Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
Vr Utsynismyndir 2

Almennar fréttir - 10.12.2020

Heildarlaun félagsmanna VR 660 þúsund

Heildarlaun félagsmanna VR í september síðastliðnum voru 660 þúsund krónur, miðað við miðgildi launa. Grunnlaun voru 653 þúsund. Þetta er niðurstaða launarannsóknar VR sem birt er á vef félagsins. Hækkun miðgildis heildarlauna frá því í febrúar síðastliðnum, þegar launarannsókn var birt síðast, er 5,1% en hækkun miðgildis grunnlauna er 5,3% á sama tímabili.

Launarannsókn VR byggir á reiknivélinni Mín laun á Mínum síðum á vef félagsins. Miðað er við greidd félagsgjöld og skráningar félagsmanna á starfsheiti og vinnutíma. Niðurstöður eru birtar tvisvar á ári og sýna laun í febrúar og september. Launarannsókn fyrir september 2020 byggir á skráningum ellefu þúsund félagsmanna eða tæplega þriðjungi VR-félaga í þeim mánuði. Hún sýnir grunn- og heildarlaun eftir starfsstéttum óháð atvinnugreinum, laun eftir atvinnugreinum sem og laun eftir starfsstéttum innan atvinnugreina. Laun eru birt ef tíu eða fleiri félagsmenn hafa skráð viðkomandi starfsheiti í launareiknivélina á Mínum síðum. Sjá nánar um framkvæmd launarannsóknar VR.

Við hvetjum félagsmenn til að skrá eða uppfæra upplýsingar um starfsheiti sitt og vinnutíma á Mínum síðum. Þar er jafnframt hægt að skoða stöðu sína og bera saman við laun annarra í sambærilegu starfi.