Almennar fréttir - 28.04.2022

1. maí 2022

VR hvetur allt félagsfólk til þess að fjölmenna í kröfugöngur og á útifundi sem verða haldnir í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins þann 1. maí næstkomandi.

Fjölskylduhlaup VR á Klambratúni

Í Reykjavík verður hitað upp fyrir kröfugöngu með léttu skemmtiskokki og hátíðardagskrá fyrir alla fjölskylduna. Jónsi í Svörtum fötum stýrir dagskránni sem hefst kl. 11:30. Jónsi og leikhópurinn Lotta hita mannskapinn upp fyrir Fjölskylduhlaupið en hlaupið er 1,5 km leið í kringum Klambratún. Þátttaka er ókeypis og fá allir þátttakendur í fjölskylduhlaupinu verðlaunapening. Reykjavíkurdætur og Lalli töframaður kíkja við og verður boðið upp á grillaðar pylsur, bulsur, gos og safa.

Verkalýðskaffi og kröfuganga í Reykjavík

Í Reykjavík verður safnast saman fyrir kröfugönguna á Hlemmi kl. 13:00 og leggur gangan af stað kl. 13:30. VR verður með sitt árlega verkalýðskaffi fyrir félagsfólk í anddyri Laugardalshallar kl. 14:30 að loknum útifundi á Ingólfstorgi. 

Sjá viðburð á Facebook hér.

Hátíðardagskrá á Akranesi 

Safnast verður saman við skrifstofu VLFA að Þjóðbraut 1 kl. 14 og genginn hringur að bæjarskrifstofum Akraness. Hátíðardagskrá verður haldinn í sal eldri borgara að göngu lokinni. Sjá nánari dagskrá hér.

Opið hús hjá stéttarfélögunum í Reykjanesbæ

Stéttarfélögin í Reykjanesbæ bjóða félagsfólki og öðrum íbúum svæðisins á skrifstofur félaganna í Krossmóa 4, 4. hæð milli klukkan 14 og 16. Sjá nánari dagskrá hér.

Kröfuganga á Selfossi

Kröfuganga fer frá Austurvegi 56 kl. 11:00 við undirleik Lúðrasveitar Selfoss en gengið verður að hótel Selfossi þar sem skemmtun fer fram. Sjá nánari dagskrá hér.

Hátíðardagskrá í Vestmannaeyjum

1. maí verður haldinn hátíðlegur í AKÓGES, Hilmisgötu 15, og opnar húsið kl. 14:00. Flutt verður 1. maí ávarp og skólahljómsveit Vestur- og Miðbæjar ásamt Skólalúðrasveit Vestmannaeyja sjá um tónlistaratriðin.