02. nóv.
09:00-10:30
Fyrirlesari

Andrea Sigrún Hjálmsdóttir og Valgerður S. Bjarnadóttir

Andrea Valgerdur Saman

Námskeið

Rafrænt námskeið - Þriðja vaktin

Leiðbeinendur: Andrea Sigrún Hjálmsdóttir, lektor við Hug- og félagsvísindasvið HA og Valgerður S. Bjarnadóttir, nýdoktor við Háskóla Íslands.

Á námskeiðinu verður sjónum beint að hinni svokölluðu „þriðju vakt“. Þar er átt við þau verkefni sem unnin eru inni á heimilum og ekki er auðvelt að útvista. Þetta er vinna sem nauðsynlegt er að sinna svo heimilislíf gangi upp frá degi til dags og bætist ofan á launuð störf á vinnumarkaði og hefðbundin heimilisverk. Þriðja vaktin felur þannig í sér ósýnilega vinnu sem er gjarnan krefjandi og tímafrek, og kristallast í þeirri tilfinningavinnu og hugrænu byrði sem rannsóknir hafa sýnt að falli í meiri mæli á konur. Farið verður yfir kenningar og rannsóknir um þriðju vaktina, meðal annars rannsókn Valgerðar og Andreu á lífi mæðra í fyrstu bylgju kórónuveirufaraldursins. Boðið verður upp á umræður að erindi loknu.

Valgerður er nýdoktor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi frá Menntavísindasviði árið 2019 og meistaraprófi í alþjóðamenntunarfræðum frá Stokkhólmsháskóla. Rannsóknir hennar hafa einkum beinst að menntakerfinu, framhaldsskólum og háskólum, félagslegu réttlæti og jafnrétti. Andrea er lektor við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri. Hún lauk meistaragráðu í félagsfræði frá University of British Columbia í Kanada og stundar nú doktorsnám í félagsfræði við Háskóla Íslands. Rannsóknir hennar hafa einkum beinst að jafnrétti kynjanna, verkaskiptingu á heimilum og viðhorfum til kynjajafnréttis.

Námskeiðið verður haldið rafrænt á Teams, er gagnvirkt og þess vegna einungis aðgengilegt á auglýstum tíma. Hlekkur á námskeiðið er sendur við skráningu á það netfang sem félagsmaður er með skráð hjá VR. Daginn fyrir námskeiðið verður sendur tölvupóstur til áminningar.