Vr Utsynismyndir 6

Almennar fréttir - 09.02.2024

Breiðfylkingin lýsir viðræður árangurslausar

Breiðfylking stærstu landssambanda og stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði lýsti í dag viðræður við Samtök atvinnulífsins árangurslausar. Ásteytingarsteinninn er forsenduákvæði um þróun verðbólgu og vaxta. SA hafa hafnað með öllu að í fjögurra ára samningi verði forsenduákvæði til varnar launafólki, hafi markmið varðandi verðbólgu og vexti ekki náðst.

Allir langtíma kjarasamningar á síðustu áratugum hafa verið undirritaðir með forsenduákvæðum sem heimila uppsögn að uppfylltum vissum skilyrðum. Krafa SA um afnám slíkra forsenduákvæða í komandi kjarasamningi er fáheyrð í kjarasamningagerð á Íslandi. Krafan myndi þýða að launafólk eitt ber ábyrgðina og áhættuna af afleiðingum þess ef markmið samnings nást ekki.

Furðulegt er að SA séu ekki reiðubúin að festa í langtímasamning þau markmið sem samtökin sjálf hafa margítrekað lýst sem algjöru meginmarkmiði hans: Að ná niður verðbólgu og vöxtum. Ef meginmarkmið kjarasamnings nást ekki, þá þurfa varnir að vera til staðar fyrir launafólk.

Breiðfylkingin lýsir djúpum vonbrigðum með að SA kjósi að sigla viðræðum í strand vegna þessa atriðis. Sérstaklega er það sorglegt í ljósi þess að aðilar hafa lagt mikið á sig til að ná saman um hóflegar launahækkanir og samkomulag varðandi launalið er í meginatriðum í höfn. Undirritun kjarasamnings var í sjónmáli.
Breiðfylkingin stendur sameinuð í kröfum sínum og í ákvörðun sinni um að lýsa viðræður árangurslausar. Formenn þeirra sambanda og félaga sem standa að Breiðfylkingunni munu funda saman strax á mánudag og nýta tímann í millitíðinni til upplýsingagjafar og samráðs við sitt bakland.

F.h. Breiðfylkingarinnar,
Eiður Stefánsson, formaður samninganefndar Landssambands íslenzkra verzlunarmanna
Hilmar Harðarson, formaður Samiðnar – sambands iðnfélaga
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar stéttarfélags
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands