Halla Frettamynd Copy

Almennar fréttir - 09.09.2025

Hlaðvarp VR og konan sem „gerir ekki neitt“ 

Nú í haust eru liðin fimmtíu ár frá því að íslenskar konur lögðu niður bæði launuð og ólaunuð störf og kröfðust þess að vinnuframlag þeirra væri metið að verðleikum. Í bleikum ljóma sögunnar kann að líta út fyrir að þetta hafi verið einfalt átak og samstaðan alger. En eins og ótal frásagnir af þessum merka degi sýna fram þá krafðist undirbúningur kvennafrísins gríðarlegrar elju, þrautseigju og samningafærni. Fyrir tilstilli ótal kvenna skapaðist þessi víðtæka samstaða sem breytti íslensku samfélagi til framtíðar.  

Eitt af því sem konur gerðu var að útbúa einblöðung með svari við spurningunni „Hvers vegna kvennafrí?“ en það var vafalaust sú spurning sem þær þurftu oftast að svara. Á einblöðungnum, sem vistaður er hjá Kvennasögusafninu, segir meðal annars: 

-- Vegna þess að meðallaun kvenna við verslunar- og skrifstofustörf eru aðeins 73% af meðallaunum karla við sömu störf. 

-- Vegna þess að kynferði umsækjenda ræður oft meira um stöðuveitingu en menntun og hæfni.  

-- Vegna þess að algengt svar er, þegar spurt er um starf konu, sem gegnir húsmóðurstarfi „hún gerir ekki neitt – hún er bara heima“. 

Þótt mikið vatn hafi runnið til sjávar frá árinu 1975 þá myndi tæplega nokkur manneskja halda því fram að jafnrétti sé náð í íslensku samfélagi. Enn fremur er sífellt meira aðkallandi að líta á jafnréttismál út frá fleiri breytum. Til dæmis má ætla að hluti þeirra atriða sem upp eru talin í einblöðungnum frá 1975 eigi við um innflytjendur á Íslandi í dag, hvort sem það lýtur að launamuni eða því að fá ekki framgang í starfi.  

VR tekur þátt í kvennaári 2025 af fullum krafti! Um leið og við fögnum sigrunum tökum við stöðuna í samtímanum og horfum fram á veginn. Hvernig er að vera kona á íslenskum vinnumarkaði fimmtíu árum eftir kvennafríið? Í fimm hlaðvarpsþáttum veltum við þessu upp og tölum við konur sem starfa ólík störf. Við höfum þegar rætt við konur í verslun og í  skrifstofustörfum og framundan eru samtöl við konur sem starfa í vöruhúsum og ferðaþjónustu. Að lokum munum við horfa bæði til fortíðar og framtíðar með konum sem hafa verið kjörnar til starfa fyrir VR.  

Umræðurnar hafa verið mjög líflegar og hvergi er komið að tómum kofanum hjá félagskonum í VR. Við ræðum fjölbreytileika á vinnustað, þriðju vaktina og samræmingu við fjölskyldulíf, áreitni og ofbeldi, breytingaskeiðið, skrefafjölda í starfi verslunarkvenna og svo mætti lengi telja. Vel er hægt að sjá samsvörun í baráttumálum kvenna árið 1975 og stöðunnar í dag. Sem dæmi má nefna þá eru heimilisstörf enn vanmetin og konur bera þungann af ólaunaðri vinnu, sem í opinberum reikningum birtist sem „hún gerir ekki neitt, hún er bara heima“.  

Hægt er að nálgast hlaðvarp VR á öllum helstu hlaðvarpsveitum og á vef VR.  

Góðar stundir!  

Halla Gunnarsdóttir, 
formaður VR