Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
1.jpg

Almennar fréttir - 08.03.2018

52% kvenna í VR hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi

VR stóð fyrir rafrænni könnun meðal úrtaks úr félagaskrá VR dagana 15. desember 2017 til og með 11. janúar 2018. 

Niðurstöður könnunarinnar sýna að rúmlega önnur hver kona í VR hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi einhvern tíma á sínum starfsferli og rúmlega fimmtungur karla. Hlutfallið er hæst meðal fólks á þrítugs- og fertugsaldri, 63% kvenna á aldrinum 25 til 34 ára hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi á einhverjum tímapunkti og 28% karla.

Niðurstöður könnunarinnar sýna að 9% félagsmanna VR höfðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað á 12 mánaða tímabili í aðdraganda könnunarinnar. Þetta hlutfall er hærra en mældist í könnun Gallup meðal launafólks á vinnumarkaði í nóvember 2017 en þá sögðust 5% hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á umliðnum tólf mánuðum.

Hlutfallið er 11% meðal kvenna en 6% meðal karla. Svarmöguleikar voru „já“ og „já líklega“ annars vegar sem samanlagt mynda svarið „já“ og „nei„ og „nei, líklega ekki“ hins vegar sem samanlagt mynda svarið „nei“.

Kynferðisleg áreitni á starfsferlinum = 39%
Þegar spurt var hvort svarendur hafi á einhverjum tímapunkti orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi sögðust 39% svarenda hafa einhvern tímann orðið fyrir slíkri áreitni. Könnun Gallup frá því í nóvember 2017 sýnir mun lægri tölu, 27% launafólks sögðust hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á starfsævinni.
Mestur er munurinn þegar svör kynjanna eru skoðuð eftir aldri – 63% kvenna á aldrinum 25 til 34 ára hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi en 28% karla á sama aldri. Mikilvægt er að hafa í huga að hér er verið að spyrja um reynslu viðkomandi á starfsævinni fram til dagsins í dag, meira en áratugur var liðinn frá áreitni hjá 15% svarenda og fjögur til tíu ár hjá 13% svarenda.

Í könnuninni var spurt hvort viðkomandi hefði orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða orðið vitni að kynferðislegri áreitni á vinnustað sínum. Þá var spurt um birtingarmyndir áreitni sem geta verið margvíslegar. Einnig var spurt hvort áætlun um viðbrögð við einelti og kynferðislegri áreitni væri til á vinnustaðnum og hvort fólk vissi hvert það ætti að leita innan vinnustaðarins ef það yrði fyrir áreitni.

Ítarlegri niðurstöður er að finna á vef VR.