Almennar fréttir - 03.05.2021

Atvinnuleitendur hjóla í vinnuna

Atvinnuleitendur geta nú tekið þátt í átakinu „Hjólað í vinnuna“. Atvinnuleitandinn Sólmundur Már Jónsson hefur hrundið af stað verkefninu „Atvinnuleitendur hjóla í vinnuna“ þar sem atvinnuleitendur hvar sem er á landinu geta tekið þátt og verið saman í hóp. Vinnumálastofnun hefur samþykkt að lána nafn sitt í verkefnið og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur samþykkt þátttökuna.

Hugmyndin er sú að atvinnuleitendur og þátttakendur í verkefninu hefji vinnudag sinn með því að hjóla, ganga, hlaupa eða hreyfa sig í að minnsta kosti 10-15 mínútur. Að lokinni vinnu sinni við atvinnuleitina þá hreyfir fólk sig aftur og lýkur sinni vinnu. Aðgangur er opinn öllum atvinnuleitendum en til þess að skrá sig þurfa þátttakendur að fara inn á hjoladivinnuna.is, skrá Vinnumálastofnun sem fyrirtæki, starfsstöðin er skráð „Vinnan mín – atvinnuleitendur hjóla í vinnuna og undir þitt lið skrá þátttakendur „Vinnan okkar“

Keppnin Hjólað í vinnuna hefst 5. maí og því um að gera að skrá sig til leiks sem fyrst!

Upplýsingar um skráningu
Fyrirtæki: Vinnumálastofnun
Starfsstöð – Vinnan mín – atvinnuleitendur hjóla í vinnuna
Þitt lið – Vinnan okkar

Nánari upplýsingar má sjá hér á Facebooksíðunni – Vinnan okkar – atvinnuleitendur hjóla í vinnuna