Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul

Almennar fréttir - 14.10.2017

Úrbóta krafist í húsnæðis- og kjaramálum

Staðan á húsnæðismarkaði er óviðunandi en skortur er á húsnæði á hagstæðu verði bæði til kaups og leigu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ályktun húsnæðisnefndar á 30. þingi Landssambands íslenzkra verzlunarmanna (LÍV) en þinginu var slitið á Akureyri í dag. Kjara- og húsnæðismál voru helstu mál þingsins.

Guðbrandur Einarsson, formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja, var endurkjörinn formaður LÍV en Guðbrandur hefur verið formaður Landssambandsins undanfarin fjögur ár.

Kjaramál

Í ályktun kjaramálanefndar þingsins er þess m.a. krafist að réttur til launa vegna veikinda barna undir 18 ára aldri í kjarasamningi verði endurskilgreindur þannig að hann eigi einnig við um veikindi foreldra og maka launþega. Ályktunin er birt í heild sinni hér að neðan.

Ályktun um kjaramál

Þing Landssambands íslenzkra verzlunarmanna, haldið á Akureyri dagana 13. – 14. október 2017, ályktar að aðkoma stjórnvalda að kjarasamningum, verði með þeim hætti að lögð verði sérstök áhersla í langtímasamningi á hækkun persónuafsláttar með það að markmiði að lágmarkslaun verði orðin skattfrjáls í lok samningstímans. Einnig að farin verði blönduð leið krónutölu- og prósentuhækkana launa. Að vextir verði lækkaðir og húsnæðisliður verði tekin út úr vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Að lífeyrisgreiðslur atvinnurekenda af launum haldi áfram eftir 70 ára aldur í stað þess að falla niður.
Þess er ennfremur krafist að réttur til launa vegna veikinda barna undir 13 ára aldri verði endurskilgreindur í kjarasamningi þannig að hann gildi til 18 ára aldurs og hann geti einnig átt við um veikindi foreldra og maka launþega. Þá er þess krafist að settur verið inn í kjarasamning kafli um vaktavinnu sem þörf er orðin á með breytingum á vinnumarkaði.
Stefnt skuli að því að vinnuvika styttist í áföngum til aukningar lífsgæða launþega og fjölskyldna þeirra. Krafist er að eftirvinna verði felld úr samningi þannig að eingöngu sé um dag- og yfirvinnu að ræða. Því er einnig beint til samningsaðila að taka til endurskoðunar slysakafla kjarasamninga með það að markmiði að veikinda- og slysaréttur sé sá sami. Lagt er til að ofangreindar kröfur verði lagðar til grundvallar þriggja til fjögurra ára kjarasamningi.

Húsnæðismál

Staða kaupenda er erfið og þá sérstaklega þeirra sem eru að kaupa sína fyrstu eign. Algengt er að leigjendur standist ekki greiðslumat þó húsaleiga sem verið er að greiða sé hærri en greiðslumatið segir til um. Svo segir í ályktun húsnæðisnefndar þingsins en ályktunina má lesa í heild sinni hér að neðan.

Ályktun um húsnæðismál

Þing Landssambands íslenzkra verzlunarmanna telur að staðan á húsnæðismarkaði sé óviðunandi. Skortur er á húsnæði á hagstæðu verði bæði til kaups og leigu. Staða kaupenda er erfið og þá sérstaklega þeirra sem eru að kaupa sína fyrstu eign. Algengt er að leigjendur standist ekki greiðslumat þó húsaleiga sem verið er að greiða sé hærri en greiðslumatið segir til um.
Byggja þarf upp fjölbreyttan leigumarkað svo leigjendur geti leigt húsnæði á viðráðanlegu verði og búið við húsnæðisöryggi. Tryggja verður réttindi leigjenda með öflugri löggjöf og auknu eftirliti. Krafist er áframhaldandi uppbyggingar á óhagnaðardrifnum leigufélögum í líkingu við Bjarg íbúðarfélag. Jafna þarf opinberan stuðning leigjenda og þeirra sem eiga eigið húsnæði svo að húsnæðisbætur hækki til jafns við vaxtabætur.
Krafist er að sveitarfélög klári gerð húsnæðisáætlana og tryggi nægt lóðaframboð fyrir fjölbreytt búsetuform. Þess er krafist að vextir á húsnæðislánum verði lækkaðir þannig að vaxtastigið verði sambærilegt og í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Huga þarf að fjölbreyttari úrræðum fyrir þá sem eru að kaupa sína fyrstu eign.