Þegar Staðlaráð Íslands gaf út Jafnlaunastaðal ÍST 85:2012 í desember árið 2012 ákvað félagið að ríða á vaðið og hleypa strax af stokkunum Jafnlaunavottun VR sem byggði á og uppfyllti staðalinn.
Á þeim tíma var ekki í sjónmáli að nokkur annar aðili gæti brugðist svo skjótt við en félagið taldi nauðsynlegt að útkomu staðalsins yrði tafarlaust fylgt eftir með vottunarferli.

Í verkefnið fengum við með okkur vottunarfyrirtækið BSI á Íslandi sem sá um vottunarúttektir. Þótt VR og BSI á Íslandi hafi þannig verið brautryðjendur í notkun staðalsins hefur það verið stefna okkar hjá VR að félagið myndi afhenda boltann öðrum þegar komið væri á opinbert ferli við vottun samkvæmt staðlinum. Og nú hefur það gerst þannig að Fræðslusetrinu Starfsmennt hefur verið falið að halda utanum námskeið til að styðja við og auðvelda innleiðingu staðalsins hjá bæði fyrirtækjum og stofnunum. Eftir það má leita vottunar hjá vottunarstofu, sjá nánar hér.
Þess vegna hefur VR sagt upp samningi sínum við BSI á Íslandi og ákveðið að hætta að bjóða Jafnlaunavottun VR. Þau fjöldamörgu fyrirtæki sem gert hafa 3 ára samning við BSI á Íslandi undir merkjum Jafnlaunavottunar VR klára þann samning og að því loknu er aðilum frjálst að endurnýja samninginn við BSI á Íslandi undir heitinu BSI Jafnlaunavottun ÍST: 85:2012 eða að leita til annarrar faggiltrar vottunarstofu.
Við hjá VR erum mjög stolt af því að hafa gefið út Jafnlaunavottun VR og þannig hvatt fyrirtæki til að leggja sitt af mörkum til að leiðrétta launamun kynjanna í eitt skipti fyrir öll. Hagsmunir launamanna og atvinnurekenda fara saman í þessari baráttu - jafnréttismál eru kjaramál.
Við hvetjum alla sem áhuga hafa á málinu til þess að kynna sér nánar ferli vottunar og námskeiða hjá Fræðslusetrinu Starfsmennt, sjá nánar hér.