Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
Vr Fanar Kringlan 2

Almennar fréttir - 04.01.2023

Sigur fyrir Félagsdómi

Uppsögn trúnaðarmanns VR hjá Eflingu stéttarfélagi var ólögmæt að því er fram kemur í dómi Félagsdóms sem kveðinn var upp í gær, 3. janúar 2023. VR fagnar niðurstöðunni sem skýrir betur stöðu trúnaðarmanns á vinnustað.

Tildrög málsins eru þau að Efling stéttarfélag sagði öllu starfsfólki sínu á skrifstofu félagsins upp störfum í apríl á síðasta ári, þar með talið trúnaðarmanni VR. Fyrir Félagsdómi krafðist VR þess að viðurkennt yrði að uppsögn trúnaðarmannsins hafi verið ólögmæt og brotið gegn 11. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur þar sem trúnaðarmaður á að ganga fyrir um starf þegar kemur til uppsagnar. Jafnframt fór VR fram á að viðurkennt yrði að trúnaðarmanninum hafi verið meinaður aðgangur að starfsstöð félagsins, starfsaðstöðu trúnaðarmanns og að því félagsfólki VR á skrifstofu Eflingar hverra hagsmuna honum bar að gæta en slíkt væri brot gegn kjarasamningi VR.

Því var harðlega mótmælt af hálfu VR að nauðsynlegt hafi verið að segja upp öllu starfsfólki skrifstofunnar vegna endurskipulagningar og taldi VR að ekki væri hægt að nota ákvæði um hópuppsagnir í þeim tilgangi að réttlæta uppsögn á trúnaðarmanni. Tilgangur laga nr. 63/2000 um hópuppsagnir sé að leita leiða með samráði til að draga úr uppsögnum sem nauðsynlegar eru vegna óumflýjanlegra aðstæðna í fyrirtæki. Í þessu tilviki hafi hvorki verið rekstrarlegar forsendur né breyttar ytri aðstæður sem réttlættu uppsagnir alls starfsfólks. Í því ljósi geti Efling ekki skýlt sér á bak við hópuppsögn sem lögmæta ástæðu til að segja trúnaðarmanni upp störfum.

Dómurinn staðfesti að ólöglegt hafi verið að segja trúnaðarmanninum upp störfum. Þrátt fyrir skipulagsbreytingar hafi þau störf sem trúnaðarmaðurinn hafði með höndum, sem var aðstoð við félagsfólk vegna kjaramála, verið til staðar eftir skipulagsbreytingar. Þess vegna var talið að uppsögnin hafi hvorki verið nauðsynleg né óhjákvæmileg í tengslum við almennar skipulagsbreytingar og hann hafi því átt að ganga fyrir um starf. Auk þess staðfesti dómurinn að brotið hafi verið gegn kjarasamningi með því að meina trúnaðarmanni að sinna störfum sínum sem trúnaðarmaður á vinnustað þar sem honum hafi verið vísað af vinnustaðnum.

Dómurinn staðfestir að þrátt fyrir að öllu starfsfólki hafi verið sagt upp í hópuppsögn þá réttlæti sú aðgerð ekki ein og sér uppsögn á trúnaðarmanni.

Sjá dóminn hér.