Vefspjall VR
Vr Fanar 1

Almennar fréttir - 30.10.2025

VR hafnar breytingartillögum um leikskóla í Reykjavík

VR hafnar alfarið tillögum um breytingar á umhverfi leikskóla sem stýrihópur á vegum Reykjavíkurborgar hefur lagt fram og eru nú í samráðsferli. VR hefur fullan skilning á áskorunum sem leikskólar standa frammi fyrir en bendir á að breytingar á leikskólakerfinu geta haft víðtæk samfélagsleg áhrif. Þær verði að vera vel ígrundaðar og undirbyggðar bestu mögulegu gögnum og þekkingu. Börn og foreldrar ungra barna eigi það besta skilið og samfélag sem ekki býr vel að fólki á þeim viðkvæma tíma lífsins er brotið samfélag. 

Leikskólamál eru kjaramál og aðgengi að leikskólum er grundvöllur þess að foreldrar geti sinnt launavinnu. Með þeim miklu hækkunum sem þessar tillögur gera ráð fyrir er verið að þröngva foreldrum til að stytta vistunartíma barna sinna í stað þess að taka á undirliggjandi fjármögnunar- og skipulagsvanda sveitarfélaganna. Það er ótækt að varpa byrðunum á fullvinnandi foreldra ungra barna sem margir hverjir glíma við gríðarlegan húsnæðiskostnað og tekjuskerðingar í kjölfar fæðingarorlofs og umönnunarbils.  

Þá gerir VR athugasemdir við að umsagnaraðilar hafi ekki aðgang að gögnum sem liggja til grundvallar þessum tillögum, s.s. um mönnunarvanda leikskólanna, áhrif kjarasamninga og lagaumgjarðar á starfsemi leikskóla sem og áhrif aðgerða sem gripið hefur verið til síðustu ár eins og stytting vinnuvikunnar og aukins undirbúningstíma starfsfólks svo eitthvað sé nefnt.

VR hvetur Reykjavíkurborg og sveitarfélögin öll til að ráðast að rót vandans þegar kemur að umgjörð leikskólamála, frekar en að auka á álag, streitu og fjárhagslegt óöryggi foreldra ungra barna. 

Sjá hér umsögn VR.