Vefspjall VR
Malstofa11

Almennar fréttir - 21.11.2025

„Lausnin liggur í jafnrétti“ – frá málstofu VR um lífeyrismál kvenna

Tekjur kvenna 67 ára og eldri eru að meðaltali 80% af tekjum karla á sama aldri. Munurinn er mestur meðal fólks með hæstu tekjurnar. Kynbundinn launamunur á vinnumarkaði eltir þannig konur, ævina á enda. Þetta er meðal þess sem kom fram í málstofu á vegum VR um lífeyrismál kvenna sem haldin var 20. nóvember.

Erindi á málstofunni fluttu Steinunn Bragadóttir, hagfræðingur hjá ASÍ, Hrafn Úlfarsson, sérfræðingur hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna og Steinunn Rögnvaldsdóttir, kynjafræðingur.

Í máli Steinunnar Bragadóttur kom fram að munurinn á tekjum kynjanna á efri árum er misjafn eftir aldri og tekjutíundum. Hér er um að ræða allar tekjur, ekki eingöngu lífeyristekjur. Í hópi þeirra sem hæstu tekjurnar hafa er munurinn mestur en þar eru tekjur kvenna sem hlutfall af tekjum karla aðeins 72%. Karlar eru að meðaltali með mun hærri atvinnutekjur og fjármagnstekjur en konur, eiga meiri séreignarsparnað og meiri réttindi í lífeyrissjóði sem taka mið af atvinnuþátttöku og launum yfir starfsævina. Þetta endurspeglast í stöðu kvenna. Sjá nánar hér.

Hrafn Úlfarsson benti á að munur á meðalfjárhæð lífeyris eftir kyni hafi dregist saman en sé enn umtalsverður, árið 2015 var munur á ellilífeyrir kvenna og karla hjá sjóðnum 47,6% en var 39,2% á síðasta ári. Nokkrar leiðir eru í boði til að jafna réttindi kynjanna á þessu sviði, sagði Hrafn, og benti í því samhengi á skiptingu réttinda mill hjóna eða sambúðarfólks, hvort sem er áunninna réttinda eða framtíðarréttinda. Það sé hins vegar margt sem ber að hafa í huga við slíka ákvörðun. Sjá nánar hér.

Steinunn Rögnvaldsdóttir, kynjafræðingur, fjallaði um lífeyrisréttindi og launagreiðslur út frá jafnréttissjónarmiðum og þeirri staðreynd að ólaunuð vinna kvenna hefur í för með sér skert lífeyrisréttindi til handa konum, enda ávinna þær sér ekki lífeyri með slíkri vinnu. Má þar nefna hvers konar umönnun, hvort sem það eru börn eða foreldrar eða aðrir ættingjar, en slík vinna lendir að mestu á herðum kvenna. Þá eru mæður lengur á skertum greiðslum Fæðingarorlofssjóðs og líkur á að þær vinn hlutastarf aukast með hverju barni. Mikilvægt er að jafna umönnunarbyrði og ólaunaða vinnu milli kynja, sagði Steinunn, lausnin liggur í jafnrétti.

Framsögufólk var í pallborði í lok fundar auk Höllu Gunnarsdóttur, formanns VR, en þar spunnust góðar og gagnlegar umræður. VR vill hvetja félagsfólk til að huga að lífeyrissréttindum sínum fyrr á starfsævinni en það gerir nú, og bendir á mikilvægi þess að konur standi vörð um fjárhagslegt sjálfstæði sitt.

VR þakkar fyrir góða mætingu á málstofuna en ljóst er að þörf er á áframhaldandi greiningu og rannsóknum á lífeyrisréttindum kvenna.