Hvað hefur VR gert?

VR leggur áherslu á að tryggja beri jafna stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði. Til þess að svo megi verða hefur VR m.a. lagt áherslu á að berjast gegn launamun kynjanna, að fjölga konum í ábyrgðar- og stjórnunarstörfum, að stuðla að jafnrétti og vellíðan á vinnustöðum, að efla menntun kvenna og jafna ábyrgð kynjanna á heimili og börnum. VR hlaut viðurkenningu Jafnréttisráðs árið 2001 en hún er veitt fyrir brautryðjendastarf á sviði jafnréttismála (sjá nánar). Árið 2005 var helgað baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna og var þá m.a. farið í herferðina Ekki láta útlitið blekkja þig.

Hér að neðan er yfirlit yfir það helsta sem VR hefur gert í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna á síðustu árum.

Launamunur kynjanna

Launamunur kynjanna er ein af helstu lykiltölum starfsemi VR og endurspeglar stöðu karla og kvenna í VR á vinnumarkaði. Félagið hefur á undanförnum árum birt á vef félagsins og í VR blaðinu tölur yfir þróun á launamun kynjanna skv. niðurstöðum launakannanna og eftir félagsgjöldum. Barátta VR á síðustu árum fyrir jafnri stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði hefur skilað þeim árangri að launamunur kynjanna innan VR hefur dregist marktækt saman eins og sjá má hér. Athugið að launakönnun var ekki gerð árið 2002.

