Vefspjall VR
Kvennafri Frettamynd Copy2

Almennar fréttir - 17.10.2025

Stundin er runnin upp!

Við tökum höndum saman 24. október til að heiðra og fá innblástur frá baráttukonunum sem á undan okkur komu og til að krefjast raunverulegra breytinga til að uppræta kynbundið ofbeldi, launamun kynjanna og misrétti. Við ætlum að breyta samfélaginu saman. Fyrir okkur, fyrir konur og kvár, fyrir framtíðina. Við mætum þar til við þurfum ekki að mæta lengur. 

Konur og kvár sem geta, leggja niður launuð sem ólaunuð störf allan daginn, mæta ekki til vinnu, annast ekki börnin eða fjölskyldumeðlimi heldur fá karlkyns fjölskyldumeðlimi til að standa vaktina. Sleppa öllu sem gæti talist til starfa hvort sem er átt við launaða vinnu, eða ólaunaða líkt og umönnun barna, sinna heimilinu eða þriðju vaktina svokölluðu. Sjá hér spurt og svarað um kvennaverkfall. 

Við segjum konum og kvárum í kringum okkur frá því hvað stendur til og hvetjum þau til að taka þátt – sérstaklega þau sem eru af erlendum uppruna. Við hvetjum atvinnurekendur til að sýna starfsfólki þann stuðning í verki að gera konum og kvárum kleift að taka þátt í baráttunni fyrir jafnfrétti kynjanna með Kvennaverkfalli. 

Starfsemi vinnustaða er fjölbreytt og sums staðar þess eðlis að ekki er hægt að leggja alfarið niður störf þar sem það myndi stofna öryggi eða heilsu fólks í hættu. Við hvetjum ómissandi starfsfólk til þátttöku með t.d. sýnileika á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #kvennaverkfall og #ómissandi. 

Konur og kvár í Kvennaverkfalli þann 24. október á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni safnast saman í baráttuhug við Sóleyjargötu 1 þar sem söguganga hefst kl. 13:30 og þá hefst útifundur á Arnarhóli kl. 15. Boðað hefur verið til og í smíðum er fjöldi viðburða á deginum sjálfum og í aðdraganda hans um allt land. Frekari upplýsingar birtast jafnóðum á kvennaar.is. 

Kröfur kvenna

50 ár eru frá því konur hér á landi boðuðu fyrst til Kvennaverkfalls og þrátt fyrir áralanga baráttu er jafnrétti ekki í augsýn. Tilkynningum um kynbundið ofbeldi fjölgar, launamunur kynjanna eykst og það er misrétti í verkaskiptingu á heimilum.

Á útifundi Kvennaverkfallsins 2023 voru gerðar kröfur um breytingar sem framkvæmdastjórn Kvennaárs setti síðar fram í formi aðgerða sem grípa þarf til, afhenti stjórnvöldum og gaf þeim eitt ár, til 24. október 2025 til að hrinda í framkvæmd. Í þeim felst krafa um lagabreytingar, aðgerðir gegn ofbeldi, launamuni kynjanna, til að bæta stöðu mæðra og að útrýma mismunun á vinnumarkaði.

Nú er komið að skuldadögum en mælaborð framkvæmdastjórnar sýnir að lítið hefur gerst í þeim málum.

Kröfur um aðgerðir eru meðal annars:

  • Uppræta kynbundið ofbeldi
    40% kvenna hér á landi hafa orðið fyrir kynbundnu ofbeldi.
  • Leiðrétta vanmat á kvennastörfum
    Munur á atvinnutekjum kvenna og karla er um 20% og launamunur kynjanna er rúm 10% og eykst.
  • Lögfesta rétt barna til leikskólavistar að loknu fæðingarorlofi
    Konur bera enn meiri ábyrgð á umönnun barna, fjórðungur er í hlutastarfi og stór hluti hverfur af vinnumarkaði til að brúa bilið.
  • Tryggja fræðslu um jafnrétti og kynbundið ofbeldi á öllum skólastigum
    12% stúlkna í 10. bekk hafa orðið fyrir nauðgun af hálfu jafnaldra og helmingur fyrir stafrænu kynferðisofbeldi.