Vefspjall VR
Vr Halla Gunnars Net 7 V2

Almennar fréttir - 13.11.2025

Hvað þarf til að stjórnvöld taki húsnæðismál alvarlega?  

Í lok þessa mánaðar er liðið eitt ár síðan Íslendingar gengu að kjörborðinu og völdu á milli nokkuð margra stjórnmálaflokka. Aðdragandinn var tiltölulega brattur og vafalaust eru uppi ýmsar ólíkar söguskoðanir um hvað olli falli fyrri ríkisstjórnar. Í mínum huga var ein meginástæða fyrir því að hún var ekki á vetur setjandi: húsnæðismál. Þau voru (og eru) í ólestri og það hefur áhrif á allt annað: efnahagsmál, ríkisfjármál, verðbólgu og vexti, afkomu fólks, fjárhagslegt öryggi, jöfnuð og fátækt og svo mætti lengi telja. Því var gott að sjá í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar að húsnæðisöryggi fólks skyldi sett í forgang með bæði bráðaaðgerðum og kerfisbreytingum.  

Síðan leið vetur og svo vor og svo haust.  

Stór pakki?  

Á haustdögum byrjuðu fulltrúar stjórnarmeirihlutans að kynda undir áhuga á boðuðum húsnæðis- og efnahagspakka stjórnvalda. Hann yrði „stór“ með efnahagsaðgerðum sem myndi muna um, já og „fela í sér tiltekt sem vinnur gegn þenslu, markvissari húsnæðisstuðning, meiri húsnæðisuppbyggingu með aukinni skilvirkni og fyrirsjáanleika,“ svo vitnað sé í orð forsætisráðherra.  

Væntingarnar fóru því vaxandi og þegar pakkinn loks leit dagsins ljós gætti jákvæðni í hans garð. En þegar hann var rýndur nánar dró talsvert úr jákvæðninni, enda langstærstu spurningunum ósvarað. Hvernig á að tryggja nægilega mikla og rétta uppbyggingu íbúðarhúsnæðis? Hver er langtímahugsunin og hverjar eru skammtímaaðgerðirnar sem geta létt róður fólks núna? Enn fremur er tilfinnanlegur skortur á útfærslum á mikilvægum atriðum, hvort sem er litið til uppbyggingar í Úlfarsárdal (þar sem gögnum ber ekki saman um hvort íbúðirnar verði 2000 eða 4000 eða eitthvað þar á milli) eða til nýs fyrirkomulags á nýtingu séreignarsparnaðar til niðurgreiðslu húsnæðislána. Enn fremur eru fjárframlög stjórnvalda til húsnæðismála að dragast saman á sama tíma og heimilin bera gríðarlegan kostnað af ólestri í húsnæðismálum, bæði í gegnum beinan húsnæðiskostnað og með hærra vöruverði á verðbólgutímum. Þannig hefur verðbólga án húsnæðisliðar sveiflast á milli 2,8% og 3,5% á árinu, sem er innan skekkjumarka Seðlabankans. Ef ekki væri fyrir húsnæðisvandann væri engin þörf á háum stýrivöxtum, sem aftur auka á vandann frekar en að milda hann.  

Vitlaust byggt og vitlaust gefið 

Húsnæðismál eru yfigripsmikill og flókinn málaflokkur og aðgerð á einu sviði getur haft áhrif á allt annað. Upplýsingaóreiða einkennir málaflokkinn, sem þó er á undanhaldi fyrir tilstilli vandaðrar vinnu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Það hlýtur að vera forgangsmál að koma okkur á stað þar sem við erum temmilega sammála um hver þörfin á uppbyggingu er. Ekki ríkir heldur sameiginlegur skilningur á aðkomu ríkis og sveitarfélaga að húsnæðismálum. Sveitarfélögin telja sig mörg hver vera að gera ágæta hluti í uppbyggingu en þegar allt er lagt saman er langt í land með að mæta þörfinni fyrir húsnæði á viðráðanlegu verði um allt land. Tilhneiging er til að þau sem bera ábyrgð á málaflokknum bendi hvert á annað; verktakar á borgina og borgin á verktakana, svo dæmi sé tekið. Þannig hefur enginn getað svaraði þeirri spurningu með skýrum hætti hvers vegna sé verið að byggja íbúðir sem ekki henta og hvað eigi að gera til að tryggja rétta uppbyggingu. Af hverju er vitlaust byggt og af hverju er svo vitlaust gefið að sumt fólk getur átt margar íbúðir en annað, jafnvel fullvinnandi fólk, getur ekki komið sér þaki yfir höfuðið? 

Þess vegna er ljóst að ríkið þarf að taka sér viðameira hlutverk þegar kemur að húsnæðismálum. Það þarf að hafa yfirsýn og jafnvel yfirstjórn. Sveitarfélögin virðast ekki ráða ein við innviðauppbygginguna og ekki er ásættanlegt að bíða og vonast eftir að slík uppbygging verði fjármögnuð af fjárfestum, sem getur skilað sér í mun meiri kostnaði fyrir almenning til lengri tíma litið.  

Vítahringinn verður að stöðva 

Þegar horft er til þess hversu gríðarleg áhrif húsnæðismál hafa á efnahagsmál, kjaramál og samfélagið í heild sinni sætir furðu hversu litla áherslu bæði núverandi og fyrri ríkisstjórn hafa lagt á málaflokkinn. Verkalýðshreyfingin hefur reynt ólíkar aðferðir til að fá stjórnvöld til að rísa undir ábyrgð sinni á húsnæðismálum, stundum með hvatningu, stundum með fordæmingum. Margt hefur verið vel gert og þá sérstaklega uppbygging almenna íbúðakerfisins. En á heildina litið eru aðgerðirnar alltaf moðvolgar, sem er óskiljanlegt. Á sama tíma hækkar húsnæðisverð svo mikið milli ára að fólk sem ekki fylgist með fasteignaauglýsingum eða fasteignamati reglulega missir allt verðskyn. Og kostnaðurinn? Hann er greiddur af vinnandi fólki um hver einustu mánaðamót. Húsnæðismálin viðhalda verðbólgunni og fyrir vikið er dýrara að fara út í búð. Þennan vítahring verður að stöðva og ekki seinna en núna strax.  

Halla Gunnarsdóttir, formaður VR

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. nóvember 2025