Vefspjall VR
Vr Fanar Kringlan 2

Almennar fréttir - 11.09.2025

Stjórn VR mótmælir skerðingu atvinnuleysistrygginga  

Stjórn VR mótmælir harðlega áformum stjórnvalda um að skerða tímabil atvinnuleysistrygginga um heilt ár og lengja ávinnslutímabil réttinda, án samráðs við verkalýðshreyfinguna. Stjórnin tekur undir mikilvægi snemmtækrar íhlutunar og virkni fyrir fólk sem missir vinnuna en bendir á að þar er víða pottur brotinn. Stjórnvöld og Vinnumálastofnun þurfa að sýna viljann í verki áður en ráðist er í skerðingar á atvinnuleysistryggingum. Samanburður við önnur Norðurlönd er gagnslítill enda býr launafólk á á Norðurlöndum iðulega við mun meiri stöðugleika og réttindi en á Íslandi þar sem hagkerfið er sveiflukenndara. Ef horfa á til Norðurlandanna þarf að gera það heildstætt og innleiða norrænt velferðarkerfi vinnandi fólks í heild sinni.  

Stjórn VR telur viðamiklar breytingar á örorkulífeyriskerfinu jákvæðar en um leið er óboðlegt að réttindi launafólks séu skert til að greiða fyrir kerfisbreytingarnar. Stjórnin mótmælir því að fjármagn til atvinnuleysistrygginga sé skert og jöfnunarframlag til lífeyrissjóðanna vegna örorkubyrði afnumið á sama tíma. Stjórnin krefst þess að jöfnunarframlagið sé tryggt á meðan unnið er að framtíðarlausn á samspili örorkulífeyris almannatrygginga og lífeyrissjóða.  

Stjórn VR fagnar aðgerðum til að reisa skorður við skammtímaleigu og styrkja réttindi leigjenda, en lýsir að öðru leyti yfir áhyggjum af skorti á aðgerðum í húsnæðismálum. Húsnæði er allra stærsti kostnaðarliður langflests launafólks sem býr við einhverja hæstu húsnæðislánavexti innan OECD og lausbeislaðan leigumarkað. Stjórnin mótmælir einhliða niðurskurði á þeim stuðningi sem launafólk hefur þó notið en stjórnvöld hyggjast nú skerða húsnæðisbætur og barnabætur og afnema úrræði greiðslu séreignarsparnaðar inn á húsnæðislán, án þess að nokkuð komi í staðinn. Nærtækara væri að styrkja og útvíkka vaxtabótakerfið að nýju. 

Að lokum vill stjórn VR árétta að við undirritun síðustu kjarasamninga undirgengust stjórnvöld þær skuldbindingar að varpa ekki auknum kostnaði á launafólk í gegnum gjaldskrárhækkanir. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu á að hækka kostnaðarþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu, sem getur haft umtalsverðan kostnað í för með sér fyrir launafólk og er ekki í anda kjarasamninga. Stjórn VR lýsir jafnframt yfir almennum áhyggjum af því að aðhaldsaðgerðir ríkisstjórnarinnar geti leitt til niðurskurðar á mikilvægri þjónustu við almenning og skorts á nauðsynlegri opinberri fjárfestingu í innviðum. Þótt freistandi sé að spara aurinn núna má það ekki verða til þess að varpa auknum kostnaði á komandi kynslóðir og draga úr lífsgæðum þeirra.  

Stjórn VR
10. september 2025