 • VR greiddi fyrir nýjum fæðingarorlofslögum með því að tryggja félagsmönnum 80% laun í fæðingarorlofi frá því í apríl árið 1999 þar til ný lög tóku gildi í ársbyrjun 2001.
 • Í kjarasamningum árið 2000 var samið um markaðslaun. Þá var einnig samið um árlegt launaviðtal og hefur síðan reglulega verið lögð áhersla á mikilvægi þess í auglýsingum.
 • Árið 2000 samþykkti stjórn VR jafnréttisstefnu félagsins sem birt er á vefsíðu VR. Einnig var samþykkt jafnréttisstefna fyrir skrifstofu félagsins. Jafnréttisnefnd er starfandi hjá félaginu.
 • Samið var um styttingu vinnuvikunnar um 30 mínútur í kjarasamningum árið 2004 og var VR með auglýsingaherferð um málið. Auk þess beitti félagið sér fyrir sveigjanlegum vinnutíma í kjarasamningagerð og tók m.a. þátt í verkefninu Hið gullna jafnvægi sem Reykjavíkurborg og Gallup stóðu fyrir.
 • Þá hefur VR lagt áherslu á mikilvægi fjarvinnu sem hluta af sveigjanleika á vinnustað og hefur fjarvinna aukist jafnt og þétt hjá félagsmönnum, skv. niðurstöðum launakannanna.
 • VR hefur aukið veikindarétt úr Sjúkrasjóði vegna veikinda eða slysa barna félagsmanna úr 90 dögum í allt að 270 daga. Þetta hefur verið auglýst í blöðum og tímaritum.
 • Árlega eru gerðar launakannanir meðal félagsmanna VR og sérstaklega fjallað um stöðu kvenna og launamun kynjanna.
 • Þá stendur VR árlega fyrir könnun um fyrirtæki ársins þar sem lögð er áhersla á að kanna vellíðan á vinnustað. Árið 2005 var afstaða kynjanna til vinnustaða sinna og viðhorf til jafnréttismála sérstaklega kannað. Árið 2010 var þema launakönnunar og könnunar á fyrirtæki ársins jafnrétti á vinnustað og verkaskipting kynjanna innan veggja heimilisins.
 • Jafnlaunavottun VR var kynnt í febrúar 2013. Hún er markviss leið fyrir atvinnurekendur til að uppfylla kröfur nýs jafnlaunastaðals Staðlaráðs Íslands. Vottunin er tæki fyrir fyrirtæki og stofnanir til að meta stöðu kynjanna með viðurkenndri aðferðafræði og samræmdum viðmiðum. Ferlið gefur atvinnurekendum jafnframt tækifæri til að leiðrétta kynbundinn launamun, ef slíkur munur er til staðar.
 • Sjónvarps- og blaðaauglýsingar um launamun kynjanna hafa verið birtar reglulega allt frá árinu 1999 en það ár birti félagið auglýsingu til að hvetja konur til að meta vinnu sína að verðleikum og semja um hærri laun. Auglýsingin vakti mikla athygli og umræður í þjóðfélaginu.
 • Árið 2005 var þema félagsins jafnréttismál og var af því tilefni efnt til viðamikillar auglýsingaherferðar, Ekki láta útlitið blekkja þig, sem vakti þjóðarathygli.
 • Árið 2006 hleypti VR af stokkunum annarri herferð sem vakti mikla athygli en yfirskrift hennar var Dapurleg eftirmæli.
 • Á árinu 2011 stóð VR enn fyrir herferð um launamun kynjanna, Léttum álögunum, látum launamun kynjanna heyra sögunni til. Þetta var þriðja stóra herferðin um málefnið á síðustu árum og var m.a. boðið upp á sérstök námskeið um samningatækni.
 • VR hefur reglulega birt auglýsingar þar sem fjallað er um jafnrétti og áherslur sem tengjast málaflokknum þó ekki hafi verið um herferðir að ræða. M.a. hafa verið birtar auglýsingar í blöðum framhalds- og háskólana þar sem er fjallað um jafnrétti yngra fólks, auglýsingar hafa verið birtar um launamuninn, launaviðtalið, sveigjanleika, réttindi vegna veikinda barna o.m.fl.
 • VR hefur reglulega boðið félagsmönnum námskeið og fyrirlestra um hvernig á að semja um launin og er markmiðið að undirbúa fólk undir árlegt launaviðtal. Mikill meirihluti þátttakenda hefur verið konur.
 • Þá hefur VR einnig boðið félagsmönnum sínum reglulega ókeypis starfs- og námsráðgjöf en um 80% þeirra sem hafa nýtt sér það hafa verið konur.
 • Á árunum 2001 - 2003 stóð konum í félaginu til boða námskeiðið Konur til forystu. Þar var m.a. fjallað um starfsþróun og starfsframa, hlutverk stjórnenda, breytingar og markmiðasetningu. Einnig var í boði námskeiðið Tjáning og tækifæri og var það opið öllum konum innan VR. 
  Á síðustu árum hafa að auki fjölmargir aðrir fyrirlestrar og námskeið verið í boði sem hafa það markmið að styrkja stöðu kvenna og efla þær í starfi.
 • VR tók þátt í útgáfu á bæklingnum Lykillinn að velgengni í samvinnu við jafnréttisátak Háskóla Íslands, Jafnréttisstofu og fleiri. Bæklingurinn var ætlaður ungum konum sem voru að stíga sín fyrstu spor á vinnumarkaði en nýttist einnig þeim sem voru að hugsa sér til hreyfings eða sækjast eftir meiri ábyrgð í starfi.
 • Reglulega er fjallað um jafnréttismál, stöðu kynjanna á vinnumarkaði og annað í VR blaðinu.
 • Í samstarfi við FA (þá Samtök verslunarinnar-FÍS) var árið 1999 gefinn út bæklingur og veggspjald um kynferðislega áreitni sem dreift var á vinnustöðum. Trúnaðarmenn fengu sérstaka þjálfun um einelti og kynferðislega áreitni og hefur sú þjálfun verið hluti af trúnaðarmannanámskeiðum félagsins síðan.
 • VR stóð haustið 2000 fyrir ráðstefnu um einelti á vinnustöðum og gaf út bækling og veggspjald. Athygli var vakin á málefninu í auglýsingum og umræðum í fjölmiðlum. Starfsmenn kjaramáladeildar félagsins hafa verið þjálfaðir í að taka á slíkum málum. Félagið greiðir einnig sálfræðiaðstoð vegna slíkra mála sem upp koma ef talin er þörf á því.