Jafnréttisstefna VR

VR stefnir markvisst að jafnrétti á vinnumarkaði óháð aldri, kyni, kynhneigð, kynvitund, þjóðerni, litarafti, trú eða stjórnmálaskoðunum. Félagið vill að tryggt sé að 19. grein jafnréttislaga sé virt, þ.e. konum og körlum séu greidd jöfn laun og þau njóti sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Þá leggur félagið áherslu á að styrkja stöðu eldra fólks, fólks með fötlun og fólks af erlendum uppruna á vinnumarkaði.

I. Sömu laun fyrir sömu vinnu

1. Fyrirtæki greiði konum og körlum sömu laun fyrir sömu vinnu. Laun skulu endurspegla vinnuframlag, hæfni, menntun og færni viðkomandi starfsmanns svo og innihalds starfsins og þá ábyrgð sem því fylgir. Launakönnun VR er mikilvægt tæki við ákvörðun launa.
2. Konur geri sömu launakröfur og karlar.
3. Dagvinnulaun hækki og yfirvinna minnki.

II. Fjölgun kvenna í ábyrgðar- og stjórnunarstöðum

1. Fyrirtæki ráði konur í ábyrgðar- og stjórnunarstöður til jafns á við karla.
2. Konur sæki um ábyrgðar- og stjórnunarstöður.

III. Mikilvægi menntunar

1. Fyrirtæki efli fræðslu og tryggi að allir starfsmenn hafi jöfn tækifæri til endurmenntunar, starfsþjálfunar og námsleyfa.
2. Konur sæki sér í auknum mæli menntun til hefðbundinna karlastarfa og karlar til hefðbundinna kvennastarfa.
3. Eldra starfsfólk sæki sér starfstengda endurmenntun til að efla stöðu sína á vinnumarkaði.
4. Fólk af erlendum uppruna sæki sér menntun í íslensku til að auka hæfni sína í íslensku atvinnulífi.
5. Styrkja skal stöðu fólks af erlendum uppruna á vinnumarkaði og tryggja að menntun þeirra og reynsla verði viðurkennd.

IV. Jöfn ábyrgð á fjölskyldu og heimili

1. Karlar taki ábyrgð á fjölskyldu sinni og heimili til jafns á við konur, s.s. nýti sér rétt til fæðingarorlofs og leyfis vegna veikinda barna.
2. Starfsmönnum verði auðveldað að koma aftur til starfa eftir fæðingar- eða foreldraorlof eða leyfi úr vinnu vegna óviðráðanlegra og brýnna fjölskylduaðstæðna.
3. Samningar á vinnumarkaði kveði á um styttri og sveigjanlegri vinnutíma sem geri fólki kleift að samræma þarfir fjölskyldu sinnar og atvinnu.
4. Skipulag skólakerfisins verði lagað að þörfum fjölskyldu- og atvinnulífs.

V. Jöfn aðstaða á vinnumarkaði

1. Fyrirtæki móti skýra stefnu í samskiptamálum, s.s. aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni og öðru ofbeldi á vinnustað.
2. Gott aðgengi og aðbúnaður fatlaðra starfsmanna sé tryggður á vinnustöðum.
3. Starfsfólki verði auðvelduð starfslok, t.d. með möguleikum á hlutastörfum, lengra sumarleyfi og fræðslu um starfslok.

Jafnlaunavottun VR

Með Jafnlaunavottun VR gátu framsækin fyrirtæki látið fara fram faglega úttekt á því hvort innan þeirra veggja væri verið að greiða misjöfn laun fyrir jafnverðmæt störf. Vottunin fól í sér ítarlega úttekt á launum starfsfólks, starfaflokkun auk annarra þátta sem hafa áhrif á kjör karla og kvenna.

Öll fyrirtæki og stofnanir á íslenskum vinnumarkaði gátu sótt um Jafnlaunavottun VR, óháð stéttarfélagsaðild. Vottunin byggði á Jafnlaunastaðli Staðlaráðs Íslands.

Nú hefur VR hætt með jafnlaunavottunina en stefna okkar var að félagið myndi afhenda boltann öðrum þegar komið væri á opinbert ferli við vottun samkvæmt Jafnlaunastaðli Staðlaráðs Íslands.