Vr Utsynismyndir 6

Almennar fréttir - 29.02.2024

Biðstaða í kjaraviðræðum VR

Trúnaðarráð VR hefur fundað og farið yfir stöðuna í kjaraviðræðum en eins og kunnugt er sagði VR sig frá samstarfi breiðfylkingar stéttarfélaga sem á í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. VR og Landssambands ísl. verzlunarmanna hafa sett saman viðræðunefnd sem í sitja fyrir hönd VR Ragnar Þór Ingólfsson, Bjarni Þór Sigurðsson, Halla Gunnarsdóttir, Ólafur Reimar Gunnarsson, Selma Björk Grétarsdóttir og Þórir Hilmarsson og fyrir hönd Landssambands ísl. verzlunarmanna Eiður Stefánsson.

VR og LÍV standa nú utan þeirra viðræðna sem eiga sér stað í karphúsinu. Á fundi trúnaðarráðs VR fyrr í vikunni var farið yfir stöðuna og þá ákvörðun að segja félagið frá samstarfi breiðfylkingarinnar sem kom til vegna ágreinings um forsenduákvæði kjarasamninga. VR telur brýnt að í kjarasamningum til lengri tíma séu sterkar varnir fyrir launafólk og regluleg tækifæri til endurskoðunar. Víðtækt samkomulag er meðal stéttarfélaganna um þau markmið kjarasamninganna að ná niður verðbólgu og vöxtum sem og um kröfur á hendur stjórnvöldum um löngu tímabærar breytingar á tilfærslukerfum. VR og LÍV hafa lagt sitt af mörkum við mótun hvorutveggja frá upphafi þessarar kjarasamningalotu, í nóvember á síðasta ári.

LÍV er stærsta landssamband launafólks á almennum vinnumarkaði með meira en 40 þúsund félaga og er VR þeirra stærst. Viðræðunefndin mun nú taka kröfur aðildarfélaganna áfram í viðræðum við atvinnurekendur.