Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul.
Ragnar Vr Portret 2019 5

Almennar fréttir - 08.10.2021

Vegið að samtakamætti heildarinnar

Nú er hart sótt að verkalýðshreyfingunni úr öllum áttum og ekki eingöngu að þeim grundvallarréttindum sem við teljum sjálfsögð. Nú þegar er hafin atburðarás sem ætti að vera okkur öllum mikið áhyggjuefni. Samtök atvinnulífsins keppast við að staðfesta og styðja tilveru gulra stéttarfélaga og hafa nýlega skrifað undir kjarasamning við eitt þeirra. Gul stéttarfélög, sem gjarnan eru stofnuð af atvinnurekendum eða aðilum þeim tengdum, er félagsskapur sem fer ekki í verkföll, veitir lítið sem ekkert mótvægi og gerir ekki athugasemdir við niðurbrot réttinda og launa. Gul stéttarfélög veita litla sem enga þjónustu eða lögfræðiráðgjöf og úthýsa sjúkrasjóðum til tryggingafélaga svo dæmi séu tekin. Skýrasta og alvarlegasta þróunin hefur átt sér stað í Bandaríkjunum þar sem niðurbrot verkalýðshreyfingarinnar hefur nánast þurrkað út millistéttina í þeirri mynd sem hún var áður.

Fyrst verða gul stéttarfélög að saklausum valkosti sem á yfirborðinu lítur út fyrir að vera hagkvæmur, góður og nútímalegur. Á síðari stigum er launafólki svo kerfisbundið þrýst í að fara til slíkra félaga ef það vill halda vinnunni eða sem skilyrði fyrir nýrri vinnu.

Síðari stigin eru svo að þrýsta fólki frá slíkum félögum, og vera þannig utan stéttarfélaga, undir sömu formerkjum og ofar er lýst þar sem mótstaðan er lítil sem engin. Eftir stendur launafólk sem hefur ekki samtakamátt hreyfingarinnar á bakvið sig. Samtakamátt sem skilað hefur öllum þeim grundvallarréttindum sem við þekkjum í dag og þykja orðin sjálfsögð eins og veikindaréttur, orlof á launum, atvinnuleysistryggingar og svo mætti lengi telja. Eftirleikurinn verður svo auðveldur þegar grundvallarréttindin byrja að þynnast út og hverfa smám saman.

Í verkföllunum í aðdraganda lífskjarasamningana 2019, þeim fyrstu í 30 ár sem VR tók þátt í, hitti ég Bandaríkjamann sem hafði pantað gistingu á hóteli sem aðgerðirnar náðu til. Hann spurði mig hvað væri að gerast og ég fór yfir stöðuna með honum. Í stað þess að reiðast eða gagnrýna fékk hann tár í augun með þeim orðum að hann hafi alla tíð verið verkalýðsmaður og vildi óska þess að staða verkalýðshreyfingarinnar væri betri þaðan sem hann kom. Hann studdi okkur heilshugar áfram rétt eins og allir þeir sem á vegi okkar urðu og komu frá löndum þar sem rík hefð er fyrir baráttu vinnandi fólks.

Einhvern veginn hefur hagsmunaöflum á Íslandi tekist að planta þeirri hugsun að öflug hreyfing vinnandi fólks og samtakamáttur heildarinnar, með öllum þeim vopnum sem því fylgja, sé tabú og helsta ógn við stöðugleika og velsæld og heilbrigði samfélaga. Þetta eru engar dómsdagsspár heldur ískaldur veruleiki sem blasir við íslenskum vinnumarkaði. Og það sem meira er að félagsaðild stéttarfélaga á Norðurlöndunum hefur verið í frjálsu falli síðasta áratug og hafa systurfélög okkar á Norðurlöndunum af þessu miklar áhyggjur en þar er um að ræða nákvæmlega sömu þaulskipulögðu aðferðarfræðina og lýst er hér að ofan. Við þessu þurfum við að bregðast sem fjöldahreyfing og samfélag. Ítök sérhagsmunaafla og atvinnulífsins eru á öllum stigum stjórnsýslunnar og löngu komin yfir öll eðlileg mörk og rauðu ljósin eru farin blikka. Samtök atvinnulífsins eru að hasla sér völl innan verkalýðshreyfingarinnar og við þurfum ekki að spyrja að leikslokum fyrir vinnandi fólk né samfélagið allt þegar SA eru komin báðum megin við borðið

Okkur tókst vel til við gerð síðustu kjarasamninga sem hafa skilað margvíslegum kjarabótum. En það mun skipta verulegu máli varðandi framtíðarlífskjör okkar og afkomenda okkar hvernig tekst til að verjast og sækja fram í þeim næstu. Og þá skiptir máli að hugsa til lengri tíma og spyrja hvernig samfélag viljum við og hvernig ætlum að því skila til afkomenda okkar? Ætlum við að verða kynslóðin sem stóð í lappirnar eða beygði af leið? Lykillinn er samheldni og samtakamáttur. Máttur sem við megum ekki undir nokkrum kringumstæðum glata eða selja.

Ragnar Þór Ingólfsson,
formaður VR.

Leiðari formanns birtist fyrst í VR blaðinu 3. tbl. 2021. Smelltu hér til að lesa blaðið.