Almennar fréttir - 24.11.2025
Kallað eftir samráði við foreldra um leikskólamál
Formaður VR gagnrýnir harðlega samráðsleysi borgaryfirvalda þegar kemur að tillögum um breytingar á á umhverfi leikskólanna í borginni. VR fundaði með borgaryfirvöldum í morgun til að fylgja eftir athugasemdum sem VR hefur gert við þessar breytingar – vonbrigði sagði formaður VR að fundi loknum.
VR hefur ítrekað bent á að leikskólamál eru kjaramál og því óskiljanlegt að hagsmunir vinnandi foreldra séu ekki teknir með í reikninginn þegar gerðar eru umfangsmiklar breytingar á leikskólum. VR hefur barist gegn óhóflegum hækkunum sveitarfélaga á gjaldskrám leikskóla síðustu misseri og krafist þess að byrðunum sé ekki varpað á foreldra ungra barna.
Fulltrúar frá VR funduðu með fulltrúum meirihlutans í borgarstjórn ásamt embættismönnum málaflokksins til að ræða málin og kynna afstöðu félagsins. Halla Gunnarsdóttir, formaður VR, sagði fundinn hafa valdið sér vonbrigðum. „Það kom skýrt fram á fundinum að meginmarkmið borgarinnar er að stytta vistunartíma barna til að bregðast við styttingu vinnuviku starfsfólks leikskóla. Innan VR eru fimm þúsund vinnandi foreldrar leikskólabarna sem langflestir vinna lengri vinnudag en starfsfólk hins opinbera. Það gengur beinlínis í berhögg við skuldbindingar sveitarfélaga í tengslum við kjarasamninga að leggja auknar álögur á þessa foreldra og við munum berjast gegn því af fullum þunga.“
VR leggur áherslu á að hlustað sé á raddir foreldra og þeirra sem hagsmuna eigi að gæta. Stytting vinnuvikunnar á leikskólum geti ekki verið framkvæmd á kostnað foreldra. VR leggur til að tillögurnar verði dregnar til baka og unnar betur í samráði við foreldra og hagsmunasamtök þeirra.
Umsögn VR um mál nr. 11/2025 - umbætur í náms- og starfsumhverfi leikskóla
Sjá nánari umfjallanir VR um leikskólamál
- Formaður VR kynnti sér leikskólamál í Mosfellsbæ
- Hvetjandi refsing Reykjavíkurborgar
- VR hafnar breytingartillögum um leikskóla í Reykjavík
- Stjórn VR gagnrýnir tillögur um breytingar á leikskólum höfuðborgarinnar
- Ræðum um leikskólamálin
- Kjaraskerðing fjölskyldufólks og afturför í jafnréttisbaráttunni - Ályktun stjórnar VR vegna breytinga í leikskólamálum í Kópavogi
- VR og AFL funda með Fjarðabyggð vegna hækkunar leikskólagjalda
- Tekjuskerðing foreldra ungra barna getur hlaupið á milljónum