Almennar fréttir - 21.11.2025
Formaður VR kynnti sér leikskólamál í Mosfellsbæ
VR hefur undanfarin ár barist gegn óhóflegum hækkunum á gjaldskrám leikskóla og lagt áherslu á að frekari byrðum sé ekki varpað á foreldra ungra barna. Halla Gunnarsdóttir, formaður VR, kynnti sér á dögunum leikskólamál í Mosfellsbæ, þar sem leikskólagjöld eru með þeim lægstu á landinu. Þar hefur engu að síður árangur náðst í að bæta starfsumhverfi leikskóla í samráði við foreldra.
Regína Ásvaldsdóttur bæjarstjóri og Þrúður Hjelm, leiðtogi í leikskólamálum, fóru yfir stöðu málaflokksins í sveitarfélaginu, sem er barnmargt og hefur stækkað ört. VR þakkar Regínu og Þrúði góðar móttökur.
„Nú eru að verða viðamiklar breytingar á leikskólum sem geta haft áhrif á bæði vinnumarkað og samfélagsgerðina. Mörg sveitarfélög hafa farið þá leið að reyna að stýra vistunartíma barna með aukinni gjaldtöku á foreldra þeirra. Þetta teljum við afar misráðið. Það var því áhugavert að sjá að Mosfellsbær hefur valið aðrar leiðir en engu að síður náð fram betrumbótum á starfsumhverfi. Við köllum eftir því að breytingar séu ætíð unnar í nánu samráði við foreldra og að hagsmunir þeirra séu teknir með í reikninginn í allri ákvarðanatöku,“ segir Halla Gunnarsdóttir, formaður VR.
Sjá nánari umfjallanir VR um leikskólamál
- Hvetjandi refsing Reykjavíkurborgar
- VR hafnar breytingartillögum um leikskóla í Reykjavík
- Stjórn VR gagnrýnir tillögur um breytingar á leikskólum höfuðborgarinnar
- Ræðum um leikskólamálin
- Kjaraskerðing fjölskyldufólks og afturför í jafnréttisbaráttunni - Ályktun stjórnar VR vegna breytinga í leikskólamálum í Kópavogi
- VR og AFL funda með Fjarðabyggð vegna hækkunar leikskólagjalda
- Tekjuskerðing foreldra ungra barna getur hlaupið á milljónum