Almennar fréttir - 03.07.2025
Ferðaþjónustuátak í uppsveitum Suðurlands
Vinnustaðaeftirlit Alþýðusambands Íslands stóð fyrir átaki í ferðaþjónustu dagana 23.-25. júní og fór það fram á Geysi, Þingvöllum og Gullfossi. Að átakinu komu einnig lögreglan á Suðurlandi ásamt Vinnueftirlitinu og Skattinum og beindist það aðallega að ferðaþjónustufyrirtækjum.
Markmið átaksins var að skoða hvort ferðaþjónustufyrirtæki hefðu öll tilskilin leyfi og hvort lögum og reglum væri fylgt. Þá voru kaup og kjör leiðsögufólks, ökuleiðsögumanna og hópbílstjóra skoðuð og kannað hvort laun væru greidd eftir kjarasamningi. Átakið leiddi í ljós allnokkur tilvik þar sem ekki var farið að lögum og kjarasamningar ekki virtir.
Þónokkur erlend fyrirtæki á svæðinu voru án tilskilinna leyfa og þá þurftu nokkrir bílstjórar að gera ráðstafanir til að flytja farþega sína með öðrum hætti þar sem þeir höfðu ekki þar til bær réttindi til farþegaflutninga. Rætt var við nokkurn fjölda verktaka á svæðinu sem með réttu ættu að vera fastráðið starfsfólk fyrirtækja en hafði verið ýtt út í verktöku að frumkvæði atvinnurekanda. Með slíkum ráðstöfunum ná fyrirtæki að lækka launakostnað hjá sér en svíkja um leið starfsfólk sitt um kjarasamningsbundin réttindi þess. Í einhverjum tilfellum voru verktakar þessir merktir fyrirtækjunum og á bílum á þeirra vegum. Slík gerviverktaka er litin mjög alvarlegum augum. Þá voru dæmi um að fyrirtæki væru að gera svokallaða 0% samninga við starfsfólk en í slíkum tilfellum ræður fyrirtækið starfskraft inn í vinnu í engu starfshlutfalli og skal hann taka allar þær ferðir sem hann er skráður á. Ef mánuður kemur þar sem engar ferðir eru farnar fær hann ekkert greitt.
Ljóst er að víða er pottur brotinn í ferðaþjónustunni og ekki vanþörf á að herða eftirlit með greininni. Fleiri átaksverkefni eru fyrirhuguð á næstunni og hvetjum við leiðsögufólk og aðra til að senda okkur ábendingar á vef VR í gegnum ábendingahnapp Vinnustaðaeftirlitsins.
Þá bendum við leiðsögufólki á vef VR en þar er að finna greinargóðar upplýsingar um réttindi leiðsögufólks, ýmis kjarasamningsbundin ákvæði og verktakavinnu. VR stóð fyrir fyrirlestri með sérfræðingum frá Skattinum á dögunum og má nálgast glærurnar á vef VR.
Kolbrún Júlía Erlendsdóttir, formaður deildar VR á Suðurlandi og
Halldór Kolbeins, formaður deildar leiðsögufólks í VR
Greinin birtist fyrst í Dagskránni, miðvikudaginn 2. júlí 2025