Vr Halla Gunnars Net 7 V2

Almennar fréttir - 04.08.2025

Takk fyrir fríið!

Frídagur verslunarmanna er í huga okkar VR-inga einn mesti hátíðisdagur ársins, en er um leið lokadagur helstu ferðahelgar sumarsins. Fólk fikrar sig heim af útihátíðum, úr sumarbústöðum og útilegum, oft örlítið lúið á líkama en andinn hefur fengið tilbreytinguna sem er okkur öllum svo nauðsynleg. Fjölskyldufólk sér fram á að rútínan fari smám saman að hrökkva aftur í gang og hjólin fara að snúast á nýjan leik á fjölmörgum vinnustöðum.

Við tökum því gjarnan sem gefnum hlut að fá frí og geta sótt okkur tilbreytingu, en þannig var það ekki alltaf. Þegar frídagur verslunarmanna var haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn árið 1894 var hann í raun fyrsti vísir að orlofi launafólks á Íslandi. Á þeim tíma átti vinnandi fólk ekkert sumarfrí og helgarfrí voru af skornum skammti. Eitt af helstu baráttumálum verkalýðshreyfingarinnar alla 20. öldina var að tryggja launafólki réttinn til að fara í frí og að fjölskyldur gætu líka upplifað tilbreytingu frá hversdeginum. Þannig urðu sumarbústaðir íslenskra stéttarfélaga til, löngu áður en reglulegar utanlandsferðir þóttu sjálfsagðar.  

Í dag á allt launafólk frídag verslunarmanna með verslunarfólki og reyndar er alltof margt verslunarfólk sem þarf að standa vaktina þennan dag, svo öfugsnúið sem það er. Störf í verslun eru ein af undirstöðum þjóðfélagsins, eins og glöggt kom í ljós í heimsfaraldrinum þegar verslunarfólk stóð í framlínunni ásamt öðrum mikilvægum stéttum. Fjölmargar verslanir bera virðingu fyrir þessum sögulega degi og starfsfólkinu sínu og hafa lokað á frídegi verslunarmanna. Svo á þó ekki við um allar verslanir og það er full ástæða til að hvetja fólk til að sleppa búðarferðum í dag og njóta heldur frídagsins með þakklæti fyrir þá baráttu sem var háð svo við getum öll fengið frí!  

Hvort sem þið eruð heima eða á ferðinni þá er kjörið að setja nýtt hlaðvarp VR í gang, en þar er einmitt rætt við þrjár konur sem hafa umtalsverða reynslu af verslunarstörfum. Við spjöllum við Guðrúnu Maríu Jóhannsdóttur, sem starfar í Húsasmiðjunni á Selfossi, Alexandríu Petrínu Arnarsdóttur, úr IKEA, og Guðnýju S. Bjarnadóttur, hjá Vero Moda, um verslun og líka svo margt annað. Hlaðvarpið er sett í loftið í tilefni af kvennaári og fleiri þættir eru væntanlegir.  

Njótum frísins, þekkjum söguna og mætum sameinuð í baráttuna fyrir réttindum og kjörum launafólks! Gleðilegan frídag verslunarmanna. 

Halla Gunnarsdóttir 
Formaður VR