Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
vr_adalfundur_2018-1.jpg

Almennar fréttir - 20.11.2018

Stjórn VR ályktar um brotastarfsemi á vinnumarkaði

Stjórn VR fordæmir öll brot fyrirtækja og starfsmannaleiga á réttindum erlendra starfsmanna og skorar á stjórnvöld að efla eftirlit og eftirfylgni til að uppræta slíkt.

Að undanförnu hefur mikil umræða átt sér stað í samfélaginu vegna uppljóstrana um illa meðferð á erlendu vinnuafli á Íslandi. Þar bera hæst vanefndir á launagreiðslum og þá sérstaklega fyrir yfirvinnu. Stéttarfélögunum hafa borist dæmi um að fólk sé látið vinna nánast allan sólarhringinn og þvælt landshornanna á milli. Ekki síður er erlent launafólk haft að féþúfu með því að draga af launum þess ýmsar aukagreiðslur svo sem himinháa húsaleigu, ferðakostnað, bílaleigu, líkamsræktarkort eða annað það sem launagreiðanda dettur í hug. Jafnvel er seilst svo langt að innheimta gjöld fyrir atvinnuleyfi eða aðstoð við öflunar á því. Margt af þessu er ekkert annað en gróf misnotkun á fólki og gæti flokkast undir mansal.

Stjórn VR gerir þá kröfu til stjórnvalda að tryggð verði með lögum samvinna eftirlitsstofnana og lögreglu við vinnustaðaeftirlit stéttarfélaganna og leggur áherslu á að vinna þurfi heildstætt að vinnustaðaeftirliti á landsvísu í góðri samvinnu og samstarfi við ASÍ og stéttarfélögin í landinu.