Nýir kjarasamningar 2019

Skrifað hefur verið undir kjarasamninga VR við Samtök atvinnulífsins og Félag atvinnurekenda sem fela í sér nýja nálgun til bættra lífskjara. Áhersla á kjarabætur til þeirra sem hafa lægstu launin er rauði þráðurinn í samningnum en um það er almenn sátt í samfélaginu.

Kjarasamningur VR við SA var samþykktur með 88,35% atkvæða og kjarasamningur VR við FA var samþykktur með  88,47% atkvæða.

Rafræn atkvæðagreiðsla um kjarasamningana fór fram á vef VR dagana 11.- 15. apríl sl. 

Nýir kjarasamningar

Samið var um krónutöluhækkanir eins og lagt var upp með í upphafi samningaviðræðna en auk þess eru launahækkanir að hluta tengdar þróun hagvaxtar og er gert ráð fyrir árlegri endurskoðun taxtalauna í ljósi launaþróunar á almennum vinnumarkaði. Þá er vinnuvikan stytt, en það var eitt helsta áherslumál VR í samningaviðræðunum, og sveigjanleiki aukinn. Eitt meginmarkmið samningsins er að stuðla að vaxtalækkun sem eykur ráðstöfunartekjur heimilanna. Gildistími samningsins er frá 1. apríl 2019 til 1. nóvember 2022.