Vefspjall
Hleður upp...

Val á stjórnarfólki VR í Lífeyrissjóð verzlunarmanna

Kjörtímabilið 2026–2030

VR auglýsir eftir stjórnarfólki í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna kjörtímabilið 2026 - 2030. Fulltrúaráð VR í Lífeyrissjóði verzlunarmanna skipar í stjórn lífeyrissjóðsins. Skipað verður í tvö stjórnarsæti og eitt til vara.  Áhugasöm geta gefið kost á sér með því að senda inn kynningarbréf með rökstuðningi, starfsferilsskrá og útfyllta trúnaðaryfirlýsingu fyrir klukkan 12:00 á hádegi miðvikudaginn 21. janúar 2026. Gögn skulu berast á umsokn@vr.is eða á skrifstofu VR merkt  „Umsókn LIVE“.  

Þau sem gefa kost á sér skulu: 

  • Vera launafólk sem greiðir skyldubundið lífeyrisiðgjald til Lífeyrissjóðs verzlunar­manna, æskilegt er að þau séu félagsfólk í VR. Eldra félagsfólk eins og það er skilgreint í 3. gr. laga VR sem fá greiddan lífeyri frá Lífeyrissjóði verzlunar­manna geta einnig verið umsækjendur.  
  • Búa yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu til að geta gegnt stjórnar­störfum á tilhlýðilegan hátt skv. 6. gr. reglna um framkvæmd hæfismats framkvæmda­stjóra og stjórnarmanna  lifeyrissjóða nr. 180/2013.  
  • Uppfylla skilyrði 31. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyris­réttinda og starfsemi lífeyrissjóða um fjárhagslegt sjálfstæði, gott orðspor o.fl. Auk þess þurfa þau að gangast undir munnlegt hæfismat hjá FME sbr. 16. gr. ­reglna nr. 180/2013. 
  • Hafa metnað fyrir hönd LIVE og getu og tíma til að sinna starfi stjórnarmanns.

Athugið að einyrkjar og sjálfstætt starfandi atvinnurekendur geta ekki sótt um.   

Helstu verkefni stjórnarfólks:  

  • Taka þátt í að móta stefnu sjóðsins til skemmri og lengri tíma.  
  • Tryggja að ákvarðanataka byggi á hagsmunum sjóðsfélaga og að gætt sé jafnræðis meðal sjóðsfélaga. 
  • Hafa eftirlit með að starfsemi sjóðsins uppfylli lög, reglur og innri reglur sjóðsins og viðhafa góða stjórnarhætti.
  • Hafa eftirlit með að stefnum sjóðsins sé fylgt, tryggja ábyrga umsýslu eigna og virkt innra eftirlitskerfi. 
  • Vera tengiliður við fulltrúaráð VR.  

Stjórn LIVE fundar að jafnaði einu sinni í mánuði á dagvinnutíma og fundir standa í 3–4 klst. Ætla má a.m.k. hálfan dag í undirbúning fyrir stjórnarfundi. Stjórnarfólk tekur einnig þátt í stefnumótunarfundum, fræðsludögum, aukastjórnarfundum og aðalfundi og fulltrúaráðsfundum LIVE.  

Hæfniskröfur 
 
Umsækjandi þarf að uppfylla kröfur um hæfi skv. lögum og reglum Fjármálaeftirlits Seðlabankans og vera reiðubúinn að gangast undir próf eftirlitsins.  

  • Menntun og reynsla sem kemur að gagni varðandi lífeyrismál
  • Góð þekking á lögum og reglum varðandi lífeyrissjóði, kjarasamninga, fjárfestingar, reikningshald og rekstur.
  • Félagslegur skilningur og þekking á efnahagsmálum og vinnumarkaði  
  • Reynsla af áætlanagerð, ársreikningum og reikningshaldi.  
  • Þekking á fjármálamörkuðum, helstu fjármálaafurðum og áhættumati.  
  • Reynsla af félagsstörfum og stjórnunarstörfum er æskileg.  
  • Greiningarhæfni og geta til að taka sjálfstæðar ákvarðanir.  
  • Færni í bæði íslensku og ensku.  

Kjör og kjörtímabil

Valið fer þannig fram að uppstillinganefnd fer yfir umsóknir og gerir tillögu að stjórnarmönnum til fulltrúráðs VR í Lífeyrissjóði verzlunarmanna sem kýs tvo stjórnarmenn og einn varamann. Uppstillinganefnd skal hafa það að markmiði að stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna á hverjum tíma sé þannig samsett að hún búi yfir fjölbreyttri þekkingu og reynslu sem nýtist sjóðnum við stefnumótun og eftirlit í því umhverfi sem hann starfar.

Stjórnarlaun

Stjórnarlaun í Lífeyrissjóði verzlunarmanna eru ákveðin á ársfundi sjóðsins. Í dag eru laun stjórnarmanns 240.153 kr. á mánuði, stjórnarformaður fær tvöföld stjórnarlaun og varaformaður fær ein og hálfföld stjórnarlaun.

Umsóknir

Með því að auglýsa eftir umsóknum, eins og hér er gert, er jafnræðis gætt þannig að allir sem telja sig hafa hæfi til að sitja sem stjórnarmenn eiga kost á að lýsa yfir áhuga sínum með því að skila inn umsókn. Með umsókn þarf að fylgja starfsferilsskrá og kynningarbréf þar sem umsækjandi rökstyður umsóknina. Einnig þarf að fylla út sérstakt eyðublað trúnaðaryfirlýsingar og láta fylgja með umsókn en þar kemur fram að umsækjandi þurfi að uppfylla kröfur um hæfi skv. lögum og reglum Fjármálaeftirlits Seðlabankans.

Nánari upplýsingar eru veittar á netfanginu umsokn@vr.is