Vr Halla Gunnars Net 2

Almennar fréttir - 14.08.2025

Háir stýrivextir byggja ekki hús

Í næstu viku mun Seðlabankinn greina frá ákvörðun sinni í vaxtamálum. Álitsgjafar stíga fram hver á fætur öðrum og segja lækkun stýrivaxta ómögulega, en sífellt fleiri verða líka til að benda á það sem VR hefur sagt um langa hríð: hávaxtastefnan veldur ómældum skaða og þarf að renna sitt skeið.  

Upphaflega fór verðbólgan af stað vegna óstjórnar í húsnæðismálum og verðhækkana innanlands annars vegar og vegna stríðsins í Úkraínu og truflana á aðfangakeðjum í COVID-faraldrinum hins vegar. Seðlabankinn hóf vaxtahækkunarferli sitt fyrir fjórum árum síðan eftir stutt tímabil lágra stýrivaxta. Í apríl 2023 voru þeir orðnir 7,5% og hækkuðu skarpt og stóðu í 9,25% í heilt ár. Lágvaxtatímabilið (2,5% og undir) varði skemur en það hávaxtatímabil sem hefur staðið núna í næstum þrjú ár.  

Heimatilbúinn vandi 

Á þessu hávaxtatímabili hefur launafólk tekið á sig ómældar byrðar á sama tíma og samið var um lágar launahækkanir í kjarasamningum. Húsnæðisvandinn hefur farið versnandi og nú er svo komið að íbúðum í byggingu fer umtalsvert fækkandi á meðan neyð fólks fer versnandi. Orsakirnar eru margþættar, en lykilþáttur er hár fjármagnskostnaður vegna vaxtastigsins, sem gerir byggingaraðilum erfitt fyrir að byggja og fólki erfitt fyrir að kaupa. Hátt vaxtastig og stíf lánaskilyrði útiloka stóra hópa ungs fólks og leigjenda frá því að geta komið sér öruggu þaki yfir höfuð. Það hefur aftur bein áhrif á húsnæðismarkað í heild sinni, eins og sést glögglega á spennu á leigumarkaði og öllum slitnu keðjunum í fasteignakaupum. 

Verðbólgan núna kemur ekki erlendis frá heldur er hún að mestu heimatilbúinn vandi. Háir stýrivextir byggja ekki hús, heldur einmitt hamla húsnæðisuppbyggingu og ýta undir viðvarandi verðbólguþrýsting. Háir stýrivextir stöðva heldur ekki gróðasókn fyrirtækja sem auka gróða sinn milli ára á tímum þar sem þau áttu að halda aftur af sér. Þeir hafa ekki stoppað sælgætisframleiðendur í að hækka verð á hlaupi með vísan til heimsmarkaðsverðs á kakói (!), þeir hafa ekki tryggt að styrking gengisins skili sér til neytenda á Íslandi og háir stýrivextir stöðva ekki  verðhækkanir á kjöti í boði samþjappaðra afurðastöðva. Á sama tíma bólar lítið á aðgerðum stjórnvalda í húsnæðismálum og sveitarfélögin hafa ekki staðið við loforð sem gefin voru í tengslum við kjarasamninga. 

Við lifum nú eitt lengsta samfellda verðbólgutímabil síðari ára. Þótt verðbólgan hafi lækkað frá undirritun kjarasamninga í mars 2024 þá má lítið út af bregða svo að hún verði yfir því 4,95% viðmiði sem kveðið er á um í forsendum kjarasamninga. Þetta viðmið var hátt og launafólk með húsnæðisskuldir eða á leigumarkaði hefur þurft að taka á sig gríðarlegar byrðar af bæði hækkandi verðlagi og aukinni vaxtabyrði.  En það tapa ekki allir á verðbólgu og háu vaxtastigi. Stór fyrirtæki eru að auka gróða sinn, fjármagnseigendur maka krókinn og gósentíð ríkir í bönkunum sem raka til sín fjármunum beint úr vösum almennings.  

Endurdreifing fjármagns upp á við heldur áfram.  

Seðlabanki í öngstræti 

Almennt þykir ekki til eftirbreytni að gera sama hlutinn aftur og aftur og vonast eftir annarri niðurstöðu. Seðlabankinn virðist staddur í öngstræti sinna eigin hugmynda. VR hefur ítrekað bent á að hin harkalega beiting stýrivaxtatækisins bítur ekki aðeins á vitlausum stöðum, hún er heldur ekki til þess fallin að ná markmiðum um lægri verðbólgu. Nú ríður því á að Seðlabankinn hugsi út fyrir kassann og horfist í augu við kerfislæga verðbólguhvata í íslensku efnahagslífi, sem eru húsnæðismarkaðurinn, ásamt gróðadrifnum verðhækkunum. Áframhaldandi hávaxtastefna mun að öðrum kosti auka á verðbólgu til lengra tíma með því að koma í veg fyrir nauðsynlega húsnæðisuppbyggingu.  

Það er ekki hægt að líta á húsnæði fólks sem leikvöll fyrir fjárfesta, þar sem hin sjálfsögðu réttindi til þess að eiga öruggt þak yfir höfuð eru háð sveiflum í fjármálalífinu. Fórnarkostnaðurinn heldur áfram að aukast, meðal annars í formi fátæktar, vaxandi stéttskiptingar og aukins ójöfnuðar milli kynslóða. Þess vegna bindum við í VR vonir við að Seðlabankinn hafi nýtt sumarið til að endurhugsa nálgun sína og að stjórnvöld fari að sýna á spilin í húsnæðismálum. Vextir verða að lækka, stjórnvöld þurfa að grípa til aðgerða og sveitarfélögunum ber að fjölga byggingarhæfum lóðum.  

Tími aðgerða er löngu runninn upp.  

Halla Gunnarsdóttir
Formaður VR

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. ágúst 2025