Almennar fréttir - 09.10.2025
Stjórn VR gagnrýnir tillögur um breytingar á leikskólum höfuðborgarinnar
Stjórn VR geldur varhug við tillögum Reykjavíkurborgar um breytingar á leikskólagjöldum sem er ætlað að stuðla að styttri vistunartíma barna. Með þessum tillögum fetar Reykjavíkurborg í fótspor Kópavogsbæjar og fleiri sveitarfélaga sem hafa lagt auknar byrðar á herðar fullvinnandi foreldra ungra barna.
Stjórn VR áréttar að leikskólamál eru kjaramál og aðgengi að leikskólum er grundvöllur þess að foreldrar geti sinnt launavinnu. Með verðstýringum og félagslegum þrýstingi er verið að þröngva foreldrum til að stytta vistunartíma barna sinna í þeim tilgangi að leysa fjármögnunarvanda sveitarfélaganna. Í stað þess að bæta starfsaðstæður á leikskólum, og nýta til þess reynslu þeirra leikskóla sem nú þegar eru framúrskarandi, er áskorunum leikskólastigsins velt yfir á foreldra.
Stjórn VR harmar þá neikvæðu umræðu um foreldra sem hefur sprottið upp í tengslum við breytingar á leikskólagjöldum og vistunartíma barna. Foreldrar ungra barna búa við gríðarlegan húsnæðiskostnað og hafa fæstir val um annað en að stunda fulla vinnu. Þeir þurfa stuðning og skilning frá samfélaginu, ekki fordæmingar.
Stjórn VR ítrekar að á almennum markaði, þar sem þorri launafólks vinnur, er vinnutími lengri en hjá hinu opinbera og ekki er hægt að vísa til vinnutímastyttingar hjá ríki og sveitarfélögum til að skerða þjónustu við allt barnafólk. Núgildandi kjarasamningar gilda í þrjú ár til viðbótar og því verður að óbreyttu ekki frekari almenn stytting vinnutíma næstu árin.
Stjórn VR áréttar þá kröfu sína að sveitarfélög leiti annarra leiða til að koma til móts við breytingar í umhverfi leikskóla en að varpa byrðunum á fullvinnandi foreldra og taka um leið skref aftur á bak í jafnréttismálum.
Reykjavík, 8. október 2025
Stjórn VR