki til staðar.

Þriðja vaktin á miðjum aldri 

Dísa er 50 ára þriggja barna móðir. Börn hennar eru uppkomin og öll yfir tvítugu en búa enn heima hjá foreldrum sínum. Dísa er gift og á mann sem vinnur fulla vinnu utan heimilis. Dísa vinnur í fullu starfi sem móttökuritari, mætir klukkan 8 á morgnana og fer heim um 16/17. Í vinnunni hellir hún upp á kaffi þó það sé ekki í hennar starfslýsingu en hún hefur metnað fyrir því að það sé huggulegt á vinnustaðnum. Hún þurrkar líka af borðum fyrir kaffitímann klukkan 10 og kveikir á kertum í skammdeginu. Dísa heyrir í systur sinni í hádeginu sem hefur glímt við veikindi, kannar hvernig hún hefur það og spyr hvort hún eigi ekki að kíkja á hana um helgina.

Eftir fullan vinnudag hringir Dísa í foreldra sína sem eru um áttrætt. Þau búa ein í íbúð í öðru hverfi en hún og eru illa fær um að vera á ferðinni. Þau vilja þó síður fara á dvalarheimili og vilja ekki ræða þann möguleika. Dísa kannar hvað vantar í búið hjá þeim, fer í búðina og verslar í matinn fyrir þau. Hún fer heim til foreldra sinna með matinn og raðar honum í ísskápinn. Hún sest niður og fær sér kaffi því hún er eini félagsskapurinn sem foreldrar hennar hafa færi á að fá í dag. Dísa loftar út og tekur úr uppþvottavélinni heima hjá þeim. Hún setur í þvottavél og þurrkara fyrir þau auk þess að koma með hreinan þvott þeirra frá því fyrir tveimur dögum, sem hún hafði tekið með sér heim til sín til að þvo. Hún tekur eftir því að fjarstýring fyrir sjónvarpið virkar ekki hjá þeim og leggur á minnið að kaupa batterí áður en hún kemur næst.

Móðir Dísu biður hana um að fara í apótek áður en hún kemur næst því læknirinn ætlar að hringja í dag til að endurnýja lyfseðil hennar. Dísa játar því og setur það á listann í huganum. Hún rennur einnig yfir lyfin með móður sinni sem var ekki alveg viss um skammtana. Þá aðstoðar Dísa hana við að raða lyfjum fyrir hvern dag næstu tvær vikurnar niður í viðeigandi hólf í lyfjaboxi. Dísa hitar mat fyrir foreldra sína og kveður.

Dísa kemur heim til sín klukkan 19 þennan dag. Þá bíður hennar þvottur af börnum hennar heima og leirtau í vaskinum. Maður Dísu er enn í vinnu og börn hennar á íþróttaæfingu eða hjá vinum. Dísa græjar mat fyrir þrjú börn og mann sinn sem koma heim á milli kl 19 og 20. Dísa hefur lengi hugsað um að hana langi að hreyfa sig meira en eini tíminn sem hún hefur til að sinna því er snemma á morgnana eða seinnipartinn. Seinnipartarnir fara venjulega í að sinna foreldrum hennar eða uppkomnum börnum og huga að því sem þessir einstaklingar þurfa á að halda. Dísa stendur því þriðju vaktina auk þess að vera á fyrstu og annarri vakt. Dísa er á ólaunaðri annarri og þriðju vakt á meðan hún er í launaða starfi sínu á fyrstu vakt. Dísa er ofurþreytt eftir klukkan 20 og dormar á sófanum þar til hún skríður upp í og sofnar um 21.

Þetta er staða margra kvenna í dag og álagið hefur aukist vegna Covid-19 faraldursins þar sem eldri ættingjar urðu enn einangraðri og þurftu á meiri stuðningi að halda frá sínu fólki